Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Nýjar leiðir að sömu markmiðum
Fimmtudagur 19. maí 2011 kl. 10:11

Nýjar leiðir að sömu markmiðum

Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, KADECO, hefur leitt uppbyggingu á Ásbrú í Reykjanesbæ allt frá stofnun félagsins við brotthvarf Varnarliðsins haustið 2006. Umbreyting varnarstöðvarinnar yfir í borgaraleg not hefur tekist vel og forsvarsmenn KADECO hafa það eftir heimildum úr innsta hring bandaríska stjórnkerfisins að breyting varnarstöðvarinnar í Keflavík sé eitt af best heppnuðustu verkefnum þar sem yfirgefin herstöð er tekin til borgaralegra nota. Eitt fyrsta verkefnið sem ráðist var í á Ásbrú var stofnun Keilis og í síðustu viku fengu Suðurnesjamenn þær fréttir að skólinn væri kominn á beinu brautina með því að vera kominn með rekstrarframlag frá menntamálaráðuneytinu og þjónustusamningur við ráðuneytið er handan við hornið. Í dag eru um 50 fyrirtæki af ýmsum stærðum starfrækt á Ásbrú og um 700 manns hafa störf á svæðinu. Þannig hefur tekist á fjórum árum að endurheimta meirihluta þeirra starfa sem glötuðust við brotthvarf Varnarliðsins. Þróunarfélagið er þó aðeins að stíga sín fyrstu skref og ennþá er langt í land að það hafi náð fram öllum sínum markmiðum. Víkurfréttir settust niður með Kjartani Þór í vikunni og fóru yfir stöðu mála og framkvæmdir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Oft verður maður óþolinmóður“


„Staðan í dag er sú að mörg af þessum verkefnum sem við höfum verið að vinna að frá upphafi eru ennþá í gangi,“ segir Kjartan. Hann nefnir gagnaver að Ásbrú sé eitt af þessum verkefnum sem hefur tekið lengri tíma en reiknað var með. „Það er eitt af þessum verkefnum sem við höfum treyst á og það var okkar hugmynd að verkefni eins og gagnaver hér á Ásbrú myndi toga önnur verkefni áfram þegar það verður að veruleika. Okkar sýn er sú að t.a.m. gagnaverið sér ákveðið akkeri og ýmis önnur verkefni geti spunnist út frá því“.


Á meðan þetta verkefni hefur tekið lengri tíma en í upphafi var áætlað hefur KADECO sett meira púður í smærri og millistór sprotafyrirtæki.


„Við höfum náð nokkrum árangri þar og erum í dag að setja enn meiri kraft í þau mál. Við höfum sett aukna fjármuni í endurbætur á frumkvöðlasetrinu sem er í dag orðin ein allra glæsilegasta aðstaða á landinu fyrir sprotafyrirtæki. Á það bæði við um skrifstofuaðstöðu og sameiginleg rými þar sem fólk getur leigt skrifborð. Þá er iðnaðaraðstaða sem við finnum fyrir miklum áhuga á hjá allskyns fyrirtækjum, t.a.m. hönnunarfyrirtækjum og minni iðnfyrirtækjum, sem sjá mikil tækifæri þarna. Þessi verkefni hafa náð að þróast áfram og ég er einnig sannfærður um að þegar stóru verkefnin verða að raunveruleika muni þau einnig toga á svæðið önnur verkefni,“ segir Kjartan.

„Þetta hefur þó allt gerst hægar en hugmyndir stóðu til og oft hefur maður verið óþolinmóður yfir því hvað þetta gengur hægt. Stundum verður maður líka að horfa raunsætt á hlutina og hrista sig aðeins til og horfa til þess hvað hefur gerst á svæðinu á þessum stutta tíma sem liðinn er frá því að Varnarliðið fór. Það hafa ótrúlega margir hlutir gerst á þessum tíma þó svo maður sé óþolinnmóður yfir því sem ekki er komið,“ segir Kjartan og brosir. Hann segir mikið kapp í sínu fólki og stundum sé eins og lengra sé um liðið frá brotthvarfi hersins miðað við hvað hafi áorkast.



