Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fjárfest í dýrmætri þekkingu til framtíðar
Laugardagur 2. júní 2007 kl. 13:21

Fjárfest í dýrmætri þekkingu til framtíðar

-Keflvíkingurinn Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, útskýrir hvers vegna fyrirtækið var tilbúið að greiða miklu hærra en aðrir fyrir hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.

 

Fyrirtækið Geysir Green Energy í Reykjanesbæ átti nýverið hæsta tilboðið í 15,2% hlut Ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.  Þótti tilboðið tíðindum sæta þar sem það var nokkuð hærra en næst hæsta tilboðið. Geysir bauð 7,6 milljarða króna í hlutinn sem er þar með sá verðmætasti í eigu einkaaðila í orkufyrirtæki hér á landi.  Kaupsamningur milli Geysis og Ríkisins hefur verið undirritaður og hafa aðrir eigendur Hitaveitunnar forkaupsrétt á samningnum.
Menn ráku upp stór augu þegar  tilboðin voru opnuð og ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um þessi kaup.
Keflvíkingurinn Ásgeir Margeirsson er forstjóri Geysis . Hann þekkir orkuiðnaðinn vel, búinn að starfa á þeim vettvangi um árabil. Hann segir fyrirtækið fyrst og fremst vera að fjárfesta í verðmætri þekkingu með þessum kaupum. Þeirri þekkingu muni fyrirtækið byggja á í þeirri útrás sem nú þegar er hafin með verkefnum þess í ýmsum löndum.
Við spurðum Ásgeir m.a. nánar út í þessi kaup í HS: 

Áfram þörf fyrir meiri orku
Tal okkar berst fyrst að orkuiðnaðinum almennt og stöðu Hitaveitu Suðurnesja á þeim markaði. Um það segir Ásgeir:
„Orkufyrirtækin eru í eðli sínu hluti af innviðum samfélagsins. Það kaupir enginn orkufyrirtæki og fer eitthvað með það. Fyrirtækið er þar sem það er og því verður ekki breytt að fyrirtækið heldur áfram að þjóna sama markaði.
Allir eignaraðilar í orkufyrirtækjum þurfa að hafa að leiðarljósi að þjóna markaðnum og hafa tilhlýðilega arðsemi af rekstrinum. Til að viðhalda góðri stöðu Hitaveitu Suðurnesja inn í framtíðina þarf hún þá uppbyggingu sem felst í því að nýta þau sóknarfæri sem gefast samhliða því að reka veiturnar sem þegar eru til staðar. Ástæðan fyrir sterkri stöðu HS er sú að fyrirtækið er sjálft að virkja mestan hluta raforkunnar í stað þess að kaupa hana af öðrum, s.s. Landsvirkjun. Rafmagnið sem HS framleiðir er ódýrara en það sem unnt er að kaupa af öðrum og gerir það samkeppinsstöðu fyrirtækisins afar sterka. Til þess að halda þessari stöðu þarf Hitaveitan að halda áfram að virkja því samfélagið stækkar og orkuþörfin eykst. Það er engin endastöð í þeim efnum, aðeins spurning um hve hröð þróunin er hverju sinni.
Það er grundavallaratriði fyrir Hitaveituna að geta nýtt þá virkjunarkosti sem fyrir hendi eru á Reykjanesi, í Krýsuvík og Svartsengi bæði til að geta framleitt  rafmagn fyrir væntanlegt álver og til að framleiða fyrir almennan markað.  Mun hagkvæmara er að virkja í hæfilega stórum einingum heldur en að virkja og framleiða fyrir almenna markaðinn eingöngu. Orkan er dýrari ef byggð er 30 MW virkjun en ef byggð er 100 MW virkjun, svo dæmi sé tekið. Almenningur nýtur því hagkvæmni stærðarinnar í þessu. Þannig var t.d. ráðist í að virkja 100 MW á Reykjanesi en ekki bara 30 eða 50. Það er því stórt hagsmunamál fyrir íbúa Suðurnesja að álver verði byggt í Helguvík því það mun halda niðri orkuverði á svæðinu.

