Kreditlausnir með nýja reiknivél fyrir gengistryggð lán
Kristján Pétur Kristjánsson, viðskiptafræðingur og Haukur Skúlason hagfræðingur hjá Kreditlausnum í Reykjanesbæ, sem starfa innan Lögfræðistofu Suðurnesja, hafa útbúið einfalda reiknivél til að reikna út gengistryggð bílalán út frá vaxtatilmælum sem Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafa gefið út. Reiknivélina má nálgast á vef Víkurfrétta í dag.
Mörg lánafyrirtæki hafa tilkynnt að þau ætli að fara að tilmælum SÍ og FME og munu nú endurreikna gengistryggðu lánin út frá almennum óverðtryggðum eða verðtryggðum vöxtum Seðlabanka á hverjum tíma fyrir sig. Til að fólk glöggvi sig á því hvað það þýðir þá fóru óverðtryggðir vextir á tímabili árið 2008 upp í 21% og 12 mánaða verðbólga hæst í 18,6% í byrjun árs 2009. Leiðréttar eftirstöðvar lána verða því töluvert hærri en ef lánin væru reiknuð miðað við samningsvexti. Dómar Hæstaréttar gefa engar skýrar leiðbeiningar um hvernig eigi að leiðrétta lánin og hafa Seðlabankinn og FME ekki gefið neinar haldbærar skýringar á hverju tilmæli þeirra byggja.
Gengistryggðu lánin fara fyrir dóm að nýju
Lánafyrirtækin reikna núna lánin samkvæmt tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og senda væntanlega út greiðsluseðla í samræmi við það. Hinsvegar ef einhver lántaki sættir sig ekki við að greiða samkvæmt þessum tilmælum og vill miða við samningsvexti, þá verður sá hinni sami líklega að bíða niðurstöðu Hæstaréttar til að fá endanlega úr um það skorið hvaða forsendur skuli miða við. Nær öruggt má telja að lánin fari í gegnum dómskerfið að nýju enda mörg álitamál ókljáð þó deilur um vaxtaforsendur fái nú mestu athyglina. Í millitíðinni virðast fjármögnunarfyrirtækin ætla að miða við vexti Seðlabankans.
Hvert mál er einstakt
„Það ætti að vera óhætt fyrir fólk að greiða af lánum sínum til styttri tíma sem leiðrétt verða í samræmi við tilmæli Seðlabanka og FME ef fólk er þá á annað borð aflögufært, enda munu endurútreikningar lána taka tillit til þeirra greiðslna rétt eins og með fyrri greiðslur ef leiðrétta þurfi lánin aftur samkvæmt samningsvöxtum. Hinsvegar þá verða þeir aðilar sem eru fullvissir um að þeir hafi greitt lán sín að fullu, og jafnvel gott betur, að teknu tilliti til samningsvaxta, að stíga varlega til jarðar. Ef endanleg niðurstaða verður sú að miða skuli við samningsvexti er óljóst hvort að lánafyrirtækin þoli þá niðurstöðu. Ef þau fari í þrot þurfa viðkomandi aðilar að öllum líkindum að gera kröfu í þrotabú þeirra. Af sömu ástæðum getum við ekki ráðlagt neinum að greiða niður að fullu höfuðstól lána sem verða leiðrétt miðað við Seðlabankavexti fyrr en dómstólar hafa kveðið upp endanlegan úrskurð um vaxtaforsendur leiðréttinganna,“ segja þeir Kristján og Haukur í samtali við Víkurfréttir.
Þar sem engir greiðsluseðlar voru sendir út um nýliðin mánaðamót telja þeir Kristján og Haukur að þegar greiðsluseðlar berist að nýju verði þeir með nýjum höfuðstól m.v. nýjar vaxtaforsendur. Þeir eiga von á því að það verði mjög einstaklingsbundið hversu mikil leiðrétting verði á höfuðstól lána hjá fólki með gengistryggð lán. Þar skiptir máli hvort, hvernig og í hversu langan tíma fólk hefur fryst greiðslur, til hversu margra ára upphaflegt lán var, hvernig viðkomandi myntkarfa var uppbyggð, ef miðað er við samningsvexti, og við hvaða lánafyrirtæki fólk var í viðskiptum við en þau hafa notast við mismunandi vaxtaálag. Þá gæti staðan einnig verið þannig hjá einhverjum einstaklingum sem ekki hafa fryst lán sín og haldið áfram að borga, að þau lán séu í dag uppgreidd. Hvert mál er því í raun einstakt.
Áhugaverðar vikur framundan
Þeir segja að athyglisvert verði að fylgjast með því hvernig tekið verður á greiddum dráttarvöxtum, vanskilakostnaði, öðrum innheimtukostnaði. Í flestum tilvikum er þetta kostnaður sem undir eðlilegum kringumstæðum hefði mögulega ekki komið til. Í einhverjum tilvikum má leiða á því líkum að lántakar eigi rétt á skaðabótum vegna afleiðinga gengistryggðra lána. Næstu vikur verði því áhugaverðar og mikil og einstaklingsbundin vinna sé framundan við kröfugerðir og endurútreikning lána. Kreditlausnir, í samvinnu við Lögfræðistofu Suðurnesja, bjóða þá þjónustu að veita ráðgjöf fyrir einstaklinga og fyrirtæki vegna endurskipulagningu skulda.
Viðtal og mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Myndin: Garðar Ketill Vilhjálmsson lögmaður, Ásbjörn Jónsson lögmaður, Haukur Skúlason hagfræðingur og Kristján Pétur Kristjánsson viðskiptafræðinur hjá Kreditlausnum og Lögfræðistofu Suðurnesja. VF-mynd: Hilmar Bragi