Harkaleg átök vegna uppsagnar á leigusamningi
Stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. segir að uppsögn húsaleigusamnings við Íslenskan markað sé liður í endurskipulagningu verslunar- og þjónusturýmis flugstöðvarinnar. Í tilkynningu frá stjórn FLE kemur fram að endurskipulagningin hafi staðið yfir í langan tíma en að ekki hafi verið hægt að ljúka henni vegna málaferla við Íslenskan markað. Segir í tilkynningunni að Íslenskur markaður sé með stórt rými í flugstöðinni og með því að skipta rýminu upp í smærri einingar sé hægt að hleypa fleiri aðilum að með fjölbreyttari þjónustu. Slíkt fyrirkomulag skapi fleiri störf, en stjórnendur flugstöðvarinnar segja að störfum í flugstöðinni fjölgi um 70 stöðugildi á næstu tveimur árum.
Í dag sendu Samtök verslunar og þjónustu frá sér yfirlýsingu þar sem uppsögn á húsaleigusamningi Íslensks markaðar er harðlega mótmælt. Segir í yfirlýsingu frá samtökunum að uppsögnin sé gerð í hefndarskyni fyrir þá ákvörðun Íslensks markaðar að kæra FLE fyrir brot á samkeppnislögum.
Samtök Iðnaðarins sendu einnig frá sér yfirlýsingu vegna uppsagnarinnar þar sem skorað er á stjórn FLE að draga til baka uppsögn á samningnum. Jafnframt er skorað á utanríkisráðherra að tryggja að íslensk framleiðsla fái þar eðlilegan aðgang.
Yfirlýsing Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf.:
Endurskipulagning í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.
Síðustu daga hafa forsvarsmenn Íslensks markaðar (ÍM) borið stjórnendur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE) þungum sökum á opinberum vettvangi eftir að samningi ÍM um leigu verslunarrýmis í flugstöðinni var sagt upp. Af því tilefni telja stjórnendur FLE rétt að minna á að uppsögn leigusamningsins við ÍM er liður í endurskipulagningu verslunar- og þjónusturýmis flugstöðvarinnar sem staðið hefur yfir í langan tíma en ekki hefur verið hægt að ljúka vegna málaferla ÍM. ÍM er með mjög stórt rými í flugstöðinni en litla veltu á hvern fermetra. Með því að skipta rýminu upp í smærri einingar er hægt að hleypa fleiri aðilum að með fjölbreyttari þjónustu og skapa fleiri störf. Með hagsmuni ferðamannsins að leiðarljósi hefur verið stefna flugstöðvarinnar að auka fjölbreytni í verslun og þjónustu í flugstöðinni og bjóða upp á verð eins og best gerist í öðrum fríhöfnum.
Margvíslegar athugasemdir
Sérfræðingar sem eru FLE hf. til ráðgjafar hafa talið fyrirkomulag verslunarreksturs ÍM óheppilegt og hvatt til þess að verslun á því svæði yrði breytt. Gerðar hafa verið margvíslegar athugasemdir við starfshætti ÍM sem falla ekki nógu vel að þeirri uppbygginu og ímynd sem verið er að treysta í flugstöðinni. Þannig er algengt að verðlagning þeirra sé hærri en gengur og gerist í verslunum innanlands, þrátt fyrir að ÍM selji undir formerkjum “Tax and Duty Free”. Með því er verið að slá ryki í augu ferðamanna. Þrátt fyrir að FLE hafi veitt ÍM yfir 100 milljónir króna í afslætti á leigu vegna samdráttar í farþegafjölda eftir atburðina í Bandaríkjunum 2001 er ekki hægt að merkja að þetta hafi skilað sér í lægra vöruverði hjá fyrirtækinu. Þróun í flugstöðinni felur í sér að verið er að fjölga sérverslunum og fellur fyrirkomulag verslunarreksturs ÍM ekki að þeirri stefnumótun. Þá hafa ýmsir mikilvægir íslenskir framleiðendur kvartað undan því að hafa ekki haft tök á að selja sínar vörur í gegnum ÍM því ÍM veitir ákveðnum framleiðendum forgang.
