Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 13. apríl 2000 kl. 17:14

Mikilvægt að auka menntunarstig á svæðinu

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur nú verið starfsrækt í tæp þrjú ár með góðum árangri. Kjartan Már Kjartansson var fyrsti forstöðumaður MSS en Skúli Thoroddssen tók við af honum í febrúar 1999. Námskeið á vegum miðstöðvarinnar njóta sívaxandi vinsælda. Á tímabilinu 1998-99 var 100% aukning á námskeiðasókn. Það sem af er þessu ári hafa 700 einstaklingar skráð sig á námskeið hjá MSS. Skúli sagðist þó ekki geta lofað 100% aukningu aftur á milli ára en að þessar tölur sýndu að greinileg eftirspurn væri eftir starfsemi miðstöðvarinnar.Gera háskólamenntun aðgengilegri Grundvallarhugmyndin á bakvið starfsemi MSS var að tengja saman atvinnulíf og þekkingu að sögn Skúla. Stofnaðilar voru sveitarfélögin á svæðinu og fulltrúar atvinnulífsins, þ.e. verkalýðsfélögin og samtök vinnuveitenda svo og Fjölbrautaskólinn. „Miðstöðin tengist endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands en hugmyndin er sú að dreifa þekkingu háskólans út á land. Menn vissu í upphafi ekki hvernig þessi starfsemi myndi þróast. Þegar miðstöðin var stofnuð höfðum við enga fyrirmynd en nú eru slíkar miðstöðvar orðnar átta talsins víðs vegar um landið. Þær starfa saman og ætla sér að mynda hagsmunasamtök, til að semja við menntastofnanir og ríkisvaldið, um háskólamenntun“, segir Skúli. Starfstengt nám Starf MSS er þríþætt, þ.e. að bjóða upp á starfstengt nám til að efla atvinnulífið, í öðru lagi að gefa fólki kost á að auka sína persónulegu hæfni með ýmis konar tómstundanámi og í þriðja lagi að bjóða upp á formlegt framhaldsnám. Hvað er starfstengt nám? „Tilgangurinn með starfstengdu námi er að gera fyrirtæki hæfari í samkeppni á innlendum og erlendum mörkuðum. Námið fer þannig fram að haldin eru námskeið um afmörkuð efni, t.d. gæðastjórnun og árangursríka umhverfisstjórnun. Sú tækni sem nú er til staðar verður meira og minna úrelt eftir 10-15 ár og því er mikilvægt að veita fyrirtækjum aðgang að menntun til að þau geti viðhaldið þekkingu sinni“, segir Skúli Víkkar sjóndeildarhringinn Tómstundanámskeið hafa verið vel sótt frá því að MSS hóf starfsemi sína. Fólki hefur gefist kostur á að læra málun, kynna sér bókmenntir og leggja stund á tungumálanám svo eitthvað sé nefnt. „Ég lít á það sem eitt af verkefnum miðstöðvarinnar að koma á framfæri ákveðinni menningu og vekja áhuga einstaklinga á áhugaverðum heimi sem gaman er að kynnast. Allir hafa gott af því að auka þekkingu sína og víkka þar með sjóndeildarhringinn“, segir Skúli. Fjarnám á Suðurnesjum Nú þegar stunda þrír einstaklingar fjarnám í íslensku á vegum Háskóla Íslands. Nemendur mæta í Kjarna tvisvar í viku og fylgjast þar með fyrirlestrum sem fara fram á sama tíma í Reykjavík. Nám af þessu tagi gefur fólki tækifæri á að mennta sig án þess að þurfa að hætta að vinna, því mikill tími sparast með því að þurfa ekki að keyra til Reykjavíkur nokkrum sinnum í viku. Í haust hefst fjarnám í hjúkrunarfræði á vegum Háskólans á Akureyri og nám í rekstrarfræði á vegum Samvinnuháskólans á Bifröst. „Ég geri ráð fyrir að 10-15 manns muni hefja nám í hjúkrunarfræði nú í haust og um 10 manns í rekstrarfræði. Hjúkrunarfræðin er fjögurra ára nám en rekstrarfræðin er tveggja ára nám. Það stendur auðvitað til að bjóða uppá fleiri námsleiðir í framtíðinni en fyrsta skrefið er að vinna bug á tæknilegum örðugleikum. Það er nú að takast“, segir Skúli en á næstunni mun MSS í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurlandi bjóða upp á almennt nám í rekstri fyrirtækja, fyrir fólk sem er í fyrirtækjarekstri. „Þetta verða 180 kennslustundir á einu ári en námið gefur ekki nein réttindi. Næsta skref er að finna fleiri greinar en okkar hlutverk er að hvetja háskólana til að bjóða upp á fleiri möguleika í fjarnámi.“ Aðstaða í gamla barnaskólanum Tekjur af námskeiðum MSS duga ekki til að skapa miðstöðinni rekstargrundvöll en stofnaðilar hennar skuldbundu sig til að reka hana fyrstu þrjú árin. Ekki er búið að ákveða hverjir koma að fjármögnun MSS að þeim tíma loknum en 12. apríl n.k. verður haldin fundur þar sem ræða á framtíðarstefnumótun, fjármögnun og aðstöðu fyrir fjarnámið en MSS hefur þegar gert samning við ríkið um að fjármagna fjarnámið og Skúli segist gera ráð fyrir að MSS geri fastan þjónustusamning við ríkið á næstunni. „Nemendur í fjarnámi þurfa að hafa góða aðstöðu og aðgang að vélum og nettengingum til að geta sinnt náminu. Það stendur til að námið fari fram í gamla barnaskólanum við Skólaveg en við erum ekki búin að skrifa undir formlega samning við Reykjanesbæ sem hefur þegar boðið okkur afnot af húsinu. Ég geri ráð fyrir að það verði gengið frá þeim samningi á næstu vikum.“ Mikilvægt að efla menntunarstig á svæðinu Skúli er ekki í vafa um að starfsemi MSS hafi gífurlega mikla þýðingu fyrir fyrirtæki og einstaklinga á Suðurnesjum. „Það er hlutverk miðstöðvarinnar að efla menntunarstig á svæðinu og tryggja það að þeir sem vilja stunda framhaldsnám geti stundað það hér, þannig að fólk flytji ekki af svæðinu. Einnig er mikilvægt að geta boðið fólki sem vill flytja hingað, upp á menntunarmöguleika“, segir Skúli og bætir við að verið sé að vinna að því að bjóða uppá nám fyrir leikskólakennara, en það verður væntanlega ekki af því fyrr en á næsta ári.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024