Setustofan aldrei notuð
Smur- og hjólbarðaþjónusta Björns og Þórðar í Keflavík er eitt af eldri fyrirtækjum á Suðurnesjum og fagnar um þessar mundir þrjátíu ára afmæli sínu. Margir Suðurnesjamenn hafa skipt við þá félaga í gegnum tíðina enda þekktir fyrir að veita góða þjónustu. Fyrirtækið hóf starfsemi með núverandi eigendum, þeim Þórði Ingimarssyni og Birni Marteinssyni í byrjun maí árið 1982. Í fyrstu var starfsemin eingöngu við Vatnsnesveg 16 með smurstöð og hjólbarðaverkstæði eða til ársins 1996. Þá fluttist hjólbarðaverkstæðið á Framnesveg 23 handan við götuna. Árið 2010 var nafni félagsins breytt og heitir nú Smur- og hjólbarðaþjónustan ehf.
„Þetta hófst með því að við vorum búnir að vera í rólegheitum. Ég hafði verið að vinna í virkjunum og hér heima og það var frekar rólegt. Þegar við Björn sáum svo auglýsingu um að smurstöðin væri til sölu ákváðum við að slá til,“ segir Þórður sem spjallaði við fréttamann Víkurfrétta í tilefni tímamótanna en þeir félagar keyptu reksturinn fyrir 30 árum síðan og fljótlega bættist hjólbarðaþjónustan við. „Þetta fór ágætlega saman, það var nóg að gera.“
Þórður segir miklar breytingar hafa orðið á þeim tíma sem hann hefur verið í þessum bransa. „Bæði varðandi tækni og allt sem viðkemur viðgerðum. Þetta er nú eitthvað auðveldara í dag en það var áður fyrr,“ segir hann.
Hvernig hefur reksturinn gengið í þessi 30 ár?
„Það hefur gengið upp og ofan eins og gengur en það hefur verið mjög slæmur tími hér eftir kreppu. Þó finnst mér þetta vera að glæðast aðeins þó ekki sé mikið í pípunum hérna suðurfrá.“
Hélstu nokkurn tímann að þið mynduð endast 30 ár í þessu?
„Nei. Ég átti aldrei von á því. Maður ímyndaði sér kannski 10-15 ár í þessum bransa. Þessi tími hefur haft sínar hæðir og lægðir en maður hefur alltaf haft gaman af þessu. Það er nú bara það hvað maður á mikið af tryggum viðskiptavinum sem maður hefur kynnst nokkuð vel i gegnum tíðina. Maður er farinn að sjá næstu kynslóðir koma hingað til okkar og það er mjög gaman að hitta allt þetta fólk. Það er þessi mannlegi þáttur í þessu.“
Þórður segist farinn að vera mun minna inni á gólfi en áður og er í raun ekki mikið í vinnu, en hann fór í uppskurð síðastliðið haust. „Maður kemur hérna og fer sendiferðir og annað sem þarf að sinna. Annars er ég ekki jafn mikið hérna nú orðið.“ Á meðan blaðamaður var í heimsókn hafði Þórður þó í nógu að snúast og hann rétt hafði tíma í stutt spjall.
Hvernig hefur þróunin verið í hjólbörðunum?
„Þetta eru mikið betri dekk nú til dags. Diagonal dekkin sem voru notuð hér áður eru í raun bara gúmmíblaðra með lofti í, en radial dekkin sem eru mest notuð nú til dags eru með stálvírum og eru mun betri. Manni fannst sem nagladekkin væru að deyja út en eins og t.d. í vetur þá hafa þau verið að koma sterk inn, enda var þetta erfiður vetur.“
„Við erum ekki vissir hvernig fagna skuli tímamótunum en hugsanlega munum við vera með einhver tilboð á þjónustu okkar nú í næsta mánuði. Svo erum við að auglýsa góð tilboð á sumardekkjum,“ en afmæli fyrirtækisins er 1. maí næstkomandi. Fyrirtækið er eina smur- og hjólbarðaþjónustan sem eftir er í Keflavík. Þórður segir að hinir séu allir komnir inn í Njarðvíkurnar og hlær.
Upphaflega voru þeir tveir Þórður og Björn að sjá um allt saman en þegar mest lét voru um átta starfsmenn hjá fyrirtækinu. Nú eru þrír starfsmenn fyrir utan Þórð og Björn „Nú til dags er törnin farin að dreifast meira og við getum keyrt þetta á færri mönnum. Áður þurftum við að bæta við okkur 3-4 mönnum þegar mest var að gera,“ segir hann. „Hérna fyrst vorum við að vinna mun meira í törnum og langt fram eftir, alveg til 11-12 á kvöldin. Við vorum kannski að taka inn fjölda bíla bara rétt fyrir lokun, og þá var unnið fram á kvöld. Í dag er þetta öðruvísi hugsunarháttur. Hér áður fyrr vildu menn líka oft sjálfir gera hlutina og það var ekki óalgengt að menn skrúfuðu sjálfir undan bílnum. Á smurstöðinni var það líka oft þannig að menn væru ofan í gryfju hjá okkur að grúska í bílunum. Það myndi ekki gerast í dag,“ rifjar Þórður upp og bætir við: „Þegar smurstöðin var byggð þá var gert ráð fyrir setustofu en hún var svo aldrei notuð, menn vissu ekki hvað ætti að gera við svoleiðis og því var hún leigð undir leigubílastöðina.“
Hvernig sérðu famtíðina hjá ykkur?
„Ætli maður reyni ekki að koma þessu í góðan gír aftur eftir þessa lægð undanfarið. Maður hefur oft velt því fyrir sér að hætta þessu en svo held ég að maður hafi það ekkert betra annars staðar. Ég hef haft það fínt í gegnum tíðina, svona heilt á litið. Maður getur ekki kvartað.“