Samkeppnislögmálin gilda
Með tilkomu einkvæðingar orkufyrirtækjanna hafa margir lýst áhyggjum sínum yfir því að orkuverð kynni að hækka í kjölfarið þegar fjárfestar vilji fara að fá meiri arð af fjárfestingunni. Þessi áhyggjutónn hefur verið nokkuð áberandi í umræðunni ekki síst í ljósi þess hversu mikið hærra Geysir bauð en aðrir í hlut ríkisins í HS. Hvað vill Ásgeir segja um þá umræðu ?
„Rekstur hita- og vatnsveitna er eftirlitsskyldur. Gjaldskrár fara því alltaf í gegnum samþykktarferli og regluverk hjá ráðuneytunum. Menn geta því einfaldlega ekki keypt sér hitaveitu og skrúfað upp verðið.  Þetta gildir einnig um rafveiturekstur, þ.e. dreifikerfi raforkunnar.
Hvað raforkuna sjálfa varðar þá er um hana samkeppni á frjálsum markaði, skv. nýlegum breytingum á raforkulögum. Hver og einn notandi ræður því sjálfur af hvaða orkufyrirtæki hann kaupir rafmagn. Hækki orkufyrirtæki raforkuverð sitt getur notandinn einfaldlega snúið sér annað með sín viðskipti. Þarna gilda einfaldlega hin almennu samkeppnis- og markaðslögmál og það er ekkert eitt fyrirtæki sem breytir því,“ segir Ásgeir. 


Ætluðu menn að fá HS fyrir lítið?
En hver var ástæðan fyrir því að Geysir bauð svona miklu hærra en aðrir í hlut ríkisins í HS ?
„Ég svara þessu með annarri spurningu: Hver var ástæðan fyrir því að hinir buðu svona miklu lægra? Það hefur sýnt sig eftir að tilboðin voru opnuð að sumir virtust alveg eins hafa verið tilbúnir til greiða þetta verð. Ætluðu þessir aðilar  að reyna að fá Hitaveituna fyrir lítið? Mér finnst að sveitarfélögin verði að spyrja að því.
Ég held að munurinn liggi í því að aðrir voru að bjóða í Hitaveituna á því verði sem hún gæti verið metin á í dag. Ég held að þeir hafi ekki metið raunveruleg tækifæri Hitaveitunnar til framtíðar. Þess utan þá höfum við kannski ákveðið forskot, því þessi kaup eru ekki stór biti fyrir okkur að kyngja til langs tíma heldur upphafið að nýrri framtíð í útrásinni. Það mun nýtast okkur í fjárfestingum erlendis að geta bent á eignarhlut okkar í HS og þá þekkingu sem þar hefur byggst upp á liðnum árum. Við erum fyrst og fremst að fjárfesta í dýrmætri þekkingu og reynslu Hitaveitunnar og starfsmanna hennar. Ég tel að aðrir bjóðendur hafi ekki verið að meta hana á réttu verði þegar þeir buðu í umræddan hlut. Við erum með kaupunum að byggja okkur ákveðna undirstöðu. Hún er ekki eingöngu fólgin í því að flytja þekkinguna út því með verkefnum okkar í öðrum löndum mun einnig safnast þekking sem skilar sér til baka hingað heim og mun efla Hitaveituna.“

Heimurinn kallar á sérstöðu
Á meðal verkefna framundan hjá Geysi eru jarðboranir í Þýskalandi og Bandaríkjunum í samstarfi við aðra aðila. Ásgeir segir að með því að dreifa verkefnum erlendis sé fyrirtækið m.a. að dreifa áhættunni sem óneitanlega fylgir borunum eftir jarðhita. Ein borhola geti kostað allt að 200 milljónir og er fyrirfram alls ekki tryggt að hún skili tilætluðum árangri.  Það kemur í ljós eftir að borun og prófun holunnar lýkur hvernig verkið gekk. Þetta er áhætta sem Geysir er tilbúinn að taka því möguleikarnir í orkuiðnaði eru það miklir og útrásin þýðingarmesta tækifærið í því sambandi.
 „Við höfum mikla sérstöðu í orkumálunum sem heimurinn kallar á,  þ.e. þessi hreina orka og skynsamleg nýting auðlindanna. Orkuþörfin í heiminum fer stöðugt vaxandi og  það er stöðugt meira kallað á hreina orku. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir okkur með það forskot sem við höfum. Það kann enginn betur en við að samnýta raforku og hitaveitu með jarðhita en Svartsengi var fyrsta virkjunin í heiminum þar sem þetta var gert,“ segir Ásgeir.

