Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Rakel henti sér út í djúpu laugina
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 15. febrúar 2020 kl. 07:53

Rakel henti sér út í djúpu laugina

Rekur í dag bílaverkstæði, partasölu og smurstöð.

Bílar og partar er líklega með þeim þrifalegustu bílaverkstæðum á landinu, án þess þó að við höfum eitthvað fyrir okkur í þeirri staðhæfingu. Verkstæðið er rekið af kvenmanni sem segist leggja mikið upp úr því að hafa allt í röð og reglu. Það spari tíma fyrir þá sem vinna á verkstæðinu, þegar þeir þurfa að finna varahluti og sparar í leiðinni fé fyrir viðskiptavini. Rakel Heiðarsdóttir heitir daman og er 46 ára gömul. Víkurfréttir kíktu í heimsókn, enda saga til næsta bæjar þegar kona á og rekur bílaverkstæði, partasölu og smurstöð.

Ákvað að taka við verkstæðinu

„Ég er lærður félagsliði, vann á sambýli fyrir fatlaða og á elliheimili en frá 2004 var ég í verslunarrekstri ásamt fyrrverandi eiginmanni. Við fluttum í Innri-Njarðvík árið 2004 þegar okkur vantaði stærra húsnæði en þá var það spurning um að flytja í íbúð í blokk í höfuðborginni eða kaupa nýtt einbýlishús í Reykjanesbæ fyrir svipaðan pening. Við vorum með smá fataverslun í Reykjavík og opnuðum verslun sem hét Cool Accessories á Hafnargötu í Keflavík eftir að við fluttum hingað suður. Við seldum hana og opnuðum Tjarnagrill í Innri-Njarðvík sem við seldum eftir nokkur ár og opnuðum þá Bíla og parta í janúar 2013. Ég hef alltaf verið viðloðandi rekstur en fór að vinna í Fríhöfninni á sínum tíma þegar mig langaði að vinna meira í kringum konur. Þegar leiðir okkar hjóna skildu, árið 2018, ákvað ég að taka við verkstæðinu og hef rekið það síðan með góðra manna hjálp,“ segir Rakel, eins og ekkert sé sjálfsagðara fyrir kvenmann en að reka bílaverkstæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eina skráða partasalan á svæðinu

Rakel segist aldrei hafa farið út í þennan rekstur ef ekki hefði notið við aðstoð góðs vinar sem kunni til verka í bílaviðgerðum og foreldra hennar en þau fluttu í Reykjanesbæ nokkrum árum eftir að hún og fjölskyldan flutti suður.

„Í dag erum við eina skráða partasalan á Suðurnesjum og fáum viðskiptavini úr öllum áttum. Ég var aldrei beint í þessu varahlutadæmi en hér erum við að flytja inn varahluti, rífa bíla og jafnframt sinna bílaviðgerðum. Einnig erum við með Mobil 1 smurstöð frá N1. Ég hef alltaf séð um bókhaldið og hjálpað til hér út frá bílaáhuga. Svo æxlaðist það að ég tók við fyrirtækinu en áður leitaði ég ráða hjá pabba, sem hefur alltaf verið bílakall og kletturinn minn í öllu. Einnig leitaði ég ráða hjá góðum vini fjölskyldunnar sem er mjög fær í bílaviðgerðum. Þessir menn hvöttu mig áfram, án þeirra hefði þetta ekki verið mögulegt. Í dag á ég þetta fyrirtæki skuldlaust og rek það ásamt núverandi eiginmanni mínum, Baldri Friðbjörnssyni en pabbi minn, Heiðar Ragnarsson er ómissandi og gætum við ekki gert þetta án hans hjálpar. Þetta hefur tekið á en jafnframt verið mjög skemmtilegt,“ segir Rakel og fer með blaðakonu inn á verkstæðið sem er ótrúlega hreinlegt og fínt.

Tók allt í gegn

„Ég tók við þessu fyrirtæki í mars 2018 og henti mér þar með út í djúpu laugina. Það var þrjóska í mér að láta þetta ganga upp, sem hefur skilað sér. Það var mikil vinna að taka verkstæðið í gegn frá A til Ö. Í dag er ég mikið meira inni í öllu en áður, enda búin að fara í gegnum allan lagerinn og merkja og skrásetja þúsundir varahluta. Við erum tvö allan daginn á verkstæðinu, ég og viðurkenndur bifvélavirki. Maðurinn minn kemur svo í lok dagsins þegar hann er búinn í vinnunni sinni hjá Reykjanesbæ. Svo get ég kallað inn fleiri menn þegar mikið er að gera hjá okkur. Mér finnst þetta ógeðslega gaman og ef ég fer í frí þá senda þeir mig úr landi svo ég taki mér almennilegt frí, annars er ég alltaf að kíkja við,“ segir Rakel og brosir. Eiginmaðurinn, Baldur, samsinnir þessu og bætir við: „Já, það er rétt hún er mjög áhugasöm, dugleg og mjög skipulögð. Varahlutir eru miklu flóknari en fólk gerir sér grein fyrir. Þú getur til dæmis verið með Toyota Yaris sem er framleidd í mismunandi löndum og þá eru mismunandi varahlutir sem eiga við. Sama bíltegundin getur verið framleidd í Japan, Frakklandi eða Bretlandi. Oft er dýrara að kaupa varahluti frá Frakklandi, sama framljósið getur kostað miklu meira þaðan heldur en frá Bretlandi, getur verið stórmunur á verði.“

Veit miklu meira um varahluti í dag

„Já, þetta er heill frumskógur sem þarf að læra á því við viljum finna besta verðið fyrir viðskiptavininn. Ég leita að varahlutum og held einnig utan um starfsemina, sé um bókhaldið sem bókarinn klárar og hef einnig smurt bíla. Bifvélavirkinn greinir hvað þarf að útvega af varahlutum og þá fer ég að leita. Stundum eigum við það til á lager sem vantar og stundum þarf að sækja þá í AB, Bílanaust eða Stillingu og jafnvel panta frá útlöndum.Við ákveðum varahluti í samráði við bílaeigendur, því það getur bæði borgað sig að gera við og ekki borgað sig. Af því að hér er allt í röð og reglu, og maður gengur að öllu vísu, þá veistu hvar hluturinn er geymdur. Það sparar verkstæðinu tíma og um leið spörum við fé fyrir viðskiptavininn en fyrir marga er það högg á budduna þegar farið er með bílinn á verkstæði. Við viljum vera sanngjörn í verði svo fólk komi aftur til okkar. Ég segi það alltaf að góð viðskipti séu þegar viðskiptavinurinn kemur aftur. Við fáum oft ungt fólk sem segir okkur að pabbi þeirra hafi sent þau hingað. Við fáum fólk úr Reykjavík sem er bent á að koma til okkar sem er allt mjög ánægjulegt fyrir okkur. Við erum búin að skapa gott orðspor, fólk er ánægt og það er það sem við viljum. Við leggjum okkur fram, erum á tánum, viljum vera sanngjörn í verði og það skilar sér,“ segir Rakel.

Rakel með föður sínum, Heiðari Ragnarssyni, sem er mikilvæg hjálparhella í fyrirtækinu.

Með eiginmanninum, Baldri Friðbjörnssyni, á verkstæðinu.