Prjónið veitir hugarró
- Prjónafólk hefur tekið Gallerý Spuna fagnandi
Guðbjörg Bjarnadóttir ákvað fyrir rúmum 2 árum að henda sér í djúpu laugina og hefja rekstur á hannyrðaversluninni Gallerý Spuna í Grindavík. Spuna hefur verið vel tekið af prjónafólki á Suðurnesjum og reyndar um allt land því margir panta í gegnum vefverslun. Á meðan blaðamaður Víkurfrétta spjallaði við Guðbjörgu, eftirmiðdag í miðri viku, var stöðugur straumur af fólki á öllum aldri að versla garn, uppskriftir og í leit að ráðleggingum. „Það er alltaf opið hjá mér frá 12 til 18 mánudaga til fimmtudaga og 11 til 13 á föstudögum en oftast er ég mætt klukkan 9 og opna þá. Einnig ef þær sjá bílinn fyrir utan á öðrum tímum er þeim velkomið að banka,“ segir Guðbjörg.
Hjá Spuna eru haldin prjónakvöld og ýmis lengri og styttri prjóna- og heklnámskeið. Á prjónakvöldunum mætir fólk og prjónar eða heklar saman í hóp og skiptist á ráðleggingum og spjallar um daginn og veginn og segir Guðbjörg marga gullmola hafa komið á slíkum kvöldum. Á örnámskeiðunum eru kennd ýmis afmörkuð viðfangsefni eins og til dæmis að prjóna hæl á sokk, lopapeysu eða að lesa uppskriftir á ensku. Núna 1. október byrjar svo Mystery Cal með Stephen West sem er óvissu prjón. Þá fær fólk að vita hvers konar flík eigi að prjóna en ekki hvernig hún mun koma til með að líta út. Fólk velur sér sjálft liti og fær svo fyrsta hlutann af uppskriftinni en hún kemur í fjórum hlutum á jafn mögum vikum. Stephen er þekkt gúru í prjónaheiminum og hefur ferðast víða um heim og haldið námskeið.
Núna í byrjun október er að hefjast Mystery Cal eða óvissuprjón með Stephen West. Hann er þekktur í prjónaheiminum fyrir frumlegar og skemmtilegar uppskriftir.
Guðbjörg segir það drauminn að fá til sín í prjónahópa á morgnana eldra fólk sem situr heima og prjónar. „Það eru svo margir sem sitja einir heima og prjóna og það væri gaman að fá fleira af því fólki hingað í Spuna þar sem það gæti notið félagsskapar hvers annars.“
Lærði fimm ára að prjóna
Guðbjörg segir alla geta lært að prjóna en að mikilvægt sé að sýna sjálfum sér þolinmæði. Sjálf lærði hún að prjóna aðeins fimm ára gömul og segir það til marks um að allir geti lært á prjónana. Stundum kemur fólk í Spuna strand með hálfprjónaða flík. „Oft heldur fólk þá að það sé villa í uppskriftinni en um leið og við förum að tala saman rennur það upp fyrir fólki að það hafi ekki alveg skilið uppskriftina, sem oft er best að byrja á að lesa til enda. Þá virkar oft vel að leggja prjónið til hliðar í nokkra daga eða ræða málið við einhvern annan.“
Prjónaskapur er eitt helsta áhugamál Guðbjargar og segir hún það ekki síst vegna þess hversu mikil hugarró fylgi því. „Fólk sem prjónar þarf ekki að fara á hugleiðslunámskeið,“ segir hún. Guðbjörg er alltaf með prjónana í töskunni og grípur til þeirra í hvert sinn þegar hún þarf að bíða, hvort sem það er eftir flugi, tíma hjá lækni eða öðru. Hún segir ótrúlegt hve mikið hún hafi prjónað í slíkum biðtíma. Svo eru uppskriftirnar í símanum svo hún burðast ekki með prjónabók eða blöð með sér.
Karlar prjóna líka
Flestir viðskiptavinir Spuna eru konur á öllum aldri en einnig nokkrir karlar. Enginn þeirra hefur þó enn mætt á prjónakvöld. „Það eru nokkrir karlar sem prjóna lopapeysur og svo er eitt par meðal viðskiptavinanna. Hún er mjög flínk að hekla og hann að prjóna og svo kenna þau hvort öðru og það finnst mér alveg yndislegt.“ 12 ára ömmustrákur Guðbjargar er búinn að smitast af prjónaáhuganum og byrjaði þegar hann var níu ára að prjóna. Í dag prjónar hann sér húfur og fleira. Þegar foreldrar hans giftu sig prjónaði hann hringapúðann.
Galdurinn að bjóða upp á eitthvað öðruvísi
Rekstur Spuna hefur að sögn Guðbjargar gengið vonum framar enda komi prjónafólk af öllum Suðurnesjum sem og af höfuðborgarsvæðinu. Þá er hún með vefverslun og hefur sent garn til prjónara í flestum bæjum landsins. „Svo eru margar utan að landi sem nýta tækifærið þegar þær koma til höfuðborgarsvæðisins og skjótast til mín hingað í Grindavík.“ Guðbjörg segir mikilvægt að bjóða upp á eitthvað sérstakt til að rekstur á hannyrðaverslun eins og Spuna gangi upp. „Prjónararnir fara í allar hannyrðabúðirnar svo þetta eru meira og minna sömu viðskiptavinirnir hjá okkur og því er skemmtilegt að hver og ein verslun hafi sína sérstöðu.“ Guðbjörg er sú eina á landinu sem flytur inn allt garn frá Drops. Hún hafði heyrt af því að fólk á Íslandi fyllti ferðatöskur hjá sér með garninu í útlöndum og ákvað því að veðja á innflutning á því. Nú er Spuni orðin svokölluð „superstore“ fyrir Drops hér á landi sem þýðir að þar er til allt sem Drops framleiðir. Vefurinn Garnstudio.com er á vegum Drops og er einn stærsti prjónavefur í heimi þar sem finna má tæplega 100 þúsund uppskriftir og á þriðja þúsund uppskrifta á íslensku og óendanlegt magn af kennslumyndböndum. Í gegnum Guðbjörgu er svo hægt að óska eftir því að láta þýða fleiri uppskriftir af vefnum hafi fólk áhuga á því og kemur hún þá yfirleitt inn á vefinn samdægurs.
Guðbjörg segir hafa komið bakslag í reksturinn hjá mörgum hannyrðaverslunum þegar stórmarkaðir hófu sölu á garni fyrir nokkrum árum síðan. „Þetta var sama mynstrið hjá flestum stórmörkuðum, að byrja með garn og bjóða aðeins upp á takmarkað úrval og það sem selst best.“ Hún segir að blessunarlega kunni fólk nútildags að meta fjölbreytnina í litlu hannyrðaverslununum. „Fólk áttaði sig fljótlega á því hve mikið það missti þegar hannyrðabúðirnar hættu flestar á sínum tíma vegna þess að fólk var að eltast við að spara nokkrar krónur á hverjum hnykli. Í hannyrðabúðunum er fólk ekki aðeins að kaupa garn. Það fær líka ýmsar ráðleggingar sem ekki fást annars staðar og það kann fólk vel að meta.“