Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 4. apríl 2002 kl. 15:47

Samningar um stálverksmiðju undirritaðir fyrir miðjan apríl

Þær fréttir að fyrirhugað sé að byggja stálverksmiðju í Helguvík, sem gæfi 250 ný störf inn á svæðið, hafa varla farið framhjá neinum. Þeir Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri MOA skrifstofunnar, og Pétur Jóhannsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Suðurnesja, hafa unnið ötullega að þessu máli án þess að vera að blása það upp í fjölmiðlum. Blaðamaður hitti þá í gær til að forvitnast meira um þessa stóru stálverksmiðju og vinnuna við að fá hana hingað til Suðurnesja.Hvernig kom verkefnið til?
Ólafur: Það eru nokkrir samverkandi þættir, bæði auglýsingar hafnarinnar hjá Fjárfestingastofu Íslands og svo í gegnum heimasíðuna. Samkvæmt okkar upplýsingum var Ísland alltaf inni í myndinni sem vænlegur kostur, það voru ekki mörg lönd sem komu til greina, lengst af vorum við í samkeppni við Noreg. Síðan erum við búnir að vera í nánu sambandi, mest í gegnum Fjárfestingastofu Íslands og við Pétur höfum haft þá vinnureglu að svara alltaf samdægurs eða þá á umsömdum tíma.
Hver hefur vinna MOA verið?
Ólafur: Við höfum verið að fylla inn í þær eyður sem vantaði uppá til að fyrirtækið geti kynnt heilstæða mynd fyrir fjárfestum. Helguvík og upplýsingar um Helguvík eru bara hluti af stærri heild, við erum bara hlekkur í keðjunni.
Hvaða hugmyndir eru í gangi verðandi stálverksmiðjuna?
Pétur: Við höfum fengið þær upplýsingar að þetta verði 200 til 250 manna vinnustaður og að þetta verði 17.500 fermetra verksmiðja. Þeir hafa óskað eftir landi í Helguvík sem er um 40.000 fermetrar og við vitum hvað verður framleitt í verksmiðjunni.
Er búið að ganga endanlega frá samningum, er öruggt að verksmiðjan rísi hér en ekki í Noregi?
Ólafur: Þeir eru búnir að segja að hún muni rísa hér, það er orðið skjalfest. Það þarf náttúrlega að loka öllu þessu máli með Helguvík áður en fjármögnunin verður kláruð. Við erum búnir að sinna okkar vinnu og núna eru lögfræðingarnir að klára sína vinnu. Það er ekkert sem stendur út af borðinu og öll þessi vinna hefur gengið mjög vel. Pétur: Við settum okkur tímamörk, og í þeim miðum við við að það verði skrifað undir samninga nú um miðjan apríl. Þessir aðilar hafa komið tvisvar til Íslands og verkefnið varð raunverulegt í okkar huga þegar þeir réðu sér lögfræðing hér, sem sér um þeirra mál.
Hvernig störf verða í boði, og fyrir hverja: karla, konur, faglært eða ófaglært fólk?
Ólafur: Það verður örugglega stefna fyrirtækisins að gera ekki upp á milli kynja, það er alveg pottþétt.
Pétur: Það er talað um að það séu 150 störf á gólfinu, það er fólk sem verður þjálfað upp í verksmiðjunni, auk þess að fá undirbúningsnámskeið, enda um mjög sérhæfð störf við vélbúnað að ræða.
Ólafur: Þetta verður ný atvinnugrein og það held ég að sé mikilvægt fyrir okkur að koma okkur upp iðnaði sem er stöðugur, ólíkt fiskvinnslunni sem við vitum öll hvernig er.
Hver er ávinningur hafnarinnar við svona framkvæmdir?
Pétur: Þetta mun auka tekjur hafnarinnar umtalsvert, en kannski ekki nóg til að standa undir sér, en alla vega vonum við að hún geri það í framtíðinni. Hafnarstjórnin tók þá ákvörðun að vera ekki að segja frá hlutunum fyrr en kominn væri undirritaður samningur. Þeir hafa fylgst með málinu og stutt það. Við höfum brennt okkur á því að vera að segja of mikið og verið með væntingar sem hafa ekki staðist og við ætluðum ekki að segja frá þessu máli fyrr en samningar væri í höfn, en það voru aðrir sem tóku af okkur ráðin og gerðu málið opinbert. Við lítum á þetta sem byrjunina á frekari uppbyggingu hafnarinnar. Við sjáum fyrir okkur annan viðlegukant og þá annað svæði til hliðar við þetta. Það er alltaf þannig að þegar einn kemur á svæðið þá eykst eftirspurnin, höfnin nálgast það að verða sjálfbær og þetta er góður áfangi á þeirri leið.
Koma Suðurnesjamenn til með að eiga eitthvað í verk-smiðjunni?
Ólafur: Nei, eins og við skiljum þetta verður eingöngu um erlent
fjármagn að ræða.

Verða einhver umhverfisspjöll í Helguvík við byggingu verksmiðjunnar?
Pétur: Nei, það verða engin umhverfisspjöll, en það þarf að sprengja út eins og var gert fyrir SR mjöl. Þetta er gríðarleg breyting á höfninni, það er engin mengun af framleiðslunni vegna þess að þetta er ekki stálbræðsla, heldur völsun og þess háttar, og því þarf verksmiðjan ekki að fara í umhverfismat. Verksmiðjan verður á skipulögðu iðnaðarsvæði og það stóð til að sprengja svæðið niður síðar meir og því þarf ekki að breyta neinu skipulagi.
Breytir þetta ímynd Suðurnesja á einhvern hátt sem atvinnusvæðis?
Ólafur: Já, en auðvitað hefðum við vilja sjá fleiri hálaunastörf, en þau koma síðar. Ég er alveg viss um það. Fólk á eftir að koma hingað vegna þess að þetta verður sterkara atvinnusvæði.
Hvernig sjá menn fyrir sér hátækni- og verksmiðjuiðnað á svæðinu, er eitthvað fleira í bígerð?
Ólafur: Já, við erum að klára þetta með stálverksmiðjuna, þegar við erum búin að loka því verkefni þá förum við beint í næsta verkefni, það er fullt að gerast. Vonandi sjáum við nýtt olíufélag í Helguvík innan skamms, Íslandsolía hefur sótt um lóð þar. Síðan er þetta netþjónabú sem tengist Hitaveitu Suðurnesja, sem við höfum verið að vinna í undanfarna mánuði. Við eigum von á niðurstöðum um það á næstu vikum, það er að segja hvort þetta sé vænlegt eða ekki, það eru breskir sérfræðingar að kanna það.
Pétur: Síðan hafa þeir sem byggja stálverksmiðjuna hug á því að fá viðbótarlóð fyrir annarri verksmiðju í tengslum við þessa verksmiðjuna í framtíðinni.
Ólafur: Það sem er sérstakast við þessa verksmiðju er það að þessir erlendu aðilar eru ekki að horfa til orkunnar þegar þeir velja að vera hérna, heldur er það staðsetningin sem ræður valinu. Svo en náttúrulega hagstætt skattaumhverfi og ég held að þessir aðilar séu bara að uppgötva Helguvík sem vænlegan fjárfestingarkost, það að hafa svona góða höfn og mikið land er svo sjaldgæft.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024