Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 13. apríl 2000 kl. 18:13

Hitaveita Suðurnesja að hlutafélgi

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar samþykkti í byrjun janúar sl., tillögu um að óska eftir viðræðum við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum, sem eru sameignaraðilar að Hitaveitu Suðurnesja, um að henni verði breytt í hlutafélag.Það liggur nú þegar fyrir að miklar breytingar eru fyrirhugaðar á rekstarumhverfi orkufyrirtækja bæði hér á landi og erlendis. Bæði koma þar til ákvæði Evrópusambandsins og vilji íslenskra stjórnvalda til að auka skilvirkni í starfsemi á sviði orkuveita og orkudreifingar. Þessu markmiði er stefnt og með því að auka samkeppni og sjálfstæði orkufyrirtækja og ábyrgð stjórnenda. Nýjar aðstæður eru til þess fallnar að skapa ný tækifæri. Samkomulag var undirritað þann 15. október 1998 við Hafnarfjarðarbæ, Garðabæ og Bessastaðahrepp, en Kópavogsbær gerðist síðar aðili samkomulagsins. Með þessu samkomulagi er stuðlað að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga. Ein meginforsenda fyrir þessu samkomulagi er aftur á móti að Hitaveitu Suðurnesja verði breytt í hlutafélag. Þá hafa aðilar innan orkuiðnaðar á Suðurnesjum, í Hafnarfirði og á Suðurlandi ásamt sveitarfélögum á svæðunum áformað að koma á fót alhliða orku- og þróunarfyrirtæki. Aðilarnir eru Hitaveita Suðuresja, Rafveita Hafnarfjarðar, Selfossveitur bs og Bæjarveitur Vestmannaeyja og síðan eftir atvikum hluti annarra veitna þessum svæðum tengdum. Hitaveita Suðurnesja er 25 ára. Það hefði engan órað fyrir því fyrir 25 árum, hversu mikla hagsæld og uppbyggingu hitaveitan hefur veitt okkur. Erfitt er að spá fyrir um hver þróunin verður næstu 25 árin, en við verðum að halda áfram uppbyggingunni. Markaðsverðmæti hitaveitunnar í dag er metið á 9 til 10 milljarða króna. Ef við getum haldið áfram og aukið umsvif fyrirtækisins mun það skila eigendum góðum arði í framtíðinni. Breytingarnar í umhverfi okkar gerast svo snögglega og það er almennt viðurkennt að hlutafélagsformið mun henta best Hitaveitu Suðurnesja. Kostir stækkunar eru augljósir fyrir Hitaveitu Suðurnesja og sveitarfélögin sem standa að henni. Hitaveitan fengi tækifæri til þess að hefja nýja virkjun á Trölladyngjusvæðinu, sem er mjög áhugavert háhitasvæði. Markaðssvæði hitaveitunnar mundi stækka umtalsvert með tilkomu umræddra sveitarfélaga inn í nýtt hlutafélag um Hitaveitu Suðurnesja. Óþarfi er að tíunda það í mörgum orðum hversu jákvæð áhrif þetta mundi hafa á atvinnulífið og alla uppbyggingu hér á Suðurnesjum. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa öll svarað og samþykkt að ganga til viðræðna um hlutafélagavæðingu félagsins. Núverandi eignarhlutar sveitarfélaganna og ríkisins eru þessir: Reykjanesbær 52,2%, Grindavíkurkaupstaður 11,17%, Sandgerði 6,99%, Gerðahrepppur 6,07% og Vatnsleysustrandarhreppur 3,57%. Ríkissjóður á 20% í Hitaveitu Suðurnesja og munum við ræða við hann þegar sveitarfélögin hafa náð samkomulagi í þessu máli. Vonandi er að niðurstaða úr þessum viðræðum náist fljótlega, því tækifærin bíða okkar ekki endalaust. Þorsteinn Erlingsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024