HAKUNA MATATA
Undanfarin ár hafa Samvinnuferðir Landsýn, í samstarfi við Stöð 2, efnt til vikulangra ferða á framandi slóðir í beinu leiguflugi. Ferðir þessar hafa fengið frábærar mótttökur viðskiptavina og yfirleitt selst upp á örskömmum tíma. Undirritaður hefur farið sem fararstjóri í nokkarar slíkar og að beiðni ritstjóra Víkurfrétta ritað stuttar ferðasögur í Jólablað Víkurfrétta undanfarin 2 ár. Í fyrra greindi ég frá ferð minni til New Orleans og árið1996 fengu lesendur ferðasögu frá San Francisco. Nú er komið að Afríku, nánar tiltekið ævintýralandsins Kenya, sem er u.þ.b. 5 sinnum stærra en Ísland, er á austurströnd Afríku og liggur að Indlandshafi.Allt eða ekkertÍbúar í Kenya telja tæplega 30 milljónir. Landið var bresk nýlenda til 1963 svo hvíti maðurinn hefur alið þar manninn kynslóð fram af kynslóð. Þar tala allir ensku svo samskipti við innfædda voru mun auðveldari en víðast hvar annars staðar í þriðja heiminum. Atvinnuleysi er mikið enda um þróunarríki að ræða. Einhver sagði að 80% þjóðarinnar lifði við skort en 20% við alsnægtir. Í samtölum við starfsmenn hótelsins kom fram að algeng mánaðarlaun fyrir fullt starf væri um 4000 Kenya schillingar sem gera um 5000 íslenskar krónur. Hlutir sem við teljum sjálfsagða eins og rafmagn og rennandi vatn er aðeins á færi hinna betur stæðu. Öllum börnum býðst að sækja skóla en langt í frá að allir nýti sér þann rétt vegna fjárskorts. Í heimsókn okkar í dæmigerðan skóla sáum við og heyrðum að kennslugögn s.s. ritföng og stílabækur eru munaðarvara. Allir nemendur verða að vera í skólabúningum en fæstir áttu skó. Í stórri skólastofu voru 3 bekkir í einu, hver í sínu horninu með sínum kennara, nemendur sátu á bekkjum en engin voru skólaborðin. Þrátt fyrir fátæktina og hrölegt ástandið skein bros út út hverju andliti. Allir virtust ánægðir og glaðir með sitt og setningin „hakuna matata“ heyrðist mjög oft en á ensku þýðir hún „no problem“, engin vandamál.FjallabaksleiðHópurinn lagði af stað frá Keflavík seinnipart fimmtudagsins 29. okt., millilenti í Karío í Egyptalandi til þess að taka eldsneyti og lenti síðan á flugvellinum við hafnarborgina Mombassa á föstudagsmorgni. Flogið var í Boeing 747 Jumboþotu Atlanta og var flugið hið þægilegasta að sögn farþega.Þar sem undirritaður þurfti að fara tveimur sólarhringum fyrr, til þess að undirbúa komu hópsins og ganga úr skugga um að allt væri til reiðu, fór ég eftir öðrum leiðum sem lágu um London, Amsterdam, Naiorbi og Mombassa. Sú ferð hófst á þriðjudagsmorgni kl. 08.50 í Keflavík og inn á hótelherbergi við Indlandshaf var ég kominn á miðvikudagskvöldi kl.18.00 eftir næstum eins og hálfs sólarhrings ferðalag. Það má því segja að ég hafi farið lengri leiðina, nokkurs konar „Fjallabaksleið“, til Kenya.Hópurinn vakti athygliFulltrúar allra helstu dagblaða í Kenya og a.m.k. einnar sjónavarpsstöðvar voru staddir á flugvellinum þegar vélin lenti og sýndu fréttamenn landi voru og þjóð mikinn áhuga. Fólk vissi lítið um Ísland, einn og einn gat þó nefnt Reykjavík. Koma Íslendinganna 402 vakti mikla athygli því fyrir nokkrum misserum dró mjög úr ferðamannastraumi til landsins vegna óeirða sem urðu í Mombassa svo og sprengingarinnar í bandaríska sendiráðinu í Nairobi fyrr á þessu ári. Þeir vonuðust því til að koma hópsins markaði upphaf á nýs blómaskeiðs ferðaþjónustunnar í landinu.Höfðinglegar mótttökurStærsta ferðaskrifstofa Kenya, Utc, var umboðsaðili SL og sá um alla umsýslu hópsins ytra í samstarfi við fararstjóra Samvinnuferða. Þegar hópurinn gekk út úr flugstöðinni, í 30 stiga hita kl. 09.00 á föstudagsmorgni, var tekið ámóti fólki með svaladrykkjum og fjöri. Skrautlega klætt fólk úr Masai ættbálknum steig dans og barði drumbur. Hafi einhver verið þreyttur eða syfjaður eftir flugið var sá hinn sami ekki lengi að hrista af sér slenið við slíkar móttökur. Eftir þetta var ekið með alla á glæsihótelin sem hópurinn átti að búa