Löndun úr frystitogara!
„Við viljum stækka, það vantar að fá fleiri aðkomubáta til Grindavíkur en sömuleiðis getum við sinnt bátum og skipum utan Grindavíkur“ segir Elvar Hreinsson, framkvæmdastjóri Klafa löndunarþjónustu ehf.
Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson frá Grindavík, sem er í eigu Þorbjarnar hf., kom í land mánudaginn 4. apríl eftir 35 daga veiðiferð þar sem gekk á ýmsu, bæði tengt Covid og eins veðráttunni sem hefur herjað á Ísland meira og minna á þessu ári. Þrátt fyrir þessa erfiðleika og þá staðreynd að áhöfnin var einum færri mest allan tímann, þá varð til nýtt aflamet en þegar endanlega verður búið að ganga frá sölunni má gera ráð fyrir að túrinn sigli yfir 400 milljónir. Það var því borubrött áhöfn sem lagði að bryggjunni í Grindavík þennan mánudagsmorgun og mega þeir gera ráð fyrir að fá dýrindistertu við næstu brottför en lengi hefur tíðkast að mettúr færi áhöfninni tertu í boði útgerðarinnar.
Það er venjulega svona frétt sem vekur mesta athygli, minni gaumur er gefinn að því sem tekur við þegar skipið er lagst við bryggju – sjálfri lönduninni á aflanum. Þess vegna var sá póll tekinn í hæðina í þessari grein, að leyfa löndunargenginu að eiga sviðið að þessu sinni.
Geta bætt við viðskiptavinum
Klafar löndunarþjónusta ehf. var stofnað árið 2015 en eigendur eru feðgarnir Elvar Hreinsson sem jafnframt er framkvæmdastjóri og Alexander Aron Elvarsson, auk Þorbjarnar hf.
Víkurfréttir skelltu sér í löndun þennan umrædda mánudag og eins og venjulega er með frystitogaralöndun, þá teygðist löndunin yfir á næsta dag en þá var sömuleiðis kíkt í línulöndun, n.t.t. upp úr Sighvati sem er í eigu Vísis hf.
„Við stofnuðum Klafa löndunarþjónustu ehf. árið 2015 en ég hafði einhverju áður tekið við sem verkstjóri löndunar hjá Þorbirni,“ segir Elvar Hreinsson.
„Við sáum fljótlega að þetta var ekki að ganga upp, það var ekki nógu mikið að gera til að geta rekið deildina á arðbæran máta og því fæddist þessi hugmynd, að stofna sér fyrirtæki í löndunarþjónustu. Vísir hf. bættist fljótlega í viðskiptavinahópinn og svo Gjögur. Nesfiskur í Suðurnesjabæ hefur verið hjá okkur síðan 2016 en þessi fyrirtæki eru föstu kúnnarnir, inn á milli höfum við tekið að okkur einstök verkefni en við höfum fullan möguleika á að bæta viðskiptavinum við.“
Nesfiskur landar í Keflavík eða Sandgerði en hinir fastakúnnarnir í Grindavík en þar sem veður eru stundum válynd þá er erfitt um vik fyrir drekkhlaðið skip að sigla inn í Grindavíkurhöfn og því kemur það stundum fyrir að löndun fari fram í Hafnarfirði. Löndunargengið mætir þá þangað vopnað lyftara og því sem til þarf og verkið er klárað. Einstaka sinnum kemur fyrir að gengið fari út á land og t.d. var landað á Siglufirði í allt fyrrahaust og það kemur fyrir að það þurfi að skjótast á Austfirðina. Klafarnir hafa t.d. oft farið á Eskifjörð.
Raðað eftir vörunúmeri
Elvar rakti ferlið við hvora löndun fyrir sig: En hvernig er ferlið í lönduninni?
„Það er byrjað á því að raða kössunum á bretti í lest skipsins, við reynum að flokka eftir megni svo ekki þurfi að endurraða kössunum inni í löndunartjaldinu en það er erfitt þar sem mjög mörg vörunúmer eru í gangi. Flest brettin koma óflokkuð og því þarf að taka hvern kassa og raða eftir vörunúmeri. Þegar búið er að fylla brettið þá fer það í plöstun, þaðan fer það annað hvort inn í gám sem búið er að koma fyrir á bryggjunni, eða upp í flutningabíl sem ferjar farminn í vörugeymslu í Hafnarfirði eða Reykjavík. Það líða venjulega ekki margir dagar þar til fiskurinn heldur áfram sjóleiðis til Evrópu eða Ameríku og eftir það er nú ekki langt í að hann sé kominn á matardiskinn.“
Annað verklag í ferskfisklöndun
„Í ferskfisklöndunum er auðvitað allt annað verklag í gangi, þar er fiskurinn í körum, vel ísaður eða krapaður og fer rakleitt í vinnslu viðkomandi útgerðar eða á fiskmarkað.“
Hvernig sér Elvar framtíð fyrirtækisins fyrir sér?