Kolaveitum breytt í jarðvarmaveitur
Í þessu samhengi má nefna stórt hitaveituverkefni sem Geysir vinnur að í Kína ásamt Orkuveitu Reykjavíkur, Enex og kínverskum samstarfsaðilum ,en það felst í því að leggja af gamlar,  loftmengandi kolakyndistöðvar og reisa nýjar jarðvarmaveitur í borginni Xianyang. Ásgeir segir mikil tækifæri felast í þessu því víða sé jarðvarma að finna sem hægt er að nýta, hins vegar vanti víðast hvar bæði þekkingu og fjármagn.
Verkefnið í Kína er í dag svipað stórt og verið væri að hita upp Hveragerði, svo notuð sé einhver viðmiðun. Að sögn Ásgeirs mun veitan fara ört stækkandi á næstu árum og fleiri borgarhlutar bætast við. Um næstu áramót verður verkefnið svipað stórt og verið væri að hita upp Reykjanesbæ, svo við höldum okkur áfram við slíkar viðmiðanir. Eftir 4-5 ár verður það svipað og verið væri að hita upp allt Reykjavíkursvæðið. Frekari stækkun þýðir svo að um verður að ræða stærstu jarðhitaveitu í heimi, en sú stærsta er í dag á Reykjavíkursvæðinu.
Verkefnin eru mismunandi í hverju landi. Í Bandaríkjunum snúast flest verkefnin um  raforkuvinnslu á háhitasvæðum og í Þýskalandi er unnið að verkefnum á lághitasvæðum þar sem u.þ.b. 150 gráðu heitt vatn er notað bæði til raforkuframleiðslu og hitaveitu. Þá er Geysir stærsti hluthafinn í fyrirtækinu Enex sem vinnur m.a. að jarðhitaverkefnum í Bandríkjunum, Þýskalandi og í Slóvakíu. Aðrir stærstu eigendur Enex eru Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og Atorka.

Þurfum að nýta orkuauðlindirnar af skynsemi
Það eru ýmsar aðferðir til  að beisla orkuna og maður sér ýmsar útgáfur af því erlendis svo sem vindmyllur og sólarrafhlöður. En það er ekki alltaf rok eða sól og því eru þessir kostir ekki öruggir. Hér heima höfum við eingöngu nýtt okkur vatnsafl og jarðhita til að framleiða orku og þekkjum vart annað. Hvað sem öllum þrætum líður um ágæti virkjana og áhrif þeirra á umhverfi, segir Ásgeir  þessa tvo kosti betri en aðra sem mörgum öðrum þjóðum stendur til boða. Þeir séu öruggari, ódýrari og umhverfisvænni.
„En vissulega eigum við að nýta þessa kosti skynsamlega og fara vel með þá. Við eigum alls ekki að bora hvar sem er eða byggja stíflu hvar sem er. Um þetta eigum við að taka upplýstar og ígrundaðar ákvarðanir. Við megum samt ekki vera of stíf eða fanatísk í þessum málum. Ef t.d. reglur dagsins í dag hefði verið á sínum tíma þegar virkjunin í Svartsengi var byggð hefði Bláa lónið aldrei orðið til. Í dag væri ekki leyft að sleppa jarðhitavatninu út í hraunið.
Auðvitað eigum við að búa þannig um hnútana  að sjónræn og umhverfisleg mengun sé sem minnst og hlutirnar eru að þróast í þá átt. Kröfurnar eru mun meiri en áður.“

Keflvíkingur á heimaslóðum
Að lokum, hver er Ásgeir Margeirsson?
„Ég er fæddur í Keflavík 1961, alinn upp á Hólabrautinni. Gekk í barnaskóla sem nú heitir Myllubakkaskóli, gekk í gagnfræðaskóla og þaðan lá leiðin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þaðan sem ég lauk stúdentsprófi 1980. Þá tók við verkfræðinám í Háskóla Íslands þaðan sem ég útskrifaðist 1985. Hélt þá til Svíðþjóðar í framhaldsnám í verkfræði og lauk prófi 1989. Flutti þá aftur heim og settist að í Hafnarfirði þar sem ég bý með eiginkonu og þremur börnum. Áhugamálin snúast fyrst og fremst um hestamennsku en það er sameiginlegt tómstundagaman fjölskyldunnar ef frá er talinn elsti sonurinn. Frítíminn fer mest í þetta. Þannig að þrír meginþættirnir í mínu lífi er fjölskyldan, vinnan og hestarnir.
Mér finnst frábært að vera kominn til starfa hér á heimaslóðum og fá tækifæri til að taka þátt í atvinnulífinu og uppbyggingu hér á svæðinu. Geysir Green Energy kemur m.a. að háskólanum Keili sem við höfum mikla trú á. Það er gaman að sjá þá uppbyggingu og þann drifkraft sem nú einkennir svæðið. Mér fannst um tíma ríkja stöðnun hér og afturför í útgerð og fiskvinnslu. Það var eins og ekkert kæmi í staðinn. Nú sér maður miklar breytingar, byggðina stækka og allt mannlíf og athafnalíf eflast.
Núna eru hjólin greinilega að snúast og þar vissulega gaman að sjá hvernig málin hafa þróast síðustu ár.“













Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024