á næstu vikuna, Whitesands og Mombassa Serena.Safarí-ferðirKenya er þekkt land fyrir margra hluta sakir. Nútíma Íslendingurinn þekkir landið eflaust best vegna þjóðgarðanna sem þar eru með sínu villtu dýralífi sem ferðamenn sækja mikið í í svokölluðum safarí ferðum. Orðið „safarí“ þýðir ferðalag á máli innfæddra, swahili, og fóru um 300 manns í eins eða tveggja daga safaríferðir á meðan á dvölinni stóð. Slíkar ferðir eru ómissandi þegar maður er á annað borð komin til Kenya og upplifðu margir þar stórkostleg augnablik. Í tveggja daga ferðunum var ýmist gist í lúxustjöldum eða á hóteli á stöplum út á miðri sléttunni, í afgirtum reitum en innan um ljón og fíla. Voru allir sammála um að þessar ferðir hafi verið hápunktur ferðarinnar.Mombassa, þjóðarsálin og DOW siglinginBoðið var upp á fleiri skoðunarferðir m.a. um borgina Mombassa. Þar býr rúm ein milljón manna og er höfnin sú næst stærsta í Afríku enda einstaklega vel hönnuð af náttúrunnar hendi. Í Kenya búa um 40 mismunandi ættbálkar. Nærri hótelunum hafa framtakssamir einstaklingar útbúðir þorp sem heitir Ngomongo og þar geta ferðamenn kynnst lifnaðarháttum og störfum amk. tíu þessara ættbálka. Í þorpinu búa og starfa fulltrúar þessara þjóðflokka og var mjög athyglisvert að heimsækja þá.Á Indlandshafi hafa menn siglt í aldir á seglskútum sem kallaðar eru DOW. Í einni skoðunarferðinni áttum við þess kost að sigla um hafið á slíkri skútu, innan um kóralrif og skraut fiska. Um borð skemmtu okkur liðamótalausir „acrobatar“ og hádegisverðurinn saman stóð af ýmsum réttum s.s. kjöti af kjúklingum, krókódíl, antilópu, og úlfalda. Þetta framandi kjötmeti reyndist hinn mesti herramanns matur sem landinn kunni vel að meta.Heimilislaus götubörnÁður en hópurinn lagði af stað frá Íslandi birtist lesendabréf í Morgunblaðinu, og síðar frétt á Stöð 2, þar sem Íslendingar, sem verið höfðu á ferð í Kenya fyrr á þessu ári, vöktu athygli ferðalanga á ástandinu og þá sérstaklega á heimili fyrir vegalaus götubörn í nágrenni Mombassa .Ferðalangar voru beðnir um að taka með sér fatnað, skó, leikföng, ritföng, stílabækur og fleira og var ætlunin að koma þessu til heimilisins sem heitir Wema Center. Fulltrúar Samvinnuferða og Stöðvar 2 heimsóttu heimilið og var ákveðið að fulltrúar þess kæmu á hótelið og veittu gjöfunum viðtöku. Fór afhendingin fram á hótelinu við mikinn fögnuð heimilismanna. Fleiri hundruð kíló af fötum, skóm, bókum, ritföngum, leikföngum o.fl. skiptu um eigendur og hafa eflaust komið að góðum notum síðan.Börnin þökkuðu fyrir sig með því að syngja. Mátti sjá blika á tár í augum sumra Íslendinganna þegar börnin sungu sálma Drottni til dýrðar og þökkuðu honum fyrir að hafa bjargað sér úr götulífinu og veitt þeim annað tækifæri.Heimilið er stofnað af konu sem heitir Lucy. Hún rekur veitingastað í Mombassa og hefur heimilisreksturinn sem „áhugamál“. Heimilinu berast stundum gjafir sem þessar og var ljóst að þeim 63 börnum sem þar búa fannst spennandi að hitta fólk frá Íslandi. Í einni skólastofunni á heimilinu var stórt landakort sem sýndi allan heiminn. Við sýndum þeim Ísland og sýndu þau landinu mikinn áhuga.HeimboðÞegar leið á vikuna fengu sumir farþeganna boð frá starfsfólki hótelanna um að koma með þeim heim eftir vinnu. Sögðu þeir sem þáðu slík boð að þau hefðu verið ævintýri líkust. Það sem eftirminnilegast var var hversu lífsglaðir og ánægðir allir voru þrátt fyrir nöturlegar aðstæður. Fólk klæddist skrautlegum fötum og mátti sjá kvenfólk í hvítum alklæðnaði, tandurhreint og fínt, koma út úr sumum hreisunum.HeimferðEftir vikudvöl í ævintýralandinu Kenya lagði hópurinn svo af stað norður á bóginn með Jumboþotu Atlanta. Að þessu sinni fékk ég að sitja í og fara styttri leiðina heim. Við millilentum í Karíó eins og gert var á leiðinni út. Þegar vélin kom inn til lendingar þar sáum við hina frægu pýramída mjög greinilega. Þá spurðu margir: „Hvert á að fara næsta ár?“