Hraðlestin brunar
– Undirbúningur að hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og miðbæjar Reykjavíkur gengur vel.
Undirbúningur að hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og miðbæjar Reykjavíkur gengur vel að sögn Runólfs Ágústssonar, verkefnastjóra hjá Ráðgjöf og verkefnastjórnun sem stýrir framkvæmd verkefnisins.
„Við höfum unnið að þessu verkefni í eitt og hálft ár en þetta er langhlaup. Í síðustu viku kláruðum við fundi með bæjarstjórum þeirra sveitarfélaga sem málið varðar um skipulagsmál. Næsta skrefið á þeim vettvangi eru fundir með bæjarráðum seinnihlutann í maí og byrjun júní. Síðan taka við kynningar með þingmönnum og áframhaldandi viðræður við ráðuneyti innanríkis og fjármála en nauðsynlegt er að ramma inn verkefnið hvað varðar löggjöf og skipulagsmál áður en samstarfsaðilar þess stofna sérstakt hlutafélag um málið í haust,“ segir Runólfur.
Áætlað er að rannsóknir, hönnun og mat á umhverfisáhrifum geti hafist árið 2016 en það ferli tekur tvö ár. Að því loknu tekur við sex ára framkvæmdatími.
„Við höfum kynnt verkefnið fyrir erlendum fagaðilum og fengið afar jákvæð viðbrögð. Niðurstaða þeirrar rýningar er sú að arðsemi þess er meiri en við gerðum ráð fyrir og svo virðist sem að okkar áætlanir séu ekki bara raunhæfar, heldur of varkárar ef eitthvað er að mati þeirra sem til þekkja. Slíkt er gott enda höfum við viljað hafa kostnað rýmilega áætlaðan en tekjuáætlunina varfærna.“
Þegar er búið að fjárfesta fyrir rúmar 50 milljónir króna í verkefninu en gert er ráð fyrir að aðilar þess leggi sérstöku þróunarfélagi til 150 milljónir til viðbótar sem hlutafé við stofnun þess í haust. „Það eru sterkir aðilar sem standa á bak við þetta verkefni, þar má nefna Kadeco - Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Landsbankann, Verkfræðistofuna Eflu og Fasteignafélagið Reiti auk þeirra aðila sem kostuðu og létu vinna mat á arðsemi og samfélagslegum ávinningi á síðasta ári sem voru Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, Isavia, Ístak og Deloitte.
„Samfélagsleg áhrif þessarar samgöngubótar verða gríðarleg hér á Suðurnesjum. Ferðatími milli flugvallarsvæðisins og miðborgar Reykjavíkur styttist í 15-17 mínútur sem færir samfélögin hér suðurfrá nær borginni sem því nemur. Erlend fordæmi um áhrif svona samgöngubóta sýna að með slíku verður til einn vinnu- og fasteignamarkaður. Það merkir að launastig hér mun að líkindum hækka verulega og fasteignaverð sömuleiðis. Margt mun breytast og eins og ætíð eru breytingar bæði jákvæðar og neikvæðar. Í þessu tilfelli er ég algerlega sannfærður um að framkvæmdin mun skapa gríðarleg og fordæmalaus tækifæri fyrir Suðurnesjamenn,“ segir Runólfur.
Kostnaður við verkefnið er áætlaður rúmir 100 milljarðar króna sem aðallega verður fjármagnaður erlendis frá þótt innlendum fjárfestum verði einnig boðin aðild að verkefninu. „Þetta verkefni tekur því ekki fé frá öðrum brýnum samgönguverkefnum sem hið opinbera fjármagnar né raskar röðun á þeim framkvæmdum. Hér er um að ræða sjálfstæða viðbót sem mun auka erlenda fjárfestingu og styrkja íslenskt efnahagslíf. Verkfræðistofan Mannvit vann á síðasta ári mat á samfélagslegum áhrifum hraðlestarverkefnisins og metur það svo að hann sé 40-60 milljarðar króna núvirtur til 30 ára,“ segir Runólfur og bætir því að lokum við að hraðlest muni þar fyrir utan styrkja stöðu alþjóðaflugvallarins á Keflavíkurflugvelli verulega til framtíðar og þar með atvinnulíf á Suðurnesjum.