Forval
Í því skyni að opna frekar fyrir aðgang að markaði fyrir verslun og þjónustu á fríhafnarsvæði flugstöðvarinnar var efnt til forvals árið 2002 þar sem þeim sem uppfylltu skilyrði forvalsins var gefinn kostur á að bjóða í rekstur verslunar og þjónustu. Í forvalinu sóttu yfir 50 aðilar um en þar af voru um 26 aðilar í verslunarrekstri. Vegna málaferla ÍM hefur framvinda forvalsins verið í biðstöðu í tæp tvö ár. Fimmtudaginn 29. apríl sl. féll dómur Hæstaréttar í máli ÍM gegn FLE og samkeppnisráði sem staðfesti að FLE hefur fullt og óskorað vald til að ákveða hvaða húsnæði í flugstöðinni það tekur undir verslunarrekstur eða þjónustu og hvaða vörur eða þjónustu það tekur í sölu. Jafnframt er það undir flugstöðinni komið hvort og að hvaða marki félagið felur öðrum aðilum að annast þjónustu við farþega. Það er fyrst að fengnum þessum dómi sem nú er hægt að halda áfram vinnu samkvæmt markmiðum forvalsins sem er að bjóða upp á aukna og fjölbreyttari þjónustu við ferðamenn sem leið eiga um flugstöðina.
Kauptilboð í ÍM
FLE hf fékk upplýsingar um að forvarsmenn ÍM væru í viðræðum við þriðja aðila um að selja fyrirtækið. Í ljósi þessa og til að freista þess að leysa málið farsællega hafði FLE frumkvæði að því að hefja óformlegar viðræður um að kaupa ÍM. FLE fékk endurskoðunarfyrirtæki til að framkvæma verðmat á ÍM. Í síðasta mánuði lagði FLE fram formlegt kauptilboð til eigenda ÍM sem er yfir því verðmati sem gert var. Því tilboði svaraði ÍM ekki.
Endurskipulagning verslunarsvæðis Flugstöðvarinnar
Á næstu misserum verða miklar framkvæmdir í flugstöðinni s.s. stækkun á innritunarsal, stækkum á móttökusal komumegin, ný skrifstofuaðstaða reist á 3. hæð og stækkun og endurskipulagningu á verslunar- og þjónustusvæði á 2. hæð. Við þessa endurskipulagningu þarf flugstöðin á því svæði að halda þar sem meginaðstaða ÍM er í dag. Því var samningi um leigu á húsnæði ÍM sagt upp þann 30. apríl með samningsbundnum þriggja mánaða fyrirvara. Markmið forvalsins er að auka samkeppni og því er ekki hægt að láta ÍM hafa forgang fram yfir aðra aðila sem sóttu um í forvalinu. Með því væri ekki jafn aðgangur annarra að verslunarsvæði flugstöðvarinnar.
Fjölgun starfa framundan
Fjölgun rekstraraðila þýðir að störfum fjölgar í flugstöðinni. Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf mun beita sér fyrir því að ef ÍM hættir starfsemi muni starfsmenn ÍM hafa forgang að störfum.
Fundur var haldinn 10. maí með forsvarsmönnum Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Verslunarmannafélagi Suðurnesja. Kynntar voru þær framkvæmdir sem nú eru í gangi í flugstöðinni, framtíðaruppbygging hennar og endurskipulagning verslunar- og þjónustusvæðis. Búast má við aukningu starfa sem nemi um 70 stöðugildum meðan á framkvæmum stendur. Vegna stækkunar verslunar- og þjónustusvæðis og fjölgun rekstaraðila í flugstöðinni er áætlað að störfum fjölgi um 30 til 40 á næstu 2 árum.
Yfirlýsing Samtaka verslunar og þjónustu:
Framkoma FLE við Íslenskan markað óásættanleg
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu mótmæla uppsögn Íslensks markaðar á starfsemi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Uppsögnin er að mati SVÞ gerð í hefndarskyni fyrir þá ákvörðun Íslensks markaðar að kæra Flugstöðina fyrir brot á samkeppnislögum. Ætla má að uppsögnin sé öðrum fyrirtækjum í Flugstöðinni til viðvörunar um að véfengja ekki hin umdeilanlegu vinnubrögð Flugstöðvarinnar sem starfar í skjóli ríkisins.