Vel lukkuð umbreyting

„Við fengum góða heimsókn frá bandaríska sendiráðinu fyrir helgi og þeir tjáðu okkur að umbreyting varnarstöðvarinnar í Keflavík væri eitt af best heppnuðustu verkefnum í umbreytingu herstöðvar eftir brotthvarf Bandaríkjahers. Þetta höfum við einnig áður heyrt úr innsta hring bandaríska stjórnkerfisins. Í mörgum fyrrverandi herstöðvum er verið að vinna að svipuðum verkefnum og á Ásbrú.

Ég tel að þennan árangur megi helst þakka að við náðum strax góðu starti og stefnan var skýr frá upphafi. Þá var umgjörðin um Þróunarfélagið góð og hagkerfið eins og það var á þeim tíma sem við byrjuðum. Það hjálpaði allt við að koma þessu verkefni fyrir vind. Síðan er að halda áfram að spila vel úr því sem komið er og nýta þau tækifæri sem eru til staðar og framundan“.



Kreppan bítur kaupendur eigna


- Þið hafið fengið eitthvað af eignum aftur á ykkar könnu þar sem áform hafa ekki gengið eftir?
„Við gerðum stóra sölusamninga á sínum tíma við nokkur félög og miðað við allar eðlilegar forsendur var þetta mjög góð sala fyrir okkur. Við vitum það líka að forsendur dagsins í dag eru ekki eðlilegar. Nær öll fasteignafélög landsins hafa lent í mjög miklum erfiðleikum og þau félög sem keyptu eignir hér á Ásbrú hafa einnig lent í erfiðleikum. Erfiðleikarnir tengjast ekki endilega rekstri þessara fyrirtækja. Þau að öllu jöfnu hefðu getað staðið við sínar skuldbindingar en það eru ákveðin fjármögnunarvandræði sem þau lenda í. Þau náðu ekki að klára þá fjármögnun sem að í sumum tilfellum voru samningar fyrir vegna þess að fjármögnunarfyrirtækin náðu ekki að standa við þá. Þar af leiðandi lenda fyrirtækin í vandræðum í fyrstu skrefum í verkefnum hjá sér. Yfirleitt er það þannig að þegar verið er að þróa stór verkefni eins og hér á Ásbrú að fyrirtækin þurfa á miklu fjármagni að halda í byrjun, bæði til rekstrar og fleiri þátta. Það gekk ekki allt eftir.

Það er komin töluverð starfsemi á svæðið í dag þannig að kraftar þeirra aðila sem tóku þetta að sér í upphafi og keyptu hér fasteignir hafa nýst vel. Margir af þessum aðilum voru búnir að greiða hluta af kaupverðinu til okkar en þar voru ákveðnar eftirstöðvar eftir þannig að við vorum ennþá með afsal af þessum eignum. Aðrir voru jafnvel búnir að greiða allt kaupverðið.


Hann nefnir einnig samning um sölu íbúðahúsnæðis á Ásbrú.

„Við gerðum einnig mjög stóran samning um sölu á íbúðarhúsnæði á svæðinu. Þar er staðan einnig sú fjármögnunarmálin stóra atriðið. Fjármögnun sem þeir lögðu af stað með í upphafi gekk ekki eftir eins og hjá flestum öðrum fasteignafélögum. Þeir aðilar voru þó búnir að greiða nokkuð stóran hluta af kaupverðinu til okkar. Nú stendur yfir vinna hjá okkur sem hefur það að markmiði að leysa úr þeim málum sem eftir standa.


