Möguleikarnir á Reykjanesi eru miklir
Möguleikarnir á Reykjanesi eru miklir Guðmundur Pétursson er formaður SAR, Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi, sem urðu tíu ára í fyrra. „Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi áttu ekki að vera hagsmunafélag heldur félag sem gæti aðstoðað fyrirtækin með tengingum á milli og út á við og tengt menn og fyrirtæki saman um hin ýmsu verkefni sem raunin hefur orðið á. Við getum sagt í einni setningu að SAR sé samstarfsvettvangur,“ segir Guðmundur Pétursson, formaður SAR en samtökin fögnuðu tíu ára afmæli á síðasta ári. Guðmundur var fyrsti formaður SAR en hann tók aftur við formennskunni af Guðjóni Skúlasyni sem hefur stýrt þeim síðustu þrjú árin. Hvernig kom það til að SAR, Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi voru stofnuð og hvaða hugmyndafræði lá að baki? „Við Halldór Ragnarsson hjá Húsanesi höfðum hist reglulega frá 1978 og rætt atvinnumál á svæðinu og hvernig við gætum eflt samstöðu á Suðurnesjum meðal atvinnurekenda. Þegar opnaðist t.d á verktöku á Keflavíkurflugvelli í kringum 1997 stó
„Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi áttu ekki að vera hagsmunafélag heldur félag sem gæti aðstoðað fyrirtækin með tengingum á milli og út á við og tengt menn og fyrirtæki saman um hin ýmsu verkefni sem raunin hefur orðið á. Við getum sagt í einni setningu að SAR sé samstarfsvettvangur,“ segir Guðmundur Pétursson, formaður SAR en samtökin fögnuðu tíu ára afmæli á síðasta ári. Guðmundur var fyrsti formaður SAR en hann tók aftur við formennskunni af Guðjóni Skúlasyni sem hefur stýrt þeim síðustu þrjú árin.
Hvernig kom það til að SAR, Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi voru stofnuð og hvaða hugmyndafræði lá að baki?
„Við Halldór Ragnarsson hjá Húsanesi höfðum hist reglulega frá 1978 og rætt atvinnumál á svæðinu og hvernig við gætum eflt samstöðu á Suðurnesjum meðal atvinnurekenda. Þegar opnaðist t.d á verktöku á Keflavíkurflugvelli í kringum 1997 stóðum við fyrir því að stofna fyrirtækið VT-Verktaka sem bauð í verkefni hjá Varnarliðinu en þarna stofnuðu um 20 verktakar fyrirtækið og réðu starfsmann. Þetta gekk vel og fengu fyrirtæki hér utan Keflavíkurflugvallar tækifæri á að spreyta sig á nýjum reglum við verktöku fyrir Varnarliðið. Fyrirtækið var svo lagt niður og greiddi það hluthöfum það sem þeir lögðu í það en var samt fyrsti vísir að því sem hægt var að gera.“
SAR og borgarafundur
„Við ákváðum að kanna hug fyrirtækja hérna og fengum í framhaldi til liðs við okkur Ríkharð Ibsen sem var þá að reka RI-Ráðgjöf. Við fórum um Suðurnesin árið 2010 og kynntum þessa hugmynd um að stofna samtök þar sem fyrirtæki og aðilar gætu unnið saman að stærri verkefnum þar sem við átti. SAR, Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi voru síðan stofnuð 27. maí. Stofnaðilar voru 31 fyrirtæki og aðilar á svæðinu en í dag eru yfir tvöhundruð aðilar að SAR.
Margir hafa í gegn um tíðina spurt mig af hverju þau heita SAR eða samtök atvinnurekenda á Reykjanesi en ekki Suðurnesjum og fengum við bágt fyrir hjá sumum. Ástæðan var einföld en á þessum tíma stóð SAS flugfélagið heldur illa og vildum við ekki tengja ný samtök við risa erlendis sem stóð á brauðfótum en þá hefði skammstöfunin orðið SAS. Þetta hefur líka verið farsælt fyrir okkur því margir aðilar töldu þetta vera fyrsta „Search and Rescue“ á Reykjanesi sem við áttuðum okkur alls ekki á því þá en kom í ljós síðar vegna „leit og björgunar“ sem tengist mikið Norðurslóðum í dag.“
Hverju hafa samtökin áorka á rúmum tíu árum. Hafa áherslurnar verið mismunandi eftir atvinnustiginu á svæðinu sem hefur sveiflast mikið á þessum tíma?
„Við teljum að samtökin hafi gert töluvert miðað við efni og aðstæður. Má þar telja nokkur stærstu verkefnin sem SAR var að vinna að með beinum hætti og í sumum tilfellum leiddu samtökin verkefnin.
