Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fiskmarkaður Suðurnesja: Sóknarfæri í aukinni þjónustu á tímum aflasamdráttar
Miðvikudagur 26. desember 2007 kl. 14:35

Fiskmarkaður Suðurnesja: Sóknarfæri í aukinni þjónustu á tímum aflasamdráttar

Fiskmarkaður Suðurnesja (FMS)  á 20 ára afmæli á þessu ári en hann var stofnaður vorið 1987 og fór fyrsta uppboðið fram þann 14. september það sama ár.  Óhætt er að segja að FMS hafi vaxið fiskur um hrygg í áranna rás því hann er í dag með 5 starfsstöðvar og um 30 manns í vinnu. Höfuðstöðvarnar eru í Sandgerði og aðrar starfstöðvar í Grindavík, Höfn, Ísafirði og Hafnarfirði. Þá á FMS helmingshlut í Fiskmarkaði Siglufjarðar, 53% hlut í Reiknistofu fiskmarkaða og 24,5% eignarhlut í Umbúðamiðlun. Síðustu 4 – 5 árin hefur FMS verið að selja í kring um 20 þúsund tonn ári, þannig að umsvifin eru all nokkur.

Breytingar og framfarir
Það hefur margt breyst á þessum 20 árum. Fiskmarkaðir hafa sameinast og rekstur þjappast saman eins og í öðrum fyrirtækjarekstri á Íslandi undanfarin ár. Upp úr 1999 voru starfræktar tvær reiknistofur á landinu fyrir sitthvora „fiskmarkaðsblokkina“. Síðar var ákveðið að sameina þær í eina stofu og nýta þá tækni sem byggst hafði upp hjá Fiskmarkaði Suðurnesja. Það er sú grunntækni sem notuð er í dag í Reiknistofu fiskmarkaða. sem sér um uppboð fyrir alla fiskmarkaðina í landinu.  FMS er í rauninni brautryðjandi á þessu sviði.
„Nýjustu framfarirnar eru þær að nú erum að af fara bjóða upp á flokkun aflans, bæði hér í Sandgerði og Grindavík. Við vonast til að með því megi fá hærra verð fyrir umbjóðendur okkar, sérstaklega í ýsu og þorski,“ segir Ragnar.

Aukin erlend viðskipti
„Það má segja að í upphafi hafi FMS stigið mjög gæfuleg skref í uppbyggingu á því tölukerfi sem notað er enn í dag.  Þó sumur finnist kerfið kannski vera orðið svolítið gamaldags þá er búið að byggja það upp í samvinnu við aðra eignaraðila að Reiknistofunni og það virkar mjög vel í dag. Núna fara viðskiptin fram í gegnum Netið og menn geta þess vegna verð staddir erlendis að kaupa fisk á íslenskum fiskmarkaði,“ segir Ragnar H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri FMS.
Að sögn Ragnars hafa viðskipi erlendis frá færst nokkuð í aukana undanfarna mánuði. „Menn eru þá að kaupa hér fisk og flytja út í gámum eða láta einhverja hér heima vinna fiskinn fyrir sig og koma honum í flug. Ég tel að þrátt fyrir samdrátt á næsta ári verði meiri eftirspurn erlendis frá sem þá vonandi hækkar það verð sem umbjóðendur okkar fá fyrