Sæbýli stækkar og margfaldar framleiðsluna
Sæbýli í Vogum er nú óðum að stækka og um þessar mundir stendur yfir hlutafjárútboð hjá fyrirtækinu. Boðnar eru út 16 millj.kr. á nafnvirði á genginu 7,5, eða 120 millj.kr. að söluvirði. Heildarhlutafé fyrirtækisins eftir útboð verður 36,7 millj. kr. að nafnvirði eða rúmar 275 millj. kr. að markaðsvirði. Árið 1998 voru flutt út 600 kg. af sæeyra, sem er aðal útflutningsafurð eldisstöðvarinnar, en árið 2005 er stefnt að því að flytja út 200 tonn. Viðræður eru nú á lokastigi við fyrirtæki í Kanada um að setja þar upp eldisstöð á sæeyra þar sem íslenski stofninn er talinn vera mjög góður. Ræktun á sandhverfu hefur einnig verið stunduð hjá Sæbýli um nokkurt skeið með góðum árangri. Silja Dögg Gunnarsdóttir gerði sér ferð út í Voga í síðustu viku og fræddist um starfsemi fyrirtækisins og framtíð þess sem virðist vera skínandi björt, svo ekki sér meira sagt.Borða söl og þaraSæbýli var stofnað árið 1993 af Ásgeiri E. Guðnasyni, Agnari Steinarssyni og Sigurgeir B. Kristinssyni. Jón Gunnarsson hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins síðan 1999. „Fyrir 14 árum síðan voru sæeyru fyrst flutt frá Kaliforníu til Íslands en ræktunartilraunir með þau gengu ekki vel í fyrstu. Ásgeir E. Guðnason, vann þá hjá Hafrannsóknarstofnun og fékk mikinn áhuga á ræktun þeirra. Hann komst að því þau þyrftu söl til að vaxa, en sæeyrun eru þaraætur. Fjölgunin gekk vel, undir handleiðslu Ásgeirs og þá stofnaði hann Sæbýli ásamt fleirum“, segir Jón þegar hann er spurður út í sögu fyrirtækisins.Tímafrekt ræktunarferliKjörhiti sæeyrans er 15-16 gráðu heitur sjór en sjórinn við eldisstöðina í Vogum er mjög hentugur þar sem hann er 11 gráðu heitur. Það þarf því ekki að hita hann upp um margar gráður til að sæeyrun geti vaxið og dafnað í volgum sjó. Jón segir að eldið hafi þróast í gegnum árin og samhliða því hafi stöðin stækkað. „Það má eiginlega skipta núverandi ræktunarferli í þrjú skref. Fyrst þarf að fjölga dýrunum, en fjölgunin fer fram í gróðurhúsum. Dýrin eru þar í 6-7 mánuði og nærast á þörungum en þeir þurfa mikla birtu til að vaxa. Síðan tekur við ungviðaeldi og eru dýrin þá flutt í annað hús og þar ölum við þau í 1-1,5 ár. Þá eru þau flutt í „áframeldi“, eins og við köllum það, en þau verða ekki útflutningshæf fyrr en þau eru orðin 4-4,5 árs gömul“, segir Jón og af þessu má sjá að eldið er mikil nákvæmnisvinna sem tekur langan tíma. Étin lifandiÞrátt fyrir langt ræktunarferli þá er eldið hagkvæmt því afurðaverð er mjög hátt að sögn Jóns. „Meginhluti framleiðslunnar er seldur til Japans en minna magn til Bandaríkjanna. Sæeyrun eru flutt út lifandi með flugi en Japönum þykir þau herramannsmatur og sneiða þau niður og borða á meðan þau eru enn lifandi“, segir Jón og það er ekki laust við að blaðamaður finni fyrir nettri velgju við að hlusta á lýsinguna, en sinn er siðurinn í landi hverju...Eldisstöð í KanadaJón segir að Sæbýli sé eina stöðin í heiminum þar sem sæeyru eru alin upp við stöðugar aðstæður, þ.e. hitastiginu stjórnað og dýrin valin saman til æxlunar. Annars staðar í