Hjá þessum aðilum er búið að þróa og vinna mjög gott starf í að koma í not þeim eignum sem þeir keyptu og okkur finnst í raun ekkert hafa breyst í grunnverkefninu hjá þeim. Það er allt það sama. Hins vegar hafa utanaðkomandi aðstæður verið erfiðari og þetta hefur tekið lengri tíma. Þeir voru einnig að horfa á þessi stóru uppbyggingarverkefni hér á svæðinu og að það væri tækifæri að koma eignum í not í tengslum við það. Það hefur tafist og þ.a.l. hefur allt heildarverkefnið tafist,“ segir Kjartan.


Kjartan segir að í raun hafi ekkert breyst hjá þessum aðilum. „Það hafa orðið tafir en við getum ekki talað um að verkefnin séu ónýt. Það hefur myndast gat. Við getum talað um þriggja ára gat í tengslum við þá kreppu sem við höfum verið að ganga í gegnum. Núna snýst þetta um að brúa þetta bil og þá breyta verkefninu og aðlaga að þessum breyttu aðstæðum með það fyrir augum að verkefnið geti lifað áfram og gengið eftir“.



Hugmyndafræðin enn sú sama


Þegar horft er yfir hugmyndafræðina að baki umbreytingu herstöðvarinnar í háskólaþorp segir Kjartan:

„Það góða í þessu öllu saman er að grunnhugmyndafræðin okkar og það sem við lögðum af stað með í upphafi það stendur ennþá vel fyrir sínu og við erum ekki að breyta um stefnu.

Við höfðum ákveðin markmið sem við vildum ná. Við erum ekki að ná þeim öllum út frá þeim leiðum sem við lögðum upp með í byrjun. Þetta snýst því um að finna nýjar leiðir að þessum sömu markmiðum og það höfum við verið að gera á fullu að undanförnu“.

Hann segir að þessi áhersla á minni sprotafyrirtæki og að skapa aðstöðu fyrir þau er hluti að því að því ferli.

„Við erum líka að vinna með aðilum í stærri verkefnum. Við höfum komið töluvert nálægt því að vinna kísilversverkefninu í Helguvík framgang“. Við kynntum þá aðila sem nú standa að verkefninu saman á sínum tíma og núna leigir KADECO aðstöðu í fyrirtækjahótelinu í Eldvörpum undir skrifstofur kísilversins.



Keilir á beinu brautina


- Nú er eitt af börnunum ykkar, Keilir, að fá sína viðurkenningu frá menntamálaráðuneytinu og kominn á fjárlög. Eru þetta ekki ánægjuleg tíðindi?

„Jú, ég segi bara loksins og þó að fyrr hefði verið. Ég veit að þar hafa aðilar verið að vinna vel með okkur en þetta er búið að taka langan tíma. Ég er þakklátur fyrir að þetta er komið á beinu brautina. Það sem við höfum alltaf sagt og það sem við lögðum af stað með í byrjun var að Keilir er gríðarlega mikilvægur hluti af okkar hugmyndafræði um uppbyggingu á svæðinu. Keilir skapar í raun grundvöll undir alla þá þróun sem er að eiga sér stað hér á svæðinu. T.d. að því leiti að hann er mikill stuðningur við það samfélag sem fékk hér skell þegar herinn fór með því að aðstoða fólk sem varð fyrir áföllum og þurfti að ná sér í viðbótar menntun til að geta farið áfram út í atvinnulífið og nýtt sína þekkingu betur. Keilir gaf sumu af því fólki ný tækifæri. Hann skapar einnig grundvöll varðandi menntun og rannsóknir fyrir þau fyrirtæki sem við erum að reyna að laða á svæðið. Þannig að öll markmið Keilis um menntatengda uppbyggingu eru beintengd okkar markmiðum um atvinnuuppbyggingu,“ segir Kjartan.

Keilir er fyrsta afkvæmi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og þar á bæ hefur verið lagt mikið í að styðja við það og að skapa þennan grundvöll.

„Við sáum það alltaf þannig að í stað þess að við værum að halda þessu úti með okkar fjármunum og þeim tekjum sem við værum að taka inn, þá vildum við sjá Keili sem hluta af kerfinu. Þannig að þær tekjur sem við tækjum inn til okkar skilum við inn til ríkisins og hluti af þeim færi svo sína leið út aftur til Keilis til uppbyggingar á menntun og rannsóknum.

