Gjafavara sem minnir á Ísland
Gamlir Keflvíkingar muna vel eftir Stapafell. Nafnið er ennþá til þótt verslunin hafi breyst töluvert í áranna rás og fært sig um set ofar í götunni en verslunin byggir á gömlum góðum grunni. Í dag rekur Oddgeir Garðarsson Stapafell við Hafnargötu. Verslunin hefur síðustu árin breyst í minjagripaverslun og lagt áherslu á að bjóða vörur fyrir túrista og þá sem vilja eignast eitthvað dæmigert íslenskt. Verslunin býður upp á mjög fjölbreytt úrval gjafavöru.
Jólastemning í desember
„Ég keypti Stapafell á sínum tíma og held ennþá í þau góðu viðskiptatengsl sem tilheyrðu gömlu versluninni. Þess vegna er ég með vörur frá sömu heildsölum og voru í gömlu versluninni. Þetta er skemmtileg og vönduð gjafavara sem ég vil halda áfram að bjóða upp á. Það eimir því ennþá af gamla Stapafelli hér innandyra má segja. Í dag erum við þó flesta daga ársins að selja vörur sem túristar vilja eignast sem minningu um Ísland og auðvitað kaupa Íslendingar vörur hérna til að senda til útlanda og svona. Í desember breytist þó stemningin töluvert því þá eru Íslendingar í meirihluta viðskiptavina en hér er fullt af fallegri jólavöru,“ segir Oddgeir sem leggur áherslu á að þjóna bæjarbúum eins vel og hann getur, ekki bara útlending um.
Íslensku jólasveinarnir, Grýla og Leppalúði
„Við erum þeir einu sem bjóðum upp á íslensku jólasveinana hér í bæ en þeir fást annars bara upp í flugstöð. Það eru margir að safna þeim og auðvitað Grýlu og Leppalúða. Við erum með allt settið og einnig jólaóróana með þeim og jólakúlurnar líka. Við erum með fleira sem minnir á jólin, t.d. postulínskönnur og kökudiska með jólateikningum. Handgerðu sápurnar frá Óla Halldórs Keflvíkingi eru til sölu hérna en þær eru mjög vinsælar. Svo er ég með íslenskt kryddsalt í úrvali sem einnig er flott gjöf. Allskonar áletraðir stuttermabolir. Landsliðsbolina vinsælu, ýmiskonar smáhluti og fleira og fleira. Það er bara að koma hingað inn og skoða allt úrvalið hérna,“ segir Oddgeir hress og heldur áfram að telja upp úrvalið sem er ótrúlega mikið.
Lopapeysa er ekki bara lopapeysa
„Ég er að líka að selja íslenskan lopa fyrir þá sem eru að prjóna heima. Hérna er ég með íslenska ull í allskonar litum, kambgarn, plötulopa, hosuband og kembu sem notað er í að þæfa. Við seljum þessar vörur á betra verði þó víðar væri leitað, t.d. ódýrara en hjá Álafoss. Svo erum við með allskonar hlýlegar gjafir eins og handprjónaðar ullarhúfur, vettlinga og mjög vandaðar lopapeysur á sanngjörnu verði en ég er með konur hér innanbæjar sem prjóna fyrir verslunina. Ég sel eingöngu handprjónaðar lopapeysur og sel á mun lægra verði en fæst í almennum túristabúðum. Ég kaupi af keflvískum konum og það er mjög þægilegt að þær eru búsettar hér innanbæjar, bæði fyrir þær og mig. Ef mig vantar eitthvað sem viðskiptavinurinn er farinn að biðja um þá panta ég það og þær búa það til. Þetta eru flinkar konur sem hafa staðist gæðaprófið má segja en ég lærði það á sínum tíma þegar ég var að taka við allskonar lopapeysum eftir hrun frá allskonar prjónakonum að lopapeysa er ekki bara lopapeysa. Þær sem ekki gengu vel frá undir handarkrika t.d. voru að selja mér vöru sem kom gat á eftir stuttan tíma og það var ekki nógu gott. Þær konur sem ég versla við í dag eru með mjög vandað handverk, virkilega vel prjónaðar vörur. Þetta er mjög góður hópur,“ segir Oddgeir og hefur greinilega mikið vit á prjónaskap í dag, alla vegana meira en blaðamaðurinn sem er að fræðast af honum sérfræðingnum um fallegan frágang í handarkrika. Svona lærir maður eitthvað nýtt og verður sérfræðingur í einhverju alveg óvart.
Hvað með jólin hjá kaupmanninum sjálfum?
„Jólin eru slökun hjá mér eftir alla traffíkina. Ég, eins og aðrir kaupmenn, vonast auðvitað eftir góðri jólaverslun heimamanna. Desember er einn af þessum góðu mánuðum. Þá kemur líka allt annað fólk og verslar. Þá er gaman að hitta alla Íslendingana sem koma hingað inn, þegar maður er yfirleitt í kringum útlendinga. Hjá mér sjálfum á jólunum er það fjölskylda mín, fólkið sem maður vill vera með. Mér finnst gaman að spila Trivial og svona. Já, og púsla. Ég er samt að púsla allt árið. Alltaf með púsl í gangi. Það er svona ritjúal hjá mér að fá mér heitt te á morgnana þegar ég vakna og setjast niður og púsla í svona tuttugu mínútur, þannig byrja ég daginn. Svo fer í sundlaugina og syndi áður ég fer í vinnu og tekst á við verkefni dagsins,“ segir Oddgeir hress í bragði.