Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sandgerði í vondum málum en staða Voga batnar
Miðvikudagur 18. janúar 2012 kl. 11:42

Sandgerði í vondum málum en staða Voga batnar

Skuldir samstæðu Sandgerðis námu um 450% í lok 2010 sem er hærra skuldahlutfall en hjá Álftanesi.  Sandgerði á þó um milljarð í peningum og hefur því haldið fjárhagslegu sjálfstæði hvað sem síðar verður. Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag.

 
Skuldastaða Voga hefur batnað mikið en sveitarfélagið greiddi í fyrra upp aðrar langtímaskuldir en við Eignarhaldsfélagið Fasteign.  Sandgerði og Vogar voru tvö af allra skuldsettustu sveitarfélögum landsins í lok ársins 2010, segir í fréttaskýringunni. Skuldir sveitarsjóðs Sandgerðisbæjar námu um 411% af heildartekjum ársins 2010 og skuldir sveitarfélagsins Voga námu 334% af tekjum. Hlutfallið í Vogum er aftur á móti orðið miklu lægra þar sem Vogar greiddu niður allar langtímaskuldir sínar í fyrra en tekið skal fram að ársreikningar sveitarfélaga vegna 2011 hafa ekki enn verið lagðir fram.

Staðan hjá Sandgerðisbæ var enn verri í lok árs 2010 þegar fyrirtæki og stofnanir í eigu bæjarins eru teknar með (samstæða) en þá hækkaði skuldahlutfallið í 455%. Í Sandgerði búa tæplega 1.700 manns og skuldir þar á hvern íbúa miðað við efnhagsreikning samstæðu 2010 námu um 3,2 milljónum króna og 2,5 milljónum ef eingöngu er miðað við skuldir sveitarsjóðsins. Bærinn státaði af þeim vafasama heiðri að vera skuldsettasta sveitarfélag landsins, og jafnvel á Álftanesi, sem mikið hefur verið í fréttum vegna skuldamála, eru skuldir á hvern íbúa minni.


Eiga milljarð í peningum

Það eitt og sér segir ekki alla söguna og öfugt við Álftanes hefur Sandgerði haldið fjárhagslegu sjálfstæði sínu sem skýrist af því að sveitarfélagið á um einn milljarð króna í peningalegum eignum. Í reynd má því segja að skuldahlutföll bæjarins séu þannig nokkuð lægri, þ.e. ef laust fé væri dregið frá skuldunum.
Skuldir og skuldbindingar Sandgerðis (samstæða) námu um 5,4 milljörðum króna í loks árs 2010 en 4,4 milljörðum að frádregnum umræddum milljarði. Tekjur samstæðunnar 2010 námu tæpum 1,2 milljörðum króna. Skuldastaðan er því engu að síður mjög þung þótt tekið sé tillit til peningalegra eigna. Hlutfall skulda af tekjum samstæðunnar væri eftir sem áður um 370% og ljóst að miðað við óbreyttar forsendur verður feykilega erfitt, svo ekki sé meira sagt, fyrir Sandgerði að vinna á þeim skuldaklafa.


Hert eftirlit

Það er kannski ekki að ástæðulausu að í nýjum sveitarstjórnarlögum, sem tóku gildi um áramótin, er að finna hertar reglur um fjárhag og rekstur sveitarfélaga enda má til sanns vegar færa að fjárhagurinn sé ekki eingöngu einkamál þeirra því fjárhagsvandræði þeirra lenda á endanum á öðrum sveitarfélögum og/eða ríkinu og þar með á almennum skattgreiðendum. Eins og greint var frá í síðasta Viðskiptablaði er að finna ákvæði í nýjum sveitarstjórnarlögum, sem tóku gildi um áramótin, að skuldir sveitarfélaga megi ekki nema meira en 150% af tekjum. Að vísu geta þau fengið allt að 10 ára aðlögunartíma til þess. En eins og Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, viðurkenndi getur það reynst afar erfitt verkefni fyrir skuldsettustu sveitarfélögin og vel gæti reynt á það að þau þyrftu að fara að hækka skatta á íbúa umfram leyfilegt hámark, eins og Álftanes hefur fengið — en missa þá um leið sjálfsforræði sitt í fjármálunum sem túlka mætti sem eins konar tæknilegt gjadþrot.


Illmögulegt að semja um niðurfellingu

Þótt heyrst hafi af sveitarfélögum vestanhafs, sem hreinlega hafi farið í gjaldþrot, er sá kostur ekki fyrir hendi á Íslandi. Samkvæmt íslenskum lögum verða sveitarfélög „eigi tekin til gjaldþrotaskipta“. Samningsstaða skuldum hlaðinna sveitarfélaga er því að mörgu leyti miklu erfiðari en fyrirtækja eða einstaklinga í sömu stöðu sem geta mögulega nýtt sér lög um nauðasamninga og gjaldþrot til að knýja fram eftirgjöf á skuldum. Sem dæmi má nefna að skuldir Sandgerðis eru að mestu við tvo aðila, Lánasjóð sveitarfélaga, sem er með veð í tekjum sveitarfélagsins á móti, og síðan skuldir vegna langtímaleigusamninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign.

Ekki er því líklegt að Sandgerði næði fram niðurfellingu á skuldum sínum jafnvel þótt svo illa færi að bærinn réði ekki við þær.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Mjög slæm skuldastaða

Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði, dregur ekki dul á að skuldir Sandgerðisbæjar séu miklar í samtali við Viðskiptablaðið: „Já, skuldastaðan er mjög slæm. Við höfum auðvitað verið að gera ýmsar breytingar til þess að draga úr rekstrarkostnaði en skuldir og skuldbindingar eru að sliga Sandgerði. Um það bil helmingurinn af skuldum okkar eru skuldbindingar gagnvart Eignarhaldsfélaginu Fasteign og hinn helmingurinn er að stórum hluta skuldir við Lánasjóð sveitarfélaga.
Greiðslubyrðin er þung og skuldirnar eru eiginlega meiri en sveitarfélag af þessari stærðargráðu ræður vel við. Við búum hins vegar vel að eiga um einn milljarð í peningum en það er söluhagnaður af hluta Sandgerðis í Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma.?Við eigum í náinni samvinnu við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og höfum fengið utanaðkomandi ráðgjöf til þess að fara gaumgæfilega ofan í saumana á rekstrinum og skuldastöðunni. Núna erum við að vinna að þriggja ára fjárhagsáætlun og ég á von á því að við munum einnig gera tíu ára áætlun eins og ný sveitarstjórnarlög kveða á um.“
Sigrún segir að skuldirnar séu til komnar vegna mikilla framkvæmda fyrir hrun, skólabygginga, hafnarframkvæmda, gatnaframkvæmda o.s.frv.  Aðspurð segir hún ólíklegt að Sandgerði muni leita eftir undanþágu til þess að hækka skatta umfram leyfileg mörk, eins og Álftanes gerði. „Ég held að þetta samfélag beri það einfaldlega ekki.“

http://www.vb.is/