Formula1 í Grindavíkurhrauni?
Verið er að kanna áhuga fjárfesta í Bretlandi á að fjármagna upphitaða æfingabraut á Suðurnesjum sem yrði jafnframt kappakstursbraut og myndi meðal annars nýtast fyrir athuganir á bílum í Formúlu 1-kappakstrinum og fyrir almennan æfingaakstur vegna ökukennslu. Ólafur Kristinn Guðmundsson, fyrrverandi formaður Landssambands íslenskra akstursfélaga og dómari í Formúlu 1, segir í samtali við Morgunblaðið um helgina vera mikla þörf fyrir svona upphitaða braut, sem sé sennilega hvergi til í heiminum, og mikilvægt sé að geta stjórnað hitanum í malbikinu og líkt þannig eftir keppnisaðstæðum. Ólafur segist fyrst og fremst hafa horft til svæðisins í nágrenni við hitasvæðið í Svartsengi, því flugvöllurinn sé nálægt sem og höfnin, orkan sé til staðar og hraunið, en lauslega hafi verið rætt við ráðamenn í Reykjanesbæ og hjá Hitaveitu Suðurnesja um hugsanlegt samstarf. „Fáir trúðu því að íslensk torfæra yrði útflutningsverðmæti en annað hefur komið á daginn,“ segir hann.
Hugmyndin hafi verið að þróast undanfarin misseri, en gera megi ráð fyrir kostnaði upp á nokkur hundruð milljónir og eftir eigi að tryggja þær. „Vilji menn fara út í þetta geta hlutirnir gerst hratt og verði tekin ákvörðun fljótlega gæti þetta verið tilbúið að ári,“ segir hann og bætir við að verið sé að ræða um tveggja til þriggja km braut.
Nýting svona brautar getur orðið mikil, að sögn Ólafs. Meðal annars geti dekkjaframleiðendur notað hana til að reyna dekk undir bílum, hún gagnist kappakstursbílaframleiðendum og venjulegum bílaframleiðendum auk þess sem hún nýtist vel fyrir almennan æfingaakstur, en slíka aðstöðu vanti illilega í tengslum við ökukennslu. „Við erum eina landið í Evrópu sem er ekki með svona æfingasvæði í ökukennslu,“ segir hann. Auk brautarinnar hafa verið uppi hugmyndir um að útbúa vindgöng fyrir bíla í fullri stærð og segir Ólafur að sér vitanlega séu slík göng hvergi til, en þau eru notuð til að kanna áhrif vinds á bílana.
Morgunblaðið greindi frá um helgina.
Hugmyndin hafi verið að þróast undanfarin misseri, en gera megi ráð fyrir kostnaði upp á nokkur hundruð milljónir og eftir eigi að tryggja þær. „Vilji menn fara út í þetta geta hlutirnir gerst hratt og verði tekin ákvörðun fljótlega gæti þetta verið tilbúið að ári,“ segir hann og bætir við að verið sé að ræða um tveggja til þriggja km braut.
Nýting svona brautar getur orðið mikil, að sögn Ólafs. Meðal annars geti dekkjaframleiðendur notað hana til að reyna dekk undir bílum, hún gagnist kappakstursbílaframleiðendum og venjulegum bílaframleiðendum auk þess sem hún nýtist vel fyrir almennan æfingaakstur, en slíka aðstöðu vanti illilega í tengslum við ökukennslu. „Við erum eina landið í Evrópu sem er ekki með svona æfingasvæði í ökukennslu,“ segir hann. Auk brautarinnar hafa verið uppi hugmyndir um að útbúa vindgöng fyrir bíla í fullri stærð og segir Ólafur að sér vitanlega séu slík göng hvergi til, en þau eru notuð til að kanna áhrif vinds á bílana.
Morgunblaðið greindi frá um helgina.