Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Íslandshús hyggst gjörbylta einingarhúsum
Óskar Húnfjörð, Jóhanna Sigurbjörg og Dagbjartur Björnsson starfa að framleiðslu eininganna á Ásbrú
Þriðjudagur 17. september 2013 kl. 07:14

Íslandshús hyggst gjörbylta einingarhúsum

Íslandshús ehf. er nýsköpunar- og sprotafyrirtæki á Ásbrú sem hannar, framleiðir, reisir og selur ArcCels einingar sem er ný kynslóð húseininga í húsbyggingar.
Óskar Húnfjörð og Brynja Sif eiginkona hans eru eigendur Íslandshúss en þau hreiðruðu um sig hér í Reykjanesbæ fyrir rúmum tveimur árum. Bæði Óskar og Brynja eiginkona hans lærðu byggingafræði í Danmörku og ráku þar arkitektastofu í 3 ár. Brynja er uppalin í Reykjanesbæ og er af ætt Óla Ingiberssonar sem var afi hennar.

Fyrirtækið hefur aðsetur á Ásbrú en þar fer öll þróunarvinna og framleiðsla fram. Á Ásbrú er vinalegt og þægilegt umhverfi fyrir frumkvöðla að sögn Óskars. Hann segist hafa átt í góðu samstarfi við Kadeco og Reykjanesbæ. „Þessir aðilar hafa fulla trú á því að hér, innan ekki svo margra ára, verði jafnvel kominn vinnustaður fyrir fjölda fólks,“ segir Óskar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hópur reyndra verkfræðinga og byggingafræðinga tóku höndum saman árið 2008 við hönnun nýrrar kynslóðar forsteyptra húseininga fyrir húsbyggingar, þar sem kostir forsteyptra húseininga gætu nýst til fulls. Markmið hópsins var að geta framleitt forsteypt einingarhús á sambærilegu verði og venjuleg blokkaríbúð. Óskar segir að það markmið sé raunhæft. Hann segir að sitt mat sé að önnur einingarhús hafi ekki náð markmiðum sínum hingað til, þ.e. þau eru ekki ódýrari í framleiðslu og ekki fljótlegri í smíðum, né af betri gæðum en venjuleg staðsteypt hús.

Eitt umhverfisvænsta steinsteypumannvirki í heiminum

Tengingar hafa verið veikasti hlekkurinn í einingaframleiðslu hingað til en Óskar og félagar telja sig hafa bætt úr því. „Við teljum okkur hafa samtengingareiningar sem eru a.m.k. þrefaldar að styrk miðað við hefðbundnar húseiningar. Á sama tíma er kostnaður tenginganna einungis um einn fimmti af kostnaðinum, samanborið við kostnað við tengingar hefðbundinna eininga í dag.“  Verulegur efnissparnaður næst með nýju hönnuninni eða allt að 45% og staðfest er að styrkur eininganna stenst staðla og kröfur í byggingareglugerð. Þá hefur óháð verkfræðistofa reiknað út og staðfest að nýju einingarnar eru mun umhverfisvænni og er CO² spor nýju húsanna allt að 45% minna en hefðbundinna staðsteyptra húsa og einingarhúsa. Það væri því hægt að fullyrða að hér sé um eitt umhverfisvænsta steinsteypumannvirki að ræða í heiminum.

Óskar telur að reisa megi burðareiningar í 100-150 fermetra hús á aðeins þremur dögum með ArcCels einingum. „Þarna erum við að leysa málin á teikniborðinu og við framleiðsluna þar sem einingar eru staðlaðar og meðfærilegar. Við leysum ekki vandamálin á byggingarstað,“ segir Óskar sem hefur sterkar skoðanir á byggingamarkaðinum á Íslandi. Óskar er á þeirri skoðun að nú þurfi að byrja að byggja aftur, annars sé von á annarri sprengju á markaðnum. „Það vantar hús á markaðinn af réttri stærð og á viðráðanlegu verði. Við náum ekki strax að selja villurnar sem standa í úthverfunum. Þær verða að bíða þangað til markaðurinn er tilbúinn fyrir þær. Núna höfum við ekki byggt nánast í þrjú ár enda sést það vel á leigumarkaði. Það er vöntun á húsnæði af réttri stærð og á réttu verði,“ segir Óskar.
Einingar Íslandshúss eru meðfærilegar og auðvelt er að flytja þær á milli staða. Nú er þannig í pottinn búið að leitað er eftir fjármagni í verkefnið því dýrt er að koma svona frumkvöðlastarfsemi af stað. Markaðurinn er erfiður eins og gefur að skilja, tiltrúnaður á byggingastarfsemi er lítill og ekki hafa verið byggð mörg hús hér á landi að undanförnu. Óskar segir þó æskilegt að á markaðinn þurfi að koma á milli 2.500 til 3.500 nýjar íbúðir árlega.

Fjölhæfir dvergar

Meðan verið er að basla við þetta dýra og tímafreka verkefni þarf að eiga fyrir salti í grautinn. Íslandshús hafa hafið framleiðslu á Dvergunum, en þar á Óskar við steypueiningar sem sérhannaðar eru undir m.a. skilti, sólpalla, flaggstangir, girðingar og nánast hvað sem er. Ofan á einingunni er skrúfgangur þar sem mismunandi tengistykki er hægt að skrúfa á. Tengistykkin eru sérhönnuð fyrir þær timburstærðir sem eru hér á markaði og styrkur þeirra miðast við íslenskt veðurlag. Stykkin eru framleidd á Íslandi og eru öll heitgalvanhúðuð.  

Óskar segir að þetta hafi ekki verið í boði á markaðnum áður en möguleikar dvergsins eru ótal margir. Sér eiginleikar Dverganna eru að þeir eru um 35% léttari en ef um massífa steypuhlunka væri að ræða sem gerir þá meðfærilegri, en jafnframt tryggir hönnun þeirra að festa í jarðvegi verður margföld miðað við hefðbundna forsteyptar undirstöður sem þegar eru á markaðnum. Eftir að Dvergur hefur verið grafinn í jörðu er hægt með tengistykkinu að stilla hæð og stefnu þess fyrir væntanlega dragara eða staur sem hann á að festa eða halda uppi. Þetta auðveldar venjulegu fólki að smíða sinn eigin sólpall eða skjólvegg.

Óskar leggur áherslu á að stöðug nýsköpun og vöruþróun sé einn af mikilvægustu þáttum í nútíma framleiðslufyrirtækjum þar sem áhersla sé lögð á að útfæra heildarlausnir sem bera með sér sparnað, betri virkni og auðveldara viðskiptaviðmót og  mun fyrirtækið halda áfram þróun og framleiðslu á ýmsum tegundum forsteyptra eininga s.s. stoðveggja, innkeyrsluplana, bifreiðastæða o.fl.