Handverksfyrirtæki valið í tvenn verkefni Íslandsstofu
Þau hjónin Hulda Sveins og Hrafn Jónsson eiga handverksfyrirtækið Raven Design, sem þau reka í Reykjanesbæ, í Fjósinu í Koti, í Ytri Njarðvík. Á þessu ári hefur þeirra fyrirtæki verið valið til að taka þátt í tveimur sérstökum verkefnum Íslandsstofu (áður nefnt Útflutningsráð Íslands) og er þetta mikill heiður, því takmarkaður fjöldi fyrirtækja komast að á öllu landinu hverju sinni.
Fyrra verkefnið sem Raven Design var valið í heitir Hönnun í Útflutning sem er Þróunarverkefni sem Íslandsstofa leiðir í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtök iðnaðarsins. Markmið verkefnisins er að leiða saman hönnuði og fyrirtæki í samvinnu um hönnun og framleiðslu á útflutningsvörum.
Þátttaka Raven Design var tvíþætt, annars vegar var að finna umbúðir fyrir stærri vörur s.s. plexí- og leðurvörur og hins vegar að hanna borð- og gólfstanda fyrir alla vörulínuna.
Þátttakendur í verkefninu munu fá framlag að upphæð 500.000 kr. til að standa straum af hönnunarkostnaði, gegn a.m.k. jafnháu mótframlagi fyrirtækisins. Þriðjudaginn 21. júní skrifuðu Raven Design og Sóley Þórisdóttir vöruhönnuður sín á milli undir samstarf í verkefninu og hófst þar með fimm mánaða ferli sem lýkur núna í nóvember.
Fyrirtækin sem voru valin í þetta verkefni eru Amivox, Bjarmaland, Glófi, Matorka, Raven Design, Saga Medica, Sif Cosmetics og Triton.
Seinna verkefnið sem Raven Design var nýlega valið í kallast ÚH (Útflutningsaukning og hagvöxtur) sem er markaðs- og þróunarverkefni fyrir fyrirtæki þar sem starfsmenn eða stjórnendur vinna með viðskiptahugmynd er varðar útflutning á vöru eða þjónustu.
Að þessu sinni var verkefnið Keilir heilsukoddi fyrir valinu. Verkefnið stendur yfir í 12 mánuði og er skipt í þrennt þar sem fyrirtækin fá fræðslu og þjálfun með áherslu á markaðs- og sölumál, stefnumótun, og áætlanagerð. Þar fá eigendur Raven Design góðan grunn að undirbúningi á erlendan markað með áherslu á markaðsval og markaðsrannsókn sem unnið er í samvinnu við meistaranema í HÍ. Einnig kemur til þjálfun í sölu- og samningatækni, sýningarþátttöku og kynningartækni samhliða vöruaðlögun og markaðs- og kynningarefni fyrir erlenda markaðssetningu. Markaðssetning erlendis verður í samstarfi við erlenda ráðgjafa þar sem markmiðið er að ná viðskiptasamböndum og að lokum sölu.
Að ÚH verkefninu standa standa Íslandsstofa, Samtök Iðnaðarins, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Byggðastofnun og Félag kvenna í atvinnurekstri. Fjöldi fyrirtækja í ÚH er takmarkaður við 8 þátttakendur á landinu og var Raven Design eitt þeirra.