IGS: Um 800 manns við störf í sumar
Starfsemi IGS flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum en í sumar munu yfir 800 manns starfa hjá félaginu í um 650 stöðugildum þegar starfsemin er sem mest. Um 95% starfsmanna eru búsettir á Suðurnesjum. Það þarf því ekki að orðlengja hvað þetta hefur haft jákvæð áhrif á atvinnulífið á svæðinu. „Þetta hafa verið jákvæðir vaxtarverkir sem við höfum getað mætt enda með vel þjálfað og frábært starfsfólk,“ segir Gunnar Olsen framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
IGS flugþjónustan var stofnsett í byrjun árs 2001 eins og hún er í dag en reynsla fyrirtækisins í þessari starfsemi nær yfir 40 ár. Rekstrarsvið IGS eru fjögur: flugafgreiðsla, flugeldhús, veitingasvið og fraktmiðstöð.
„Það hefur verið gríðarlega ör vöxtur í flugumhverfinu á síðustu árum og áratugum,“ segir Gunnar þegar hann er spurður út í aukninguna. IGS er systurfyrirtæki Icelandair og er aðal birgi og þjónustuaðili flugfélagsins en bæði félögin eru hluti af Icelandair Group samsteypunni.
Stærsti þáttur starfseminnar er flugafgreiðsluhlutinn en undir hann falla innritunarþjónustan, farangurshleðsla og þrif. Starfsmenn í innritun eru þeir sem eru mest sjáanlegir farþegum sem fara um flugstöð Leifs Eiríkssonar. Verulegar tækninýjunar hafa verið í innritun, t.d. með tilkomu sjálfsafgreiðsluvéla, en Gunnar segir að um helmingur allra farþega Icelandair nýti sér þá þjónustu en flestir aðrir nýti sér hefðbundna innritun. Nýjungar í innritun þar sem snjallsíminn er notaður hefur einnig rutt sér til rúms og sú notkun á eftir að aukast í takt við aukna notkun þessara tækja. Alls kyns mótorknúin tæki eru í notkun í fyrirtækinu en þau eru vel á annað hundrað. Framkvæmdastjórinn nefnir tæki eins og stigabíla, afísingarbíla og margs konar vagna. Þetta eru tæki sem eru á fleygiferð fyrir brottför og við komu flugvélanna. Viðhaldsdeild sinnir viðgerðum og viðhaldi á tækjum, tólum og bílum félagsins.
Næst stærsti þátturinn í rekstri IGS er flugeldhúsið. Þegar við vorum á ferðinni var mikið í gangi í þessu risavaxna eldhúsi en það er líklega það afkastamesta á landinu.
Matreiðslumenn voru að vinna við gerð nýrra rétta sem verða á boðstólum á Saga Class farrými Icelandair frá þessu vori þegar Víkurfréttir voru á ferð. Gunnar segir umstangið mikið í flugeldhúsinu enda sé opið allan sólarhringinn og matarframleiðsla fer fram daglega kl. 7 til 23. „Það gengur auðvitað mikið á að koma kosti í vélarnar sem eru vel á annan tuginn hjá Icelandair á hverjum degi. Við sinnum einnig öðrum flugfélögum þó Icelandair sé auðvitað lang stærst. Það er sama staða í flugeldhúsinu og í öðrum deildum. Vöxtur og meiri vöxtur. Auk veitinga í flugvélarnar sinnum við almennum markaði með Nordic Deli samlokum og skyndimat en sú framleiðsla hófst fyrir nokkrum árum og varð til þegar starfsemi eldhússins minnkaði verulega í kjölfar þess að Icelandair hætti að færa farþegum mat án gjalds um borð í flugvélum sínum. Með þeirri nýjung náðum við að fylla verulega í það gat sem myndaðist þá og síðan hefur þessi nýja þjónusta vaxið mikið.“
Veitingasvið IGS er þriðji þátturinn í starfseminni og sér um veitingar í fjórum veitingastöðum félagsins og í Saga Lounge setustofunni í flugstöðinni. Þar eins og annars staðar hefur starfsemin aukist í takt við aukið flug.
Fjórði þátturinn og ekki síður mikilvægur er fraktþjónustan. Ferskur fiskur „flýgur“ út með Icelandair vélunum og fer sú þjónusta í gegnum IGS. Með auknu framboði á flugferðum á síðustu árum hafa tækifæri fiskútflytjenda aukist sem þeir hafa og nýtt sér. Vinsælir staðir sem flogið er með fisk til eru t.d. Boston og London. Gunnar Olsen segir að mun minna sé um vöruinnflutning nú eftir bankahrun en hann var mjög mikill á góðærisárunum. Hann segir að sá þáttur muni líklega aukast með tímanum á nýjan leik.
Aðspurður nánar út í vaxtarverki fyrirtækisins segir Gunnar að víða sé starfsemin búin að sprengja utan af sér húsnæðið. Að undanförnu hafi t.d. verið unnið við stækkun á húsnæði flugeldhússins, bæði sunnan- og norðanmegin. Það sé reyndar skammtímalausn og innan fárra ára þurfi að byggja nýtt flugeldhús. Áframhaldandi vöxtur í flugumhverfinu sé þó visst áhyggjuefni því það kalli á frekari stækkun starfssvæðisins í og við flugstöðina. Vaxtarhraðinn hafi í raun verið meiri en hægt hefur verið að mæta að fullu en Isavia, umsjónaraðili flugstöðvarinnar, sé þó vel meðvitaður um stöðuna og hefur gert ráðstafanir um breytingar og stækkanir í og við stöðina. Gunnar segir samstarfið við Isavia hafa gengið mjög vel og þar á bæ sé fullur skilningur á aðstæðum.
Í spjalli við Gunnar nefnir hann mikilvægan þátt í fyrirtækinu með þennan mikla starfsmannafjölda en það er öryggisþjálfun. Mörg störf innan fyrirtækisins kalla á mikla þjálfun og þeim þætti þarf að sinna af kostgæfni enda allt starfsumhverfi í kringum flugið viðkvæmt og því mikilvægt að allt gangi vel fyrir sig.
Gunnar segir að meðal aðgerða sem hafa átt þátt í aukinni flugumferð um Keflavíkurflugvöll sé átakið „Ísland allt árið“ og það hefur þýtt að fleiri heilsdagsstörf hafa orðið til hjá IGS og starfstími þeirra sem hafi hlutastörf hafi lengst. Aðspurður um starfsmannamál segir Gunnar að það hafi skipt miklu máli hvað það hafi verið lítil starfsmannavelta hjá IGS. Margt hjálpi eflaust til þess, m.a. skemmtilegt umhverfi. „Við höfum verið mjög heppin með starfsfólk og það hefur verið lán félagsins,“ segir Gunnar Olsen.