Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Samið um aðkomu Reykjanesbæjar að fiskeldi Samherja á Reykjanesi
Föstudagur 21. júní 2024 kl. 11:48

Samið um aðkomu Reykjanesbæjar að fiskeldi Samherja á Reykjanesi

Samherji fiskeldi ehf. og Reykjanesbær undirrituðu á þriðjudag samkomulag um aðkomu sveitarfélagsins að uppbyggingu Samherja fiskeldis ehf. á landeldisstöð í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi. Fiskeldisstöðin samanstendur af seiðastöð, áframeldisstöð og vinnsluhúsi ásamt stoð- og tæknibyggingum. Eldisstöðin miðast við laxeldi en þó er gert ráð fyrir möguleikanum að í stöðinni geti einnig verið bleikju- og regnbogasilungseldi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í umhverfismatsskýrslu verkefnisins kemur fram að aðstæður í Auðlindagarðinum séu afar hagstæðar hvað snertir aðgengi að jarðsjó, ylsjó og rafmagni. Allt frárennsli stöðvarinnar verður hreinsað til að lágmarka álag á viðtaka. Samherji fiskeldi stefnir á að framleiðslugeta nýrrar eldisstöðvar verði 40.000 tonn á ársgrundvelli. Til framleiðslunnar áætlar félagið að nota að hámarki 30.000 l/s af jarðsjó, um 100 l/sek af ferskvatni og um 3.200 l/s af ylsjó frá Reykjanesvirkjun sem í dag rennur að hluta ónýttur til sjávar.

Ráðgert er að framkvæmdir við eldisgarðinn hefjist þegar fjármögnun og öllum leyfismálum tengdum framkvæmdinni er lokið og verður þeim skipt í þrjá áfanga. Framkvæmdir við fyrsta áfanga taka um tvö ár en heildar framkvæmdatími er um tíu ár.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri segir þetta samkomulag í megin dráttum þríþætt. „Í fyrsta lagi er fyrirtækinu heimilað að reisa vinnubúðir á svæðinu fyrir þá 300 starfsmenn sem koma til með að vinna þar á framkvæmdatímanum og í öðru lagi að annast sjálft alla gatnagerð innan lóðar. Fyrir þetta mun fyrirtækið greiða Reykjanesbæ 200 milljónir. Og þar sem svæðið gæti mögulega farið af stað í þeim jarðhræringum sem standa yfir er tekið á því að fyrirtækið ber alla ábyrgð á sínum eignum og getur ekki krafið Reykjanesbæ um bætur ef það verður fyrir tjóni.“ Við uppbyggingu landeldisstöðvar af þessari stærðargráðu verður til mikil þekking og reynsla tengd fiskeldi á landi og nýtingu jarðhita við starfsemina. Í eldisstöðinni koma til með að starfa um 100 starfsmenn með mismunandi menntun og reynslu þegar stöðin verður komin í fullan rekstur, en á  framkvæmdatíma má jafnframt gera ráð fyrir að 300-400 starfsmenn vinni við byggingu stöðvarinnar, þ.e. iðnaðarmenn, starfsmenn verktaka og tæknimenn. Þá eru ótalin afleidd störf, bæði á framkvæmdatíma og eftir að rekstur hefst.