Fyrirtækið Íslenskur markaður hefur starfað við verslunarrekstur á alþjóðlega flugvellinum við Keflavík í 35 ár og hlýtur að teljast vera með sérstaka þekkingu á slíkum rekstri. Fyrirtækið, sem þar til fyrir fáum árum var að töluverðum hluta í eigu íslenska ríkisins, rekur aðeins starfsemi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Þegar forval var auglýst vegna endurúthlutunar verslunarrýmis í FLE fyrir um tveimur árum var fyrirtækið mjög ósátt við ákvæði sem þar voru og þrengdu kosti þess. Því sendi það erindi til Samkeppnisstofnunar og kvartaði yfir þeim atriðum sem þóttu óásættanleg.
Þarna bar e.t.v. mest á því að FLE væri báðum megin borðs, þ.e.a.s. sem leigusali en jafnframt verslunareigandi og rekstraraðili sem úthlutaði sjálfum sér feitustu bitana úr því vöruvali sem boðið er í FLE.
Samkeppnisstofnun samþykkti rök Íslensks markaðar og málið gekk þá áfram og héraðsdómur staðfesti úrskurð Samkeppnisstofnunar. Þá var áfrýjað til Hæstaréttar sem úrskurðaði FLE í vil nú fyrir skömmu.
Tæpum sólarhring síðar barst Íslenskum markaði uppsagnarbréf vegna leigu í FLE og jafnframt kom fram að fyrirtækið var ekki talið hæft til þátttöku í áðurnefndi forvali sem á nú að fara fram.
SVÞ telja að skýringar stjórnenda FLE séu ekki trúverðugar og fráleitt sé að telja fyrirtækið Íslenskan markað, eftir 35 ára rekstur í flugstöðinni, óhæft til þátttöku í forvali um aðstöðu í FLE. Þarna ráða ekki ferðinni sanngirnissjónarmið og jafnræðisregla.
SVÞ telja að í þessari stöðu eigi að heimila Íslenskum markaði þátttöku í umræddu forvali og við samninga í kjölfarið verði öðrum en þeim aðilum hjá FLE og ÍM sem mest hafa deilt falið að ganga frá málum.
Ályktun stjórnar SI um málefni Íslensks markaðar hf.:
Íslenskur markaður hf. (ÍM) er fyrirtæki í einkaeign sem hefur um áratuga skeið gegnt lykilhlutverki við sölu íslenskrar framleiðslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE).
Full þörf væri á að auka kynningu og sölu á íslenskri framleiðslu og hönnun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sú virðist þó ekki ætlunin því að stjórn FLE hefur sagt upp leigusamningi félagsins og virðist staðráðin í að þröngva Íslenskum markaði hf. út úr flugstöðinni og þar með að koma félaginu í þrot.
Stjórn Samtaka iðnaðarins mótmælir þessum vinnubrögðum harðlega.
Það er andstætt hagsmunum íslenskra framleiðenda að bjóða verslunarrekstur í FLE út í formi sérhæfðra smáverslana. Reynslan sýnir að slíkur rekstur er í senn óhagkvæmur og útilokar innlenda framleiðendur frá því að koma framleiðslu sinni á framfæri. Nærtækasta leiðin til að auðvelda innlendum aðilum að selja eigin framleiðslu í FLE er að tryggja Íslenskum markaði hf. leigusamning um hentugt húsnæði í flugstöðinni til nokkurra ára. Besta formið fyrir slíkan rekstur er það sem kallað hefur verið „búð í búð“ þar sem unnt er að samnýta húsrými og starfsfólk. Til þess að svo megi verða má ekki takmarka vöruúrval í slíkri verslun að óþörfu.
Stjórn Samtaka iðnaðarins skorar á stjórn FLE að draga til baka uppsögn leigusamnings við Íslenskan markað hf. Jafnframt er skorað á utanríkisráðherra, sem fer með eignarhlut ríkisins í FLE, að tryggja að íslensk framleiðsla fái þar eðlilegan aðgang. Tímabært er einnig að ríkissjóður hætti verslunarrekstri í flugstöðinni í ójafnri samkeppni við eigin leigutaka.