„Við viljum stækka, það vantar að fá fleiri aðkomubáta til Grindavíkur en sömuleiðis getum við sinnt bátum og skipum utan Grindavíkur, höfum margoft þurft að gera það þegar skip hafa ekki komist inn til Grindavíkurhafnar. Við löndum reglulega fyrir Nesfisk í Keflavík og Sandgerði og getum fært kvíarnar út víðar. Vonandi mun kvótinn aukast aftur en það er kvótaskerðing framundan og það mun auðvitað bitna á okkur eins og útgerðinni“.
„Norðanstálið“
Orri Freyr Hjaltalín kom upphaflega til Grindavíkur árið 2003 til að leika knattspyrnu en hann hafði komið nálægt löndunarvinnu á Akureyri. Hann hefur lengi gengið með viðurnefnið „Norðanstálið“ og sú nafngift fékk heldur betur byr undir báða vængi eftir mjög alvarlegt löndunarslys í Hafnarfirði árið 2019 þegar hann vann hjá öðru löndunarfyrirtæki:
„Það datt fullt bretti af kössum ofan á mig, einhver 800 kg og ég þríhryggbrotnaði, braut sjö rifbein ásamt nokkrum öðrum smávægilegum meiðslum. Ég þurfti að bíða niðri í ískaldri lestinni í 45 mínútur þar til sjúkraflutningamennirnir komu, það tók á. Ég mun líklega aldrei jafna mig að fullu en þetta þokast í rétta átt, ég er orðinn slarkfær í þessu.“
Líkamlega erfið vinna
„Þetta er auðvitað mjög líkamlega erfið vinna, ég hef mest gengið um 40 km á einum degi í svona frystitogaralöndun en þetta reynir mest á bak og hendur. Kannski er mikilvægast að vera með harðan haus því það er auðvelt að verða þreyttur í svona vinnu en ef maður heldur hausnum gangandi þá verður líkaminn seinna þreyttur.“
Ég hef oft orðið vitni að uppgjöf manna sem ég taldi að væru algerir jaxlar, t.d. komu eitt sinn lyftingarmenn ónefnds lyftingafélags í löndun á Akureyri og sá sem dugði lengst entist fram að hádegi. Það er ekki nóg að vera líkamlega sterkur, það þarf að vinna hlutina rétt og eins og áður sagði, halda hausnum í lagi allan tímann.“
Tíminn fljótastur að líða í lestinni
Hallgrímur Hjálmarsson var á fullu niðri í lest og það er greinilegt að glasið hans er frekar hálffullt en tómt.
„Maður er annað hvort hér niðri í lest, uppi í tjaldi að raða þar, stundum er ég á lyftara, þetta er allt gaman! Mér finnst tíminn fljótastur að líða þegar ég er hér niðri í lest en þetta er bara vinna, ég hef unnið í akkorði allt mitt líf og maður einfaldlega klárar verkið, mér finnst þetta ekkert mál og þetta er bara gaman!“
„Það er kalt þegar við byrjum löndunina en þá er frostið í lestinni um 20 gráður, þá bítur aðeins í kinnarnar en eftir að lúgan opnar þá hlýnar auðvitað hægt og býtandi en þetta er þannig vinna að maður vinnur sér strax inn hita, þetta er líkamlegt erfiði og þ.a.l. hitnar kroppurinn strax.“
„Það er gott hvernig okkur er skipt á milli línu- og frystitogaralandanna, gott að hafa fjölbreytni í þessu en ég er held ég ánægðastur í svona frystitogaralöndun, þetta heldur manni í góðu formi en ég hef held ég aldrei verið eins vel á mig kominn líkamlega eins og eftir að ég byrjaði að vinna hér! Það væri samt ekki svona gaman í vinnunni ef mórallinn í vinnuhópnum væri ekki svona góður.“
Blaðamaður Víkurfrétta tók til hendinni við löndunina þegar öll viðtölin voru búin og býður sig til þjónustu þegar næsta löndun fer fram, sjáum til hvort Elvar muni hringja!