Það má ekki gleyma því að Keilir skapaði einnig ákveðinn grundvöll undir það að við seldum hér fasteignir á sínum tíma. Uppbygging stúdentagarða hér á svæðinu og þróun fleiri fasteigna sem eru hér í nýtingu er á margan hátt grundvallað af þeirri staðreynd að Keilir sé hér með starfsemi. Ríkið er í raun og veru búið að taka til sín miklar tekjur út á Keili og okkur fannst því sanngjarnt að hluti af þeim kæmi til baka í þessa uppbyggingu og að er einmitt núna að gerast,“ segir Kjartan aðspurður um fjárveitingar til Keilis.

„Það er í mörg ár búið að tala um samspil atvinnuuppbyggingar og menntunar og oft vantar svolítið uppá að þessir þættir vinni vel saman. Það sem við erum stolt af er að þarna erum við einmitt með þetta módel. Þessi grundvöllur menntunar og rannsókna sem við erum að byggja hérna er beintengdur við okkar markmið um atvinnuuppbyggingu. Hérna erum við að tala um flott módel í þessa veru. Auðvitað hefur tekið smá tíma að fá suma aðila í kerfinu til að skoða þetta. Þetta er eitthvað nýtt en það breytir því ekki að hugmyndafræðin er eitthvað sem talað hefur verið um í mörg ár og vilji hefur verið til að ná fram og er verið að gera mjög vel hjá Keili. Ég er sannfærður um það að þetta á eftir að skila miklu fyrir samfélagið hér á svæðinu, bæði hér á Ásbrú og á Reykjanesinu í heild sinni. Ekki bara að þessi megin svið Keilis séu beintengd við okkar markmið um atvinnuuppbyggingu, þau byggja líka á samkeppnisyfirburðum þessa svæðis. Þetta er sú grunnþekking sem við teljum að séu mikil tækifæri til að þróa og skapi mörg tækifæri til atvinnuuppbyggingar og fleiri þátta hér á svæðinu á næstu árum“.

Tækifærin til að fjárfesta eru hér

-Hvað með aðrar eignir ykkar á svæðinu?

„Við finnum áhuga gagnvart þeim. Við höfum verið í markaðsátaki og auglýst eignir á svæðinu. Það hefur ekki verið til mikils að auglýsa fasteignir en þeim er sýndur áhugi núna og þeim eignum sem við höfum auglýst hefur verið sýndur töluverður áhugi. Við höfum auglýst skuldlausan banka, sprengjuheld skýli og þannig einnig náð að vekja athygli á öðrum fasteignum á svæðinu. Áhuginn er mikill og tækifærin til að fjárfesta eru hér. Ég er sannfærður um að framtíðaruppbygging hér á eftir að vera gríðarlega mikil. Tækifæri þessa svæðis eru þess eðlis. Hér í kringum flugvöllinn er eitt verðmætasta atvinnuuppbyggingarland á landinu öllu. Ef að menn hafa þolinmótt fé, þá eru gríðarlega öflugir fjárfestingarkostir hér og það eru margir sem eru að kveikja á því.



Viðhald fasteigna í sumar

- Næstu mánuðir hjá Þróunarfélaginu. Hvaða framkvæmdir vera helstar?


„Við erum í viðhaldsframkvæmdum á fasteignum. Við erum í endurbótum í Officeraklúbbnum. Við förum í að mála fasteignir. Við byrjuðum í fyrra og tókum nokkrar lykilbyggingar með góðum árangri. Við breyttum um liti og léttum á byggingum. Við gerum þær í takt við það sem við höldum að byggist hér upp. Við höldum áfram endurbótum utanhúss í sumar. Við erum í stórum framkvæmdum í lokun á urðunarstað á Stafnesi sem mun klárast í sumar. Við förum í framkvæmdir tengt gróðursetningu og umhverfisendurbótum. Við förum í lagningu stíga og setjum niður tré. Við vitum að það verður farið í gatnaframkvæmdir, lagningu kantsteina og grass. Við höfum verið í stefnumótunarvinnu og ætlum að birta niðurstöðu úr henni á næstu vikum“.


