Gylfi og Þormar eru pizzakóngarnir í Grindavík
Hugmyndin fæddist á meðan beðið var eftir pizzu. Vantar hótel í Grindavík svo alvöru ferðamannaiðnaður geti þrifist.
„Eigum við að opna pizzustað?“ Þessi spurning Gylfa Ísleifssonar til Þormars Ómarssonar, vinar síns, var upphafið af ævintýri þeirra árið 2013 en þá byrjuðu þeir að baka og selja pizzur í Grindavík. Þeim óx ásmegin og enduðu á að kaupa annan pizzastað í Grindavík. Fyrsta ferðamannabylgjan í kjölfar Eyjafjallagossins var nýskollin á og vinirnir hafa svo sannarlega orðið varir við ferðamenn síðan árið 2021 þegar eldgosin hófust í bakgarði Grindavíkur.
Gylfi, sem hafði unnið hina og þessa verkamannavinnu fram að þessu, fór yfir hvernig kom til þessa símtals árið 2013. „Hjá minni fjölskyldu var regla að borða pizzu á föstudagskvöldum. Þegar ég hringdi og pantaði var mér sagt að biðin væri 40 mínútur og þegar ég kom þurfti ég að bíða í aðrar 40 mínútur. Á meðan ég beið í röðinni hringdi ég í Þormar og spurði hvort við ættum ekki bara að stofna pizzastað. Ég þóttist vita að það væri hægt að gera þetta betur. Þormar, sem hafði áður rekið pizzastað í Grindavík, nánast skellti á mig en við höfum verið vinir síðan við unnum saman við löndun í Grindavík, spiluðum snóker og lyftum lóðum saman. Þormar hugsaði þetta greinilega eitthvað og fyrr en varði vorum við komnir í húsnæðið sem áður hýsti sjoppuna Báruna. Við ákváðum að taka slaginn, unnum okkar dagvinnu til klukkan fimm, mættum svo og bökuðum og seldum pizzur. Þormar var búinn að læra pizzafræðin en ég nýttist nú ekki í meira en að vera pizzasendill til að byrja með en svo lærði ég auðvitað að baka. Við vorum í Bárunni í eitt ár en fréttum svo af því að Mamma mia pizzur væri til sölu og þá upphófst næsti kafli.“
Aldrei aftur
Þormar hafði rekið pizzastaðinn Mamma mia frá árunum 2004 til 2007 og var harðákveðinn í að fara aldrei aftur út í þann bransa. „Það voru þau Stefán Kristjánsson og Sandra Antonsdóttir, sem nú eiga útgerðarfélagið Einhamar, sem byrjuðu með pizzastaðinn Mamma mia. Þau ráku staðinn þar sem hannyrðabúðin Rún var en Aðal-braut er með allt það húsnæði núna. Ég keypti staðinn af þeim og flutti hann fljótlega í núverandi húsnæði á Hafnargötunni en þar hafði verslunin Bláfell verið. Það voru nokkur ár liðin síðan Bláfell hafði lagt upp laupana og húsnæðið var illa farið svo ég þurfti að taka það mikið í gegn. Endurbæturnar tókust vel og ég rak staðinn til ársins 2007 en þá var ég búinn að fá nóg og fór að gera annað. Þess vegna má spyrja sig hvernig mér datt í hug að fara út í þetta ævintýri með Gylfa vini mínum en hér er ég ennþá, tæpum tíu árum seinna. Ég veit ekki hvað heldur í mig, þetta hefur verið mikil vinna og hún fer að mestu fram á öfugu róli miðað við alla aðra, fólk kaupir mest pizzur á kvöldin og um helgar þegar það er í fríi. Eitthvað er greinilega heillandi við þetta samt, annars væri ég líklega búinn að stimpla mig út. Við Gylfi erum líka farnir að geta tekið okkur frí en við vorum hérna nánast öll kvöld og helgar fyrstu árin. Andinn og mórallinn hefur alltaf verið góður hér á vinnustaðnum, það hefur kannski haldið hvað mest í mann, það hefur verið gaman í vinnunni.“
Eyjafjallagosið og eldgosin við Grindavík
Vinirnir nutu góðs af ferðamannabylgjunni sem hófst í kjölfar Eyjafjallagossins, Gylfi tók aftur til máls. „Þegar við byrjuðum árið 2013 var fjöldi erlendra ferðamanna farinn að aukast þó svo að þeir væru ekki allir að skila sér til Grindavíkur. Bakbeinið í okkar rekstri hefur alltaf verið heimafólkið. Þegar við færðum okkur úr Bárunni árið 2015 hættum við báðir í dagvinnunni og einbeittum okkur að Papas. Fljótlega lengdum við opnunartímann og stækkuðum matseðilinn, fórum úr því að bjóða eingöngu upp á pizzur í að vera með fjölbreyttan fjölskyldumatseðil. Reksturinn gengur vel í dag en við getum og viljum auðvitað fá fleiri kúnna en í leiðinni viljum við gera hlutina vel. Þegar fyrsta eldgosið skall á, en þá var Covid líka í gangi, fylltist bærinn og við vorum með biðröð nánast út á götu, það var kannski of mikið,“ segir Gylfi.
Þormar kom inn á hvað hann telur vanta fyrir ferðamannaiðnaðinn í Grindavík og hvernig hann sér Papas pizzur eftir þrjú ár. „Það sem Grindavík tilfinnanlega vantar, til að hér geti þrifist alvöru ferðamannaiðnaður, er hótel. Þegar ég byrjaði í þessum bransa árið 2004 sást varla erlendur ferðamaður. Þeim fór að fjölga eftir Eyjafjallagosið og þeim hefur auðvitað fjölgað mjög mikið eftir að fyrst gaus við Grindavík árið 2021. Þessir ferðamenn eru bara hér yfir daginn, eru síðan farnir í höfuðborgina þar sem þeir gista. Við fundum mun þegar Geo hótel opnaði á sínum tíma og það er sorglegt að ekki sé hér almennilegt hótel því Grindavík hefur alla burði til að verða mjög öflugur ferðamannabær. Við erum stutt frá Bláa lóninu sem er vinsælasti ferðamannastaður landsins, það er sorglegt að það skili sér ekki fleiri þaðan inn í bæinn. Við höfum reynt okkar í gegnum tíðina, vildum m.a. setja upp skilti við afleggjarann að Bláa lóninu þannig að þegar fólk kæmi til baka úr lóninu myndi blasa við skilti sem vísaði á hafnarbæinn Grindavík, bæ sem býr yfir mikilli sögu. Okkur fannst við tala fyrir daufum eyrum þeirra sem ráða ríkjum hjá Grindavíkurbæ. Grindavík hefur upp á ótal margt að bjóða, t.d. er Hópsneshringurinn stútfullur af sögu skipsstranda og með því að gera meira út á hann gæti Grindavík orðið mjög aðlaðandi. Það þarf ekki svo mikið að gera til að Grindavík geti tillt sér á stall með vinsælustu ferðamannastöðum landsins en þá þurfa bæjaryfirvöld og við sem erum að vinna í ferðamannaiðnaðinum að vinna betur saman.
Hvar Papas pizzur verða eftir þrjú ár er erfitt að segja til um. Eins og Gylfi minntist á, gengur reksturinn vel en við erum ekki að fara stækka staðinn eða færa út kvíarnar. Enginn veit þó hvað framtíðin ber í skauti sér, við sjáum bara til,“ sagði Þormar að lokum.