Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Mánudagur 18. febrúar 2002 kl. 11:09

Framtíð Byrgisins í Rockville

Formlegri úttekt fyrir Utanríksiráðuneyti og Varnarmálaskrifstofu á starfsemi Byrgisins í Rockville lauk nú í janúar s.l. Niðurstöður skýrslunnar í heild eru jákvæðar og lofa góðu um framhaldið. Á árinu 2002 mun svo verða tekin endanleg ákvörðun um framtíðarveru Byrgisins af Rockville, en Byrgið fékk Rockville til afnota skv. samningi við Varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins í mars 1999.Þegar taka á ákvörðun um framtíð Byrgisins í Rockville, þá er það ákvörðun um framtíð skjólstæðinga Byrgisins og þeirra afdrif, fyrst og fremst, það sem málið snýst um. Uppbygging og viðhald svæðisins eru þættir sem sterklega tengjast endurhæfingu þeirra og bata. Uppbyggingin er og hefur verið kostnaðarsöm og megnið af kostnaðinum var lítt fyrirsjáanlegur. Nauðsynlegt var að koma svæðinu í það horf að þar teldist viðunandi aðstaða til meðferðarstarfsemi. Verkið hefur fyrst og fremst verið unnið með stuðningi fyrirtækja og einstaklinga um land allt. Heildarkostnaður vegna verksins er nú um 75-80 milljónir og margt er ennþá ógert. Uppbygging hefur staðið yfir síðan í mars 1999, en eiginlegt meðferðarstarf í Rockville hófst í júní árið 2000, svo að Rockville starfið er tæplega tveggja ára gamalt, aftur á móti var Byrgið stofnað árið 1996.
Í Rockville er verið að skapa aðstæður til þess að reka langtímameðferð með vinnuaðlögun, svokallað endurhæfingarsambýli. Sú aðferð í meðferðarmálum er af mörgum talin sú eina sem raunhæf má teljast til þess að ná árangri fyrir einstaklinga sem ekki geta, vegna vandamála sinna, þrifist í þjóðfélaginu. Í Rockville getur í framtíðinni verið samfélag 150 manna sem vilja lifa án vímuefna, og sumt þessa fólks getur aldrei annars staðar verið, ef það á að halda sér frá vímunni. Þrátt fyrir vilja þess til að ná stjórn á lífi sínu og jafnvel þrátt fyrir margar meðferðir í þeim tilgangi, tekst það brösuglega.
Í Byrginu er verið að meðhöndla vímuefnaneytendur sem hefur verið vísað frá einum stað til annars á margra ára ferli, sem svo hefur endað með því að viðkomandi hefur gefist upp. Ferli þetta er langt og kvalafullt, getur tekið 15-20 ár ef viðkomandi lifir það yfir höfuð af svo lengi. Hér er um að ræða afbrotamenn, geðsjúklinga, einstaklinga með geðræn vandamál og ýmsa líkamlega kvilla, einstaklinga sem eru félagslega vanhæfir vegna langvarandi örorku og aðgerðarleysis og svona má lengi telja. Allir þessir eiga það svo sameiginlegt að vera heimilislausir. Þetta er markhópurinn og færri komast að en vilja, því að stöðugt þarf að vísa þeim erfiðustu frá, eða þeim sem eru beinlínis hættulegir umhverfi sínu. Til þess að ráða við slíkar uppákomur, þyrfti þrefalt fleiri starfsmenn, en nú eru í Byrginu.

Endurhæfingarmeðferðin miðar að því að losa þessa einstaklinga; fyrst úr viðjum neyslunnar, síðan úr viðjum afleiðinga neyslunnar, sem er; atvinnuleysi, húsnæðisleysi, félagsleg stöðnun, fjármálaóreiða, þunglyndi og kvíði, sjúkdómar, brostin fjölskyldutengsl o.s.frv. Í stað þess að vísa frá einum stað til annars, þá er tekið á sem flestum vandamálum einstaklinganna á staðnum. Þurfi einstaklingarnir að leita til sérfræðinga eða stofnana úti í bæ, þá fara þeir í fylgd starfsmanna og njóta aðstoðar þeirra og stuðnings.

Í Byrginu, Rockville er leitast við að veita raunverulega hjálp þeim til handa sem geta ekki fótað sig úti í þjóðfélaginu. Fyrirtæki og einstaklingar og hið opinbera hafa lagt umtalsverða fjármuni til reksturs og uppbygingar starfseminnar í Rockville. Framtíðarafnot Byrgisins af ratsjárstöðinni í Rockville munu fyrst og fremst ráðast af meðferðarþörf einstaklinganna sem hér um ræðir, með tillliti til vinnuframlags þeirra og verðmætasköpunar á svæðinu og trausts þeirra á til þess örugga athvarfs sem starfsemin veitir. Ef skjólstæðingar Byrgisins kæmu allir á götuna, þá yrði mikil breyting á yfirbragði miðbæjarins í Reykjavík, auk þess sem gistinóttum í fangageymslum, erfiðum sjúklingum á geðdeildum, innbrotum og ofbeldisverkum, fíkniefnaneyslu unglinga og útigangsfólki fjölgaði verulega.

Nú þegar nálgast sá tími að taka á ákvörðun um framtíð Byrgisins í Rockville, þá spyrjum við: Er vilji fyrir hendi af hálfu stjórnvalda til þess að taka á með Byrginu og tryggja Byrginu rétt til framtíðarveru í Rockville? Tíminn hefur farið í að setja saman starfshópa (fleiri en einn og oftar en einu sinni), gera úttekt og meta niðurstöður. Er vilji til að taka á vanda hörðustu neytendanna í samfélaginu, eða ekki? Byrgið hefur viljann og getuna, en skortir fjármagnið. Svo einfalt er það.


Rockville 16.2.2002
F.h. Byrgisins

Steinunn Marinósdóttir
Skrifstofustj.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024