Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Keramiksmiðja opnuð í gömlu frystihúsi
Fimmtudagur 16. október 2003 kl. 19:30

Keramiksmiðja opnuð í gömlu frystihúsi

Ingibjörgu Sólmundardóttur, eða Ingibjörgu í Ársól, þekkja allir Garðmenn. Ingibjörg settist að í Garðinum fyrir rúmum tveimur áratugum og sá þá um afgreiðslu ESSÓ, þegar hún var á horni Sunnubrautar og Gerðavegar. Fljótlega sprengdi reksturinn á Sunnubrautinni utan af sér húsnæðið og ráðist var í byggingu á nýrri bensínstöð og sjoppu við Heiðartún. Eftir að hafa stundað verslun þar um nokkurt skeið ákvað Ingibjörg að breyta til, minnka við sig og opnaði verslunina Ársól í öðru húsi við Heiðartúnið. Ekki stóðu rólegheitin lengi yfir hjá Ingibjörgu, því fljótlega var hún búin að fullnýta hvern krók og kima. Þar voru undir sama þaki gjafavöruverslun, fataverslun, matvörubúð, lítið bakarí, pizzabakstur, myndbandaleiga og sjoppa.

 

Fékk föndurdelluna

Aftur þótti Ingibjörgu nóg komið og tími kominn til að slaka á og minnka við sig vinnuna, enda bindandi að vera í svona mörgum þáttum verslunar. Ársól tók því miklum breytingum, Ingibjörg var komin með föndurdelluna eins og svo margir, þannig að matvörunni var mokað út og Ársól breyttist í handverksverslun. Keramik og gler var í miklum metum hjá Ingibjörgu og það kom að því að kaupa þurfti ofn til að brenna keramikið.

Þegar kom að því að kaupa ofninn til brennslunnar kom það upp að eitt helsta fyrirtæki landsins í keramikvinnslu, Listasmiðjan Keramikhús, var keypt. Ingibjörg ræddi málið við Sigurborgu systur sína. Þær systur ákváðu að kaupa fyrirtækið, enda væri þetta alveg tilvalið til að hafa heima í bílskúr og selja svo afraksturinn í versluninni Ársól.

 

Frystihúsi breytt í keramikhús

Það runnu hins vegar tvær grímur á mannskapinn þegar búnaður og lager fyrirtækisins barst suður í Garð. Það sem átti að rúmast í bílskúr og búðarhillum Ársólar við Heiðartúnið fyllti nokkra gáma að mannskapnum var hætt að lítast á blikuna. Nú voru góð ráð dýr. Það var ekki um neitt annað að ræða en að finna húsnæði fyrir starfsemina. Svo fór að Ingibjörg festi kaup á 540 fermetra fyrrverandi frystihúsi í Garðinum. Nýja húsnæðið var áður móttaka Garðskaga hf. og þeirra fyrirtækja er þar voru síðar. Ástand hússins er gott og þar er mikil lofthæð. Ekki veitir af. Þar hafa verið settar upp hillur og rekkar. Í fyrrum kæliklefa eru margra mannhæða hillur sem geyma 2800 steypumót fyrir keramik. Þar sem áður voru geymdir lyftarar hefur verið sett upp jólaland. Beitningaskúrinn er kaffistofa starfsfólks og í sjálfum móttökusalnum eru hillur með steyptum keramikvörum, verslun með tilbúið handverk, keramiksteypa, glervinnsla og aðstaða fyrir fólk til að setjast niður og mála keramik. Þar eru einnig haldin hin ýmsu námskeið.

 

Mikið átak að koma fyrirtækinu upp

Loftur Smári Sigvaldason, hægri hönd Ingibjargar, varð fyrir svörum þegar blaðamaður heimsótti þetta myndarlega fyrirtæki um síðustu helgi. Loftur var ásamt Hans Wíum Bragasyni, eiginmanni Sigurborgar, að setja upp loftræstingu í keramiksteypunni. Hans Wíum tók þátt í því að  byggja húsið fyrir um tveimur áratugum og þekkti því vel til þess þegar það var keypt.