Strax í upphafi eða árið 2010 var eitt stærsta verkefnið okkar opinn borgarafundur í Stapanum 7. október þar sem ríkisstjórnin var boðuð og mætti Steingrímur J. þáverandi fjármálaráðherra til að fara yfir hvað væri hægt að gera með heimamönnum. Þetta var heitur fundur og mættu til dæmis heilbrigðisstarfsmenn í hvítum búningum og voru með blys úti þegar fundurinn var búinn. Þarna var farið yfir atvinnumálin og fjölmargir fyrirlesarar af Suðurnesjum. Það var smá grín í kringum fjármálaráðherra um að fá hann á fundinn. Steingrímur var í kjördæmaviku fyrir norðan og fékk ég skilaboð um að hann gæti ekki mætt á fundinn sem var eftir nokkra daga. Var honum þá sagt að það væri ekkert mál. Við myndum senda flugvél eftir honum og fljúga honum til baka en við vorum búnir að ræða við aðila sem voru tilbúnir að fara eftir fjármálaráðherra án kostnaðar fyrir SAR. Líklega hefur þetta ýtt við honum því ráðherra kom sér sjálfur og sá að Suðurnesjamenn voru ekkert mjög ánægðir með ástandið.“
Góður gangur
Næstu tvö ár á eftir, 2011 og 2012 skipulögðum við fundi í öllum sveitarfélögunum, hittum forsvarsmenn fyrirtækja til að safna hugmyndum í sarpinn sem væri hægt að vinna áfram. Það var mjög dauft yfir öllu í atvinnulífinu hérna á þessum tíma og lítið að gerast skömmu eftir bankahrunið.
Við komum á sambandi við Isavia og Atvinnuþróunarfélagið Hekluna og vorum í ágætum samskiptum við þingmenn og ráðherra og fengum iðulega fulltrúa nýrra ríkisstjórna í heimsókn á Keflavíkurflugvöll til að fara yfir málin. Það gekk vel.
Meðal áhugaverðra tilrauna sem við gerðum var að gera samning við Military.com um að geta nýtt þeirra stóra vef þar sem allir innan herafla USA eru með aðgang, en fyrrverandi hermenn þar eru um 25 milljónir. Við reyndum að koma verkefninu til ferðaþjónustunnar hér en einhvern veginn var ekki vilji til samstarfs um það. Hinsvegar tók ferðaþjónustufyrirtæki í Reykjavík þetta verkefni og opnaði útibú og starfaði í nokkur ár á Ásbrú.
Í samstarfi við utanríkisráðuneytið, atvinnuþróunarfélagið Hekluna, Isavia, og atvinnuþróunarfélag Eyfirðinga stóðum við hjá SAR fyrir málstofu um Norðurslóðir en þar liggja miklir möguleikar. Þar mættu um 86 aðilar hér af svæðinu.“
Fyrirtækjum fjölgaði í SAR 2014
Guðmundur segir að ákveðið hafi verið að senda bréf á stærstu fyrirtækin og bjóða þeim að koma um borð í SAR en um leið yrði staðið saman að markaðsstarfi í samstarfi við atvinnuþróunarfélagið Hekluna.
„Það komu fljótlega 14 stærstu fyrirtækin en svo hefur þeim fjölgað um 20 til 25 á þessum tíma. Fljótlega þróuðust sérstakir atvinnumálafundir sem voru á tveggja mánaða fresti þar sem einhver kom og kynnti fyrirtækið sitt og eða verkefni. Það hefur verið nokku vel mætt á þessa atvinnumálafundi sem stóðu í klukkustund í hádeginu og var súpa og brauð fyrir fundarmenn. Þessir fundir þróuðust þannig að við buðum öllum bæjarstjórum allra sveitarfélaga, verkalýðshreyfingunni og fleirum og hefur þetta gengið vel, t.d hafa bæjarstjórar verið nokkuð duglegir að mæta.“
Fjölbreytt uppbygging
Árið 2019 hófst að sögn Guðmundar nýr kafli á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli með fjölbreyttri uppbyggingu og fjölmörg verkefni fóru í gang.
„Þarna mun byggjast upp mikil starfsemi sem mun styrkja stoðir atvinnulífsins hér á svæðinu. Sem dæmi voru gistinætur vegna verkefna þarna og loftrýmisgæslu um 56.000 árið 2020 sem hefur styrkt ferðaþjónustuna á sama tíma og lítið annað var í gangi í miðju kófi.“
Hvernig sérðu samtökin starfa á næstunni?
„SAR þarf að breyta aðeins um takt á nýjum tímum og verða sýnilegra. Það er nú svo að þegar bjátar á þá koma margir kraftar saman og vinna sameiginlega að hagsmunamálum samfélagsins á hverjum tíma. Við erum að hugsa nokkrar nýjungar. Má þar nefna atvinnumálafundina sem verða aftur en með breyttu sniði næsta haust. Nú verða kallaðir frumkvöðlar og aðilar sem eru að vinna verkefni á svæðinu og þeir kynna verkefnin fyrir félögum SAR og fleirum. Þessir fundir byrja 9. september og verða auglýstir betur síðar. Þetta eru hádegis súpufundir í klukkustund sem hafa gengið vel hingað til.
