Mikil stækkun á undanförnum árum
Skúli Þ. Skúlason hættir sem framkvæmdastjóri fasteignafélagsins KSK eigna ehf. og mun einbeita sér að yfirstjórn Kaupfélags Suðurnesja og dótturfélaga.
Kaupfélag Suðurnesja hefur verið kjölfesta í atvinnurekstri á Suðurnesjum í 75 ár. Í dag er félagið meirihlutaeigandi í Samkaupum hf. og rekur fasteignafélagið KSK eignir. Formaður félagsins er Skúli Þorbergur Skúlason sem hóf störf hjá félaginu 1985.
Þær breytingar verða nú hjá félaginu að Skúli mun nú einbeita sér að yfirstjórn samsteypunnar og draga sig til baka sem framkvæmdastjóri fasteignafélagsins.
„Já mikið rétt, ég mun einbeita mér að kaupfélaginu, sem verður 75 ára þann 18. ágúst næstkomandi. Því fylgir jafnframt stjórnarformennska í Samkaupum hf. og KSK eignum ehf., sem eru í 100 % eigu kaupfélagsins. Við höfum ráðið Brynjar Steinarsson til KSK eigna ehf. Hann er reynslubolti innan úr félaginu og þekkir vel til allra hluta.
Áhugaverð tækifæri skoðuð
Hyggur félagið á frekari landvinninga utan Suðurnesja?
Kaupfélagið tók þá ákvörðun 2012 að stækka félagssvæðið sitt. Þannig eru Reykjavík og nágrannasveitarfélög hluti okkar félagssvæðis. Þar með var settur tónninn fyrir sókn á þennan stóra markað. Stóra skrefið var svo líklega í árslok 2018 þegar við keyptum tíu verslanir undir merkjum Iceland og 10/11. Um það bil 40% af veltu félagsins kemur orðið af höfuðborgarsvæðinu. Vissulega munum við halda áfram að skoða áhugaverð tækifæri til vaxtar en við erum samt þannig gerð að hafa varfærni ætíð að leiðarljósi, enda ætlum við að endast í þessum bransa. Samkaup hefur stækkað mikið á síðastliðnum árum. Innri vöxtur í veltu var 20% í kjölfar endurhönnunar búðargerðanna sem var innleidd á árunum 2016 til 2018 og síðan um 25% við kaupin á verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf því tíma og skarpa einbeitingu til að ná utan um þetta.
Samkaup er stærsta fyrirtæki á Suðurnesjum hvað varðar veltu og starfsmannafjölda. Er það stefnan að vera með höfuðstöðvarnar á heimaslóðum?
Svarið er já. Félagið starfar í dag á landsvísu, rekur 60 verslanir og er með um 1.300 manns í vinnu. KSK er meirihlutaeigandi í Samkaupum og hefur lagt ríka áherslu á að höfuðstöðvar félagsins verði hér suðurfrá þar sem ræturnar eru, þó að um 13% af veltu félagsins komi nú af Suðurnesjum. Þessu fylgja af sjálfsögðu áskoranir en líka kostir sem við hér á svæðinu njótum á margan hátt.
Er von á breytingum varðandi félagsmannakerfi KSK?
Í dag eru sjö þúsund félagslegir eigendur í KSK svf. og hefur fjölgunin verið jöfn og þétt á hverju ári. Eitt af meginmarkmiðum okkar er að auka ávinning í formi betri kjara í daglegum viðskiptum félagsmanna. Það höfum við gert með beinum afsláttum og reglubundnum tilboðum. Með aukinni tækni erum við að leita leiða til að innleiða lausnir sem auka frekar persónulegan ávinning félagsaðildarinnar.
Hreyfiafl framfara
Hvað með samfélagslegu ábyrgðina? KSK hefur alla tíð hugsað um hana.
Það fer illa saman að vera samvinnufélag í grunninn og huga ekki að samfélagslegri ábyrgð. Við hjá KSK munum áfram leggja áherslu á að reyna að vera hreyfiafl framfara hér suðurfrá og sýna ábyrgð í meðferð þeirra fjármuna sem félagið hefur yfir að ráða. Við munum janframt leggja meiri þunga á sjálfbærni og lýðheilsu.
Öflug ný kynslóð stjórnenda
Skúli segir að hjá Samkaupum sé mjög margt í gangi. Félagið hafi lagt ríka áherslu á að efla starfsfólk sitt og innleitt verkefni sem heitir „Mannauður og menning“ sem miðar að því að valdefla starfsmenn og laða fram þjónustugenin og bestu eiginleika fólksins.
„Samkaup hefur fengið jafnlaunavottun og þá fékk félagið menntasprota atvinnulífsins 2020, vegna fræðslu til starfsmanna. Samkaup styrkir menningu, góðgerðarmál og íþróttir um allt land. Síðan og ekki síst eru ýmis verkefni í gangi í búðunum sem snúa m.a. að minni sóun, minni plastnotkun og betri nýtingu orkugjafa svo dæmi sé tekið.
„Ég hef geysilega trú á þeirri kynslóð stjórnenda sem leiðir félagið okkar um þessi misserin. Metnaðurinn er mikill og ósérhlífnin ótrúleg“, segir Skúli Skúlason, formaður stjórnar KSK.