Loftur sagði að það hafi verið mikið átak að koma starfseminni fyrir í húsinu. Ennþá er að bætast í hillur eða bætast við hillur. Framleiðsla er komin á fullt en Listasmiðjunni fylgdi einnig mikill lager sem hefur verið stillt upp. Steypumótin eru um 2800, sem segir þó ekki alla söguna. Margir hlutir eru steyptir í pörtum og settir saman. Fyrirtækið framleiðir um 1800 einingar. Sumt af framleiðslunni er til í nokkrum stærðum.

 

Fólk á öllum aldri í keramiki

Það kom upp jólabarn í blaðamanni við að koma inn í Listasmiðjuna Keramikhús í Garðinum. Úrvalið af jólakeramiki er mikið og sagði Loftur að jólavertíðin þar hafi byrjað fyrir um mánuði síðan og hún standi fram í miðjan desember. Þar sem Listasmiðjan Keramikhús er stærsti framleiðandi keramiks á Íslandi fer framleiðslan víða um land. Þannig er félagsstarf eldri borgara víða um land í áskrift og sömu sögu má segja af skólum. Þannig er fólk á öllum aldri að fást við keramikmálun.

 

Veitir allt að sjö manns atvinnu

Allir hlutirnir sem framleiddir eru í Garðinum eru settir saman á staðnum. Til útskýringar þá geta litlir sætir englar verið framleiddir þannig að búkurinn er steyptur sér, vængirnir sér, hendur sér og svo framvegis. Þannig er þetta með marga aðra hluti. Þetta er allt límt saman með steypuefnum og pússað til þar til hluturinn er óaðfinnanlegur. Þá er hann brenndur og settur fram í hillu til sölu. Það sem aflaga fer í framleiðslunni fer einfaldlega aftur í steypuvélina, þar sem það er leyst upp og steypt að nýju. Mislukkaður jólasveinn, gæti því allt eins orðið að engli eða fallegum vasa í næstu umferð! Sex til sjö manns vinna við framleiðsluna þegar mest er, en yfirleitt starfa fjórir hjá fyrirtækinu.

 

Keramik er eins og golf

Hjá Listasmiðjunni Keramikhúsi eru einnig seldir allir litir sem fólk þarf til að mála keramik. Þúsundir brúsa með allri litaflórunni fylla hillur í versluninni. Þeir sem eru að byrja í keramikmálun og ætla bara að vinna einn eða tvo hluti geta komið á staðinn og fengið að mála þar og greiða eingöngu málningargjald og þurfa þá ekki að kaupa fjöldann allan af litum. Það kjósa hins vegar margir að gera, enda fullyrðir Loftur að keramik sé eins og golf, fólk sem byrjar í þessi geti ekki hætt og takist sífellt á við flóknari hluti.

 

Andrúmsloft frystihússins látið halda sér

Listasmiðjan Keramikhús er í fyrrum fiskmóttöku og andrúmsloftið í húsinu er látið halda sér. Þannig hefur tilvísunum í sjóinn verið komið fyrir í loftum. Salurinn er skreyttur með veiðarfærum ýmiskonar. Aðstaðan er öll opin og viðskiptavinum er frjálst að ganga um húsið og fylgjast með starfsfólkinu við vinnu sína. Næsta sumar er ætlunin að taka á móti hópum ferðamanna. Þá verður búið að útbúa enn meiri aðstöðu fyrir handverksfólk til að selja framleiðslu sína á staðnum.

Nú stendur yfir myndlistarnámskeið í Listasmiðjunni og næstu daga fer í gang námskeið í keramikmálun. Þá er fyrirhugað glernámskeið í Tiffany’s-gleri og einnig námskeið í kortagerð ef næg þátttaka fæst.

 

Opið alla daga

Listasmiðjan Keramikhús er opin alla daga kl. 10-18. Á fimmtudögum er opið til kl. 22 og um helgar opnar kl. 13 og er opið til 18 síðdegis eða eins og Loftur orðaði það: Við erum hérna alla daga og öll kvöld. Ef það er kveikt ljós í húsinu, þá er bara að taka í hurðarhúninn og koma inn. Listasmiðjan Keramikhús er í gamla Garðskaga hf. við Kothúsaveg í Garði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024