Við erum núna að undirbúa markaðskynningu á SAR og hvað þessi samtök hafa gert frá 2010. Við gátum ekkert gert árið 2020 vegna Covid svo við ætlum að gera það núna. Við ætlum einnig í samstarf með Víkurfréttum um að kynna oftar það sem er að gerast hér á vegum fyrirtækja SAR og fleiri vegna verkefna á svæðinu.
Við viljum fá minni fyrirtækin í lið með okkur en það gæti verið fróðlegt fyrir forsvarsfólk þeirra að mæta á atvinumálafundina og jafnvel kynna sig á þessum vettvangi. Um leið er það styrkur fyrir okkur að fá fleiri í samtökin.“
Hver finnst þér helsti vandi Suðurnesja vera í atvinnumálum?
„Ég tel engan sérstakan vanda vera hér til lengri tíma litið. Við erum með mikla sérstöðu sem við þurfum saman að vinna í og nýta tækifærin. Við stefndum á stóriðju 2005 í Helguvík sem tókst ekki af ýmsum ástæðum, Varnarliðið fór 2006 og síðan kemur bankakreppan ofan í það 2008. Síðan þá hafa umhverfismál gjörbreyst og þurfum við klárlega að stokka upp á nýtt hvað það varðar í nýjum verkefnum og hleypa engu í gegn fyrr en allt er klárt hvað umhverfismál varðar. Hins vegar þarf að skoða betur allt þetta pappírsflóð, kærumál og fleira sem á eftir að skemma fyrir okkur til lengri tíma litið. Gott dæmi um það er Suðurnesjalína 2 þar sem eitt sveitarfélag, það minnsta á svæðinu, getur stöðvað framgang mikilvægs verkefnis. En ef maður lítur yfir söguna er það magnað með Suðurnesjamenn að þeir hafa alltaf náð að standa upp þó þeir hafi verið lamdir niður.“
Mörg verkefni í gangi
Eru mörg tækifæri á Suðurnesjum og hver þá helst?
„Hér eru gríðarleg tækifæri og ekki síst að hlið Íslands er hér á Keflavíkurflugvelli þar sem allir ferðamenn koma og fara í gegn. Við þurfum samt að gæta þess að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Við erum með Helguvíkina sem er stórskipahöfn og þarf að finna þar tækifæri vegna Norðurslóða verkefna. Þótt svo að það hafi hallað á okkur vegna Covid þá er það til skamms tíma. Það er margt sem bendir til þess að við séum búin að ná núllpunktinum hvað ferðaþjónustuna varðar og að við séum að hefja uppbyggingu aftur sem er áríðandi. Aðal samdrátturinn á Suðurnesjum hefur verið í ferðaþjónustunni, flestar aðrar greinar hafa sloppið ágætlega út úr Covid. Það er hins vegar áhyggjuefni þegar fyrirtæki ná ekki að nýta fólk af atvinnuleysisskrá í svona miklu atvinnuleysi. Erlent vinnuafl hefur komið sterkt inn hérna á svæðinu í uppbyggingunni sem hófst 2014 og á líklega eftir að gera það aftur. Flugstöðin er okkar stóriðja þó svo Covid hafa haft mikil áhrif þar. Þá má nefna stór verkefni í stækkun hafnaraðstöðu í Helguvík en um er að ræða byggingu 390-420 metra viðlegukants. Þrátt fyrir Covid hafa hótel á Suðurnesjum verið í uppbyggingu og nýtt 150 herbergja Courtyard by Marriott hótel nýrisið, 50 manna vinnustaður og á sama svæði á eftir að byggja upp mikla aðstöðu fyrir verslunarrekstur og þar eru hugmyndir um einkarekna heilsugæslu. Einnig eru miklar og stórar hugmyndir til framtíðar litið með Airport City. Uppbygging og framkvæmdir eru hjá mörgum fyrirtækjum. Frumkvöðlafyrirtækið Algalíf á Ásbrú er að stækka og þar verða miklar framkvæmdir næstu tvö árin. Síðast en ekki síst er Isavia að fara af stað með mjög stór verkefni á næstu 2-3 árum. Þá er í pípunum ánægjuleg uppbygging á Hafnargötunni í Keflavík. Það er því heilmargt í gangi.“
Þú byrjaði sem formaður SAR við stofnun en hefur nú tekið við því embætti aftur. Hvað er það sem heldur þér við þetta efni?
„Það er afar einfalt, ég hef mikinn áhuga á uppbyggingu svæðisins og samfélaginu í heild sinni og má segja að það sé eitt helsta áhugamál mitt og hefur verið um áratugi. Möguleikarnir á Reykjanesi eru miklir og ég er mjög bjartsýnn á endurreisnina á næstu mánuðum og árum.“