Allt á fullt í sumar eða haust


- Að endingu. Það spyrja allir um sjúkrahúsið.

„Sjúkrahúsið er í gangi. Það er hins vegar eitt af þessum verkefnum sem tekið hafa lengri tíma eins og svo margt annað. Það hefur frestast að byrja framkvæmdir þar. Það er búið að hreinsa allt innan úr húsinu og laga múr á útveggjum. Nú erum við komnir með skel til að nota í uppbyggingu. Hönnun er lokið og samningur kominn við verktaka um framkvæmdina. Nú er beðið eftir rekstraraðila að klára sín mál varðandi komu sjúklinga og markaðssetningu. Um leið og það liggur fyrir verður farið á fulla ferð. Það hefur gengið hægar að loka samningum varðandi sjúklinga en við erum vongóð um að það verði nú í sumar eða haust sem að það gerist og allt verði sett í fullan gang í framhaldinu,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar í viðtali við Víkurfréttir.




Stórt Hollywood-verkefni í sumar


Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, KADECO, er í miklu markaðsátaki með kvikmyndaverið Atlantic Studios, sem er í eigu félagsins.

„Ég hef oft sagt það í gríni að kvikmyndagerðarfólkið var hérna á undan okkur á sínum tíma. Pælingar um þetta verkefni fóru snemma af stað og þegar við mættum á svæðið og tókum við herstöðinni þá má segja að þeir hafi beðið á húninum og við höfum því verið að vinna í þessu verkefni mjög lengi.
Það er búið að reyna ýmsar leiðir til að koma þessu verkefni áfram. Tækifærin í þessu eru mjög mikil og þetta er alltaf spurning hvenær svona verkefni blómstrar. Við höfum ennþá trú á að svo verði. Við erum búin að reyna nokkrar leiðir. Það voru ákveðnir aðilar sem gerðu tilboð í kvikmyndaverseignina á sínum tíma og við ákváðum að vinna með þeim. Þau plön gengu ekki eftir og þeir náðu ekki að kaupa eignina og afla þess fjármagns sem þurfti. Við gerðum annan samning við þessa aðila þar sem við leigðum þeim bygginguna. Þeir myndu borga ákveðna mánaðarlega fjárhæð og síðan eiga forkaupsrétt á byggingunni í framhaldinu. Við vildum létta á verkefninu í byrjun og koma því af stað. Það gekk heldur ekki eftir þó svo þeir hafi verið komnir með vilyrði fyrir stóru Hollywood-verkefni. Staðsetning þess á Íslandi var blásin af og það flutt annað vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Ástæðan var að tryggingafélögin treystu sér ekki til að tryggja verkefnið hér á landi útaf gosinu og voru hræddir við tafir og þess háttar. Þar af leiðandi hefur þetta verið áfallasaga.

Nú er staðan sú að við höfum tekið yfir gríðarlega markaðsvinnu sem búið var að vinna. Það er búið að hitta framleiðendur og hingað hafa komið aðilar sem stýra málum varðandi staðsetningu á kvikmyndaverkefnum frá Hollywood. Núna erum við að vinna verkefnið undir merkjum Atlantic Studios en því er stjórnað af Þróunarfélaginu. Markmiðið er að kanna betur hvort þetta geti ekki gengið eftir.

Núna eru þreifingar um tvær stórar Hollywood-myndir hér í sumar og það er mjög líklegt að a.m.k. önnur þeirra komi og verði tekin hér á svæðinu og aðstaðan í kvikmyndaverinu nýtt. Þá eru ýmis önnur verkefni sem menn eru að velta fyrir sér. Aðstaðan er frábær.

