Sameining Íslandsbanka og Byrs hf. samþykkt
Alþingi hefur samþykkt sölu á hlut ríkisins í Byr hf. til Íslandsbanka og allri samningagerð er nú lokið. Með því er ljóst að Íslandsbanki og Byr munu sameinast, en áður höfðu Fjármálaeftirlit, Samkeppniseftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA veitt samþykki sitt fyrir kaupunum. Íslandsbanki kaupir 11,8% hlut íslenska ríkisins og 88,2% hlut skilanefndar Byrs á 6,6 milljarða króna. Íslandsbanki og Byr hafa báðir útibú í Reykjanesbæ.
Löng saga og áþekk fyrirtækjamenning
Bankarnir tveir munu nú sameinast undir merkjum Íslandsbanka og mynda öflugt fjármálafyrirtæki þar sem áhersla er lögð á framúrskarandi og persónulega þjónustu.
Sameinaður banki mun byggja á ríkri sögu sem nær allt aftur til ársins 1875 en þá var Sparisjóður Álftaneshrepps stofnaður sem síðar sameinaðist Sparisjóði Hafnarfjarðar sem var stofnaður 1902. Þá var Sparisjóður Arnarneshrepps stofnaður árið 1884 en hann sameinaðist síðar Sparisjóði Norðlendinga ásamt Sparisjóði Glæsibæjarhrepps. Sparisjóður Kópavogs var stofnaður 1954 og Sparisjóður vélstjóra árið 1961. Þessir sparisjóðir sameinuðust síðan undir merkjum Byrs á árunum 2007-2008.
Íslandsbanki hinn gamli var stofnaður að frumkvæði erlendra aðila árið 1904 með það að markmiði að veita fjármagni í iðnað og sjávarútveg á Íslandi. Íslandsbanki hefur alla tíð síðan verið leiðandi banki í sameiningu og hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði. Er skemmst að minnast sameiningu Alþýðubanka, Iðnaðarbanka, Útvegsbanka og Verzlunarbanka undir merkjum Íslandsbanka árið 1990.
Öflugt fjármálafyrirtæki
Sameinaður banki byggir þannig á hartnær 130 ára sögu sparisjóða annars vegar og rúmlega 100 ára sögu Íslandsbanka hins vegar. Með sameiningunni næst fram mikilvæg hagræðing á íslenskum fjármálamarkaði sem er liður í uppbyggingu hans.
Efnahagsreikningur sameinaðs banka verður um 814 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall bankans, miðað við samrunareikning, er vel yfir 20% en núverandi lágmarkskrafa Fjármálaeftirlitsins er nú 16%.
Sameining útibúa
Útibú bankans verða rekin áfram með óbreyttu sniði fyrst um sinn en gera má ráð fyrir að fyrsta sameining útibúa fari fram eftir áramót. Viðskiptavinir Byrs hf. geta áfram notað alla innlánsreikninga, greiðslukort og heimabanka eins og áður, sem og aðra þjónustu.
Stefnt er að því að sameiningarferlinu ljúki á fyrstu mánuðum næsta árs. Starfsmenn sameinaðs banka munu leggja áherslu á að vanda þá vinnu eins og mögulegt er í góðu samstarfi og samráði við helstu hagaðila, þ.á.m. viðskiptavini, starfsmenn, sveitarfélög og félaga- og hagsmunasamtök.
Sameining Byrs og Íslandsbanka er liður í mikilvægri hagræðingu í fjármálakerfinu en stjórnvöld, eftirlitsaðilar og eigendur bankans hafa lagt áherslu á slíka hagræðingu. Áhersla verður lögð á að ganga með ábyrgum hætti til slíkra aðgerða og að eyða óvissu sem allra fyrst.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:
„Ég fagna þessum tímamótum um leið og ég býð nýja viðskiptavini og starfsfólk velkomið í sameinaðan banka. Sameining Íslandsbanka og Byrs þýðir að við erum orðin eitt öflugasta fjármálafyrirtæki á Íslandi. Í krafti stærðarinnar vonast ég eftir að við getum veitt viðskiptavinum okkar enn betri fjármálaþjónustu. Sameiningin hefur auk þess í för með sér ákveðna hagræðingu sem er afar mikilvægt skref í enduruppbyggingu íslenska fjármálakerfisins. Fyrirtækin eiga sér merka sögu, sterk gildi og fyrirtækjamenning þeirra er mjög áþekk. Við munum leggja áherslu á að taka það besta úr hvorum banka og mynda eina öfluga heild.“
Jón Finnbogason, forstjóri Byrs:
„Óvissutíma um framtíð Byrs er nú lokið og nú skapast því tækifæri til að horfa til framtíðar og byggja upp sterkt og traust fjármálafyrirtæki. Bankarnir falla vel hver að öðrum, bæði hvað varðar góða þjónustu og staðsetningu útibúa. Síðastliðin þrjú ár hafa verið óvissutími fyrir starfsmenn og viðskiptavini Byrs. Ég vil þakka þeim fyrir þá tryggð sem þeir hafa sýnt bankanum á þessum tíma.“