Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Reykjaneshöfn rekin með 103,5 milljóna tapi
Fimmtudagur 26. mars 2015 kl. 15:19

Reykjaneshöfn rekin með 103,5 milljóna tapi

Reykjaneshöfn var rekin með 103,5 milljóna króna tapi í fyrra, sem er töluvert betri afkoma en árið 2013 þegar tapið nam 650,5 milljónum. Tekjur jukust verulega á milli ára, fóru úr 219,3 milljónum árið 2013 í 609,3 milljónir í fyrra. Skýrist munurinn einkum af tekjuliðnum „lóðagjöld og efnissala úr námu“, en þær tekjur námu árið 2013 9,3 milljónum, en voru 382,3 milljónir í fyrra. Þó voru tekjurnar í fyrra töluvert undir áætlun, en þar var gert ráð fyrir 711,9 milljónum í tekjur. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins á vb.is.

Rekstrarhagnaður nam 382,6 milljónum króna í fyrra, samanborið við aðeins rétt rúmar fjórar milljónir árið 2013, en fjármagnsgjöld vega þungt í rekstrinum. Námu þau 655,5 milljónum króna árið 2013, en 488,4 milljónum króna í fyrra. Eigið fé er neikvætt um 4,5 milljarða króna.

Skuldir Reykjaneshafnar námu um síðustu áramót 7,8 milljörðum króna og þar af voru skuldir við lánastofnanir 4,3 milljarðar. Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að eignastaðan muni styrkjast á næstu árum, en það mat byggir á því að virði lóðargjalda á óúthlutuðum lóðum í Helguvík, samkvæmt gjaldskrá, sé um 4,5 milljarðar króna.



Í framtíðarsýn sem fylgir ársreikningi Reykjaneshafnar fyrir árið 2014 segir:   

Lóðaúthlutun í Helguvík hefur nánast stöðvast frá árinu 2008 en undirritaður var lóðarsamningur þann 11.04. 2014 við Thorsil ehf. undir kísilverksmiðju. Einnig er reiknað með úthlutunum nýrra lóða á árinu 2015.

Reykjaneshöfn undirritaði 27.4. 2006 hafnarsamning og lóðarsamning í Helguvík við Norðurál. Fyrirhugað er að reisa allt að 270 þúsund tonna álver í áföngum.  Fyrsti áfangi yrði 90 þúsund tonna álver og hófust byggingarframkvæmdir við hann í  maí 2008.  Óvíst er hvenær framleiðsla hefist en vonast að það verði á árinu 2016.

Góðar framtíðarhorfur Reykjaneshafnar

Þrátt fyrir erfiðan rekstur Reykjaneshafnar árið 2014 og skuldir við lánastofnanir sem nema um 4,3 milljörðum króna og víkandi lán Reykjanesbæjar 3 mkr., mun eignastaða Reykjaneshafnar styrkjast á næstu árum. Það byggir á því að virði lóðargjalda á óúthlutuðum lóðum í Helguvík, samkvæmt gjaldskrá, er um 4,5 milljarðar kr.

Eftir endurfjármögnun langtímalánanna á árinu 2011, þá er áætlað að rekstur hafnarinnar muni komast í jafnvægi á næstu árum með auknum tekjum vegna hafnargjalda, lóðargjalda, lóðarleigu og fasteignarskatta tekjurnar verði hærri en fjármagnskostnaðurinn og höfnin nái að greiða niður skuldir sínar.  Í þeim áætlunum sem unnið var með gagnvart lánveitendum var gert fyrir að byggingarframkvæmdir við kísilver fari af stað sumarið 2014 og rekstur hefjist í byrjun ársins 2016.  En byggingar-framkvæmdir Sameinaðs sílikons hf. hófust haustið 2014 og er áætlað að rekstur hefjist á 2. ársfjórðungi ársins 2016 eins og áætlað var.

Forsenda þess að uppbygging á nýrri atvinnustarfsemi í Helguvík geti átt sér stað er að til staðar séu fullnægjandi innviðir, s.s. hafnaraðstaða og vegir. Í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017 er tekið fram að ríkisstjórnin muni styðja við frekari uppbyggingu innviða á Helguvíkursvæðinu með sambærilegum hætti og gert var á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þess má geta að fjárfesting PCC á Bakka er áætluð um 28 milljarðar króna, fjárfestingar Alcoa vegna álversins á Reyðarfirði voru um 140 milljarðar króna og samanlögð fjárfesting Thorsil og United Silicon í Helguvík er áætluð um 40 milljarðar króna.

Stjórn og framkvæmdastjóri vænta þess, að með nýjum hafnalögum sem samþykkt voru þann 12. desember 2014, verði orðið við ósk Reykjaneshafnar um ríkisstyrk við framkvæmdirnar í Helguvík á samgönguáætlun 2015 – 2018.  Og Reykjaneshöfn verði veitt ríkisframlag á fjárlögum til að mæta uppbyggingu innviða í Helguvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024