Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sækjum stíft um leið og við höfum unnið boltann aftur
Magnús Sverrir Þorsteinsson og sonurinn Rúrik Leó.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 15. apríl 2020 kl. 10:03

Sækjum stíft um leið og við höfum unnið boltann aftur

-segir Magnús Sverrir Þorsteinsson, eigandi Blue Car Rental sem fagnar tíu ára afmæli 

„Leikurinn er breyttur. Það er engin spurning. En við erum alltaf bjartsýn. Við spilum sterkan varnarleik núna en við erum jafn góð og jafnvel betri í sóknarleiknum. Það er því ætlunin að sækja stíft um leið og við höfum unnið boltann aftur,“ segir Magnús Sverrir Þorsteinsson, eigandi Blue Car Rental en fyrir tíu árum hófst starfsemi bíaleigunnar með níu bílum. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið ótrúlegur á áratug og Víkurfréttir ræddu við Magnús um fortíðina, nútíðina og framtíðina.

Hvernig er að upplifa tíu ára afmæli fyrirtækisins á tímum Covid19?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ef við byrjum á því að taka 10 ára afmælið fyrir þá er það auðvitað stór áfangi og töluvert afrek. Ekki síst í ljósi þess hversu mikið fyrirtækið hefur vaxið, hversu margir hafa unnið að þessu með okkur og hvernig okkur hefur tekist að hafa áhrif á atvinnulífið hér á Suðurnesjum. Þó að aðstæður séu töluvert öðruvísi akkúrat núna má ekki gleyma því að staldra við, fagna og vera stolt að því af því sem við höfum áorkað og skapað í sameiningu.

Stækkun fyrirtækisins hefur verið ævintýraleg, hvað eruð þið með marga bíla og mikla starfsemi?

Eins og með öll fyrirtæki þá þarf að byrja einhverstaðar. Ég væri hins vegar að segja ósatt ef ég hefði talið að við yrðum á þessum stað í dag. Ég hélt því lengi vel fram á fyrstu árunum að við myndum aldrei fara yfir 100 bíla. Við fórum aðeins upp fyrir það en í dag telur bílaflotinn um 2.000 bíla og Blue fjölskyldan hefur mest talið tæplega 100 starfsmenn. Í dag er fyrirtækið miklu meira en bara bílaleiga, þó svo að það sé það sem kjarnastarfsemin snýst um. Við búum yfir gríðarlegri þekkingu á mörgum sviðum en nánast öll þjónusta og viðgerð bílanna fer fram innanhúss. Við erum með öflugt bíla-, dekkja-, sprautu- og rúðuverkstæði ásamt ýmsu öðru. Þá hefur skrifstofan vaxið mikið en fyrirtækið er mjög gagna- og upplýsingadrifið auk þess sem öll rafræn vegferð er okkur mikilvæg og í forgrunni. Hefur þetta allt verið lykilþáttur í vexti fyrirtækisins síðustu ár.

Hvernig hefur veiran haft áhrif á reksturinn?

Það er ekkert launungamál að Covid19 veiran hefur verið stórt högg á starfsemina okkar sem og greinina í heild sinni. Páskarnir sem vanalega eru afar góðir dagar í ferðaþjónustu verða til að mynda með mjög takmarkaða starfsemi þar sem lítið sem ekkert er að gera. Ég held að heimsbyggðin sé sameinuð og vel upplýst um áhrifin og þar erum við engin undantekning. Þetta er tímabundið verkefni sem þarf að leysa. Við munum að sjálfsögðu gera okkar besta þar eins og annarsstaðar. Við höfum tekist á við áföll áður, t.d. falls WOW Air, en áhrif þeirra voru þó margfalt minni.

Hvað með atriði eins og bílakaupa og starfsmannamál í Covid?

 Bílaleiga er gríðarlega fjárfrekur rekstur. Það þarf mikið fjármagn í að halda fjárfestingum við, endurfjárfesta í bílum og reka fyrirtæki af þessari stærðargráðu. Bílakaup er afar stór þáttur í því en fjárfestingar fyrirtækisins hlaupa á milljörðum í dag. Í tilfelli okkar og fleirri innan ferðaþjónustunnar er ekki bara um tekjustopp að ræða heldur miklar endurgreiðslur líka. Það má kalla þetta tvöfaldan mínus. Bílakaup er það sem kallar á hvað mest fjármagn og á svona tímum þurfa þau að bíða. Sem fyrirtæki sem er eingöngu í ferðaþjónustu erum við í grunninn afleiða af Icelandair og öðrum flugfélögum. Það er því mikilvægt fyrir okkar rekstrargrundvöll að bregðast við með réttum hætti þegar slíkar sviptingar verða. Að vernda störf fólks og grunnreksturinn var því sett í fyrsta sæti. Við teljum okkur hafa tekist ágætlega til í að vernda störf. Okkar helsta markmið var að vernda eins mörg störf og hægt var og viðhalda þannig þekkingu innan fyrirtækisins. Þar komu úrræði yfirvalda um skert starfshlutfall sér vel. Það úrræði er afar gott, þó tímabundið sé, og gerir okkur kleift að verja mun fleiri störf og viðhalda þekkingu. Öðruvísi hefði það ekki verið hægt. Það var þó óhjákvæmilegt að ráðast í uppsagnir samhliða skertu starfshlutfalli, eitthvað sem við höfum aldrei þurft að gera í svo miklum mæli áður og án nokkurs vafa það erfiðasta sem við höfum þurft að gera frá stofnun fyrirtækisins.

Ertu búinn að sjá fyrir þér hvað gerist eftir Covid, ertu bjartsýnn á að ferðamannaiðnaðurinn, sem þið lifið á, verði jafn sterkur og hann hefur verið fyrir Ísland?

Leikurinn er breyttur. Það er engin spurning. En við erum alltaf bjartsýn. Við spilum sterkan varnarleik núna en við erum jafn góð og jafnvel betri í sóknarleiknum. Það er því ætlunin að sækja stíft um leið og við höfum unnið boltann aftur. Það mun taka tíma fyrir ferðamennsku um allan heim að ná fyrri styrk. Það er alveg ljóst. En á sama tíma erum við öll mennsk, við elskum öll að ferðast og það hefur ekkert breyst þar. Ferðahegðun og þarfir viðskiptavina munu breytast en Ísland er ennþá sami frábæri áfangastaðurinn og hann mun blómstra aftur – ég er sannfærður um það. 

Magnús með Guðrúnu Sædal eiginkonu sína og Þorstein bróður sinn sitthvoru megin á góðri stundu en þau vinna bæði í fyrirtækinu.

Magnús Sverrir og Guðrún Sædal Björgvinsdóttir, kona hans, með börnum þeirra, Rúrik Leó, Ingu Lind og Kristínu Emblu.

Starfsmenn Blue Car og Hæfingarstöðvarinnar á Suðurnesjum gerðu sér glaðan dag á síðasta ári.