Við höfum fjárfest eitthvað í stúdíóinu en miðað við þá peninga sem við höfum sett í þetta þá þarf ekki mikið til að þetta borgi sig og vel það og að hér myndist mikil tækifæri. Við erum að vinna með Íslandsstofu og þeirra verkefni, Film in Iceland. Þeir hafa gott aðgengi að þeim sem starfa í þessari grein í Hollywood og víðar. Þeir eru núna með kvikmyndaverið sem hluta af sínu kynningarefni, eitthvað sem þeir gera ekki almennt. Kvikmyndaverið að Ásbrú er hins vegar það mikilvægur þáttur í að draga kvikmyndaverkefni til landsins að það þykir borga sig að bjóða kvikmyndaverið sem valkost og auka líkurnar á að ná verkefnum til landsins. Við bindum vonir við það að á þessu ári detti inn fyrstu stóru verkefnin og þá opnast augu margra minni aðila að nýta aðstöðuna“.





Sömu milljónirnar eða nýjar?

- Á ríkisstjórnarfundinum í Reykjanesbæ seint á síðasta ári var tilkynnt um 250 milljón króna aukafjárveitingu til framkvæmda hér á Ásbrú. Nú á dögunum er síðan sérstaklega tilkynnt um herminjasafnið og 200 milljónir króna til þeirrar framkvæmdar. Eru þetta sömu peningarnir?


„Ég hef verið spurður um þetta. Ég var staddur erlendis þegar þessi tilkynning var gefin út af forsætisráðuneytinu og sá hana bara þegar ég kom heim. Ég verð bara að segja að ég er ennþá að reyna að afla mér upplýsinga um það hvort þetta séu sömu peningarnir. Ég er búinn að spyrjast fyrir um þetta hjá fjármálaráðuneytinu hvort að svo sé og er ennþá að bíða eftir svörum. Ég vona svo sannarlega að þetta séu aðrir peningar. Þar er alveg klárt að við vorum búnir að taka ákvörðun um að ráðstafa því fé sem tilkynnt var um á síðasta ári til fleiri verkefna. Aðeins hluti þeirra fjármuna áttu að fara til safnsins. Það sem við höfum alltaf sagt er að það á eftir að tryggja þessu safni fjármuni til að reka það og byggja upp sýninguna. Við munum skaffa það sem lítur að aðstöðunni. Við sáum tækifæri í því að byggja þetta safn upp í gamla Officeraklúbbnum. Samhliða því að við þurftum að hreinsa út úr húsinu til að skapa rými fyrir safnið, sem við höfum verið að vinna í, þá fórum við í endurnýjun á þeim veislusölum sem eru í húsinu. Við reyndum að halda í það gamla eins og mögulega var hægt. Við þurftum að skipta um rafmagn í húsinu, skiptum um teppi, máluðum og gerðum minniháttar lagfæringar. Við fluttum til bari sem eru mjög vandaðir og flottir. Þeir eru stór partur af þeirri sögu sem þarna var í húsinu. Við erum búnir að gera húsið mjög glæsilegt. Hugmyndin er að þessir salir muni vinna með safninu í að gera þarna dæmi sem geti verið sjálfbært með tekjur og að í þessum sölum verði bæði hægt að leigja út undir ráðstefnur og veisluhöld. Þarna verði hægt að koma fyrir tímabundnum sýningum með safninu. Við erum að gera ráð fyrir 700 fermetra safni. Við erum komnir með ráðgjafa sem eru að vinna í safnmálum og m.a. að ræða við ráðuneytin og taka saman grunnupplýsingar um það hvað hægt væri að gera og með hvaða hætti. Þegar við hugsum um safn sem á að fjalla um veru Varnarliðsins hér á landi, þá er hægt að taka ótal sjónarhorn á það. Það má m.a. fjalla um kalda stríðið og jafnvel gera leiðtogafundinum í Höfða skil því Ísland kemur mikið við sögu staðsett mitt á milli stórveldanna í austri og vestri“.

[email protected]