heiminum eru yfirleitt meiri sveiflur á hitastigi og einnig hafa komið upp vandamál þar vegna sjúkdóma og sníkjudýra. Þessi vandamál hefur Sæbýli verið laust við. „Við erum nánast með eina ósýkta stofninn í heiminum af þessari tegund og þess vegna munum við snúa okkur meira að því að selja ung dýr til annarra eldisstöðva. Sá markaður er geysilega stór og mjög arðbær“, segir Jón og upplýsir um leið að viðræður við kanadískt fyrirtæki séu nú á lokastigi varðandi kaup þeirra á eldisdýrum frá Sæbýli. „Við leggjum til þekkingu og dýr og Kanadamenn húsnæði og fjármagn. Þetta er í fyrsta sinn sem við komum þekkingu okkar í verð og fáum í stað eignir í formi hlutabréfa sem eru mikils virði.“ Ræktun á sandhverfu hefur staðið yfir hjá Sæbýli síðan 1999 og að sögn Jóns hefur hún gengið mjög vel. „Vöxtur hefur verið góður og afföll lítil. Sandhverfan er einn dýrasti flatfiskurinn á markaðinum en við ætlum hana eingöngu til útflutnings í framtíðinni. Fyrstu slátranir gætu þó farið á innlendan veitingahúsamarkað ef áhugi reynist fyrir hendi.“Salan margfaldast á fáum árumFyrstu sæeyrun frá Íslandi voru flutt á erlendan markað árið 1998, en þá voru seld 600 kg. Árið 1999 óx salan upp í 8 tonn og gert er ráð fyrir að hún verði um 22 tonn á þessu ári. „Núverandi aðstaða dugir vel til að framleiða og selja um 40 tonn á ári en markaðir eru nægir og salan gengur vel“, segir Jón og bætir við að stefnt sé að því að selja 200 tonn árið 2005. „Til að það sé mögulegt verður að auka hlutafé verulega.“ Söluverðmæti 120 milljónir krónaÁ aðalfundi Sæbýlis, 2. maí sl., var ákveðið að auka hlutafé og undirbúa þannig stækkun stöðvarinnar. Nú er í gangi hlutafjárútboð og boðnar eru 16 millj. kr. á nafnvirði á genginu 7,5, en söluverðmæti er 120 millj.kr. „Viðbrögð hluthafa hafa verið góð en forkaupsréttarfrestur er ekki liðinn. Ef núverandi hluthafar kaupa ekki öll bréfin þá verða þau boðin almennum fjárfestum“, segir Jón. Stærsti hlutahafi í Sæbýli í dag er CBC Ltd., með 30% hlutafé. Það er stórt japanskt fyrirtæki sem er aðallega í hátækniiðnaði. Sæbýli er eins konar gæluverkefni hjá þeim að sögn Jóns. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á 15% hlut, Eignarhaldsfélag Suðurnesja 14% og Hitaveita Suðurnesja 12%. Þetta eru stærstu hluthafarnir en heildarfjöldi þeirra er 26.Mörg þúsund fermetrar í viðbótÁ næstu þremur árum verður gróðurhúsarýmið, þar sem ungviðaframleiðslan fer fram, aukið um helming og auk þess á byggja þrjú ný eldishús. Samanlagt 4000 þúsund fermetra. „Ef ég á að draga stefnu fyrirtækisins saman í stuttu máli þá má segja að stækkun sé á dagskrá, eins og áður hefur komið fram, og við ætlum okkur samhliða henni að gera reksturinn arðbærari. Við munum leggja meiri áherslu á útflutning yngri dýra til eldisstöðva erlendis, jafnframt því að við aukum útflutning á fullvöxnum dýrum. Ræktun á sandhverfu, sem hefur gefist einstaklega vel mun einnig verða aukin talsvert. Við ætlum okkur einnig að koma þekkingu okkar í verð og gerast aðilar að öðrum fyrirtækjum og styrkja þannig stöðu okkar“, segir Jón Gunnarsson að lokum.