Stefnir á stækkun „Grænu smiðjunnar“ í Grindavík
ORF Líftækni er íslenskt líftæknifélag sem er komið í fremstu röð fyrirtækja í heiminum á sínu sviði. Fyrirtækið hefur þróað einstaka tækni við framleiðslu sérvirkra próteina sem eru mjög verðmæt og hefur vakið heimsathygli á sínu svæði fyrir nýsköpun í grænum iðnaði og gæði vöru. Húðvara sem dótturfyrirtækið Sif Cosmetics framleiðir er orðin mjög vinsæl á Íslandi eftir suttan tíma á markaði og slær nú í gegn erlendis. ORF hefur um árabil verið með stóran hluta framleiðslu sinnar í „Grænu smiðjunni“, 2 þúsund fermetra hátæknigróðurhúsi í Grindavík. Á síðasta ári fjárfesti Eignarhaldsfélag Suðurnesja fyrir 12 milljónir í félaginu og á aðalfundi Eignarhaldsfélagsins á Hótel Keflavík sl.mánudag, var Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum ORF Líftækni, fenginn til að kynna starfsemi félagsins, stöðu þess og framtíðarmöguleika.
ORF Líftækni hefur í áratug verið að þróða einstaka tækni við framleiðslu verðmætra, sérvirkra próteina sem notuð eru víða um heim við læknisfræðirannsóknir. Kostur þessarar tækni er mikill sveigjanlegi í framleiðslu sem hentar bæði fyrir framleiðslu á hágæðavöru í litlu magni og iðnaðarframleiðslu í stórum stíl. Áform fyrirtækisins eru að framleiða bæði fyrir húðvöru- og lífvísindamarkaðinn og byggja upp framleiðslu og ræktun í samræmi við við ólíkar þarfir þessara markaða, en í fyrstu hefur fókusinn verið á þróun og framleiðslu á húðvörum.
Mögulegt að framleiða líffæri í framtíðinni
Þessi sérvirku prótein sem fyrirtækið framleiðir kallast vaxtarþættir eða frumuhvatar og eru notuð við frumuræktun í flestum læknis- og líffræðirannsóknum m.a. við rannsóknir á stofnfrumum og krabbameini. Frumuhvatar styðja vöxt frumna og sérhæfingu frumna og gegna m.a. lykilhlutverki í ónæmiskerfi og allri þroskun lífvera. Með vaxtarþáttum er t.d. hægt að taka stofnfrumu og búa til úr henni hvaða vef sem er og segir Björn Lárus líkur á að í framtíðinni verði jafnvel mögulegt að framleiða líffærahluta og líffæri. Mikið er lagt í rannsóknir á þessu sviði og slíkt gæti verið mögulegt innan 5-10 ára.
Húðvaran slegið í gegn
Frumuhvatarnir sem hér um ræðir eru einnig í húðinni og stuðla að endurnýjun hennar en öldrun húðar verður þegar hægist á því ferli. ORF hefur einbeitt sér að þróun húðvörulínunnar, EGF á Íslandi sem var sett á markað fyrir tæpum tveimur árum. Þessi vara hefur hreinlega slegið í gegn, og samkvæmt nýrri könnun hefur um fjórðungur íslenskra kvenna að nota EGF. Það sem er einstakt við þessa framleiðslu er notkun frumuhvatanna en það er mjög erfitt að nota þá í snyrtivörum vegna þess hve viðkvæmir þeir eru fyrir aukaefnum. Eftir miklar rannsóknir og vöruþróun er afraksturinn snyrtivara með mjög fáum aukaefnum, öfugt við það sem almennt gerist í þeim iðnaði.
Húðvaran hefur einnig fengið mjög góðar viðtökur erlendis en þess má geta að ORF er fyrsta fyrirtækið í sameindarækt sem setur slíkar vörur á markað í Evrópu. Komnar eru 4 vörutegundir á markað undir nafninu BIO EFFECT sem fást nú í öllum helstu snyrtivöruverslunum í Evrópu og einnig hjá stærstu flugfélögunum, þar sem varan er söluhæst. Sem dæmi um viðtökurnar þá er BIO EFFECT mest selda snyrtivaran í hinni virtu snyrtivöruverslun Colette í París.
Komnir til að vera á Íslandi
Markaðssetning erlendis hefur gengið vonum framar og fyrirtækið fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum, en það er afrakstur stefnu fyrirtækisins að bjóða erlendu fjölmiðlafólki að koma til Íslands og skoða framleiðsluna. Að sögn Björns eru það því ekki aðeins gæði framleiðslunnar sem skýrir þennan góða árangur heldur ímyndin sem hægt er að byggja á. Staðsetning verksmiðjunnar í hrauninu við Grindavík, einstök framleiðsluaðferð og að upprunalandið sé Ísland, eru að hans sögn ákaflega hentugir þættir við markaðssetningu vörunnar erlendis og hefur þessi ímynd opnað leið inn á ákveðna markaði. Af þeim sökum komi aldrei til þess að framleiðsla fyrirtækisins verði flutt erlendis auk þess sem það sé í raun ódýrara að framleiða á Íslandi en víða annarsstaðar.
Flytja alla framleiðslu til Grindavíkur
Auk framleiðslunnar í Grindavík hefur fyrirækið verið með framleiðslu á Egilsstöðum og á Kleppjárnsreykjum en aðra vinnslu í sérhæfðri aðstöðu í Kópavogi, Hafnarfirði og á Grenivík. Fyrirtækið stefnir nú að því að flytja alla framleiðslu til Grindavíkur og byggja við aðstöðuna sem þar er fyrir. Starfsmenn fyrirtækisins eru nú um 40 talsins og segir Björn að fjölga þurfi fólki í framleiðslunni í kjölfar breytinganna en einnig þurfi að bæta við á markaðssviði vegna sóknar á erlenda markaði.
ORF Líftækni stendur nú á tímamótum þar sem tekjur fyrirtækisins hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár en þær voru um 500 milljónir á síðasta ári. Mikið fé hefur verið lagt í fyrirtækið við uppbyggingu þess, um 2 milljarðar, og sjá nú fjárfestar fram á stigvaxandi hagnað á næstu árum. Fyrirtækið er nú komið yfir erfiðasta hjallann og erfiðustu brotsjóirnir að baki, sem algengt er að stöðvi fyrirtæki í nýsköpun. Sagði Björn að lokum þegar hann þakkaði áheyrnina, að ekkert annað benti til en vöxtur fyrirtækisins yrði mikill á næstu árum og að mjög spennandi tímar væru framundan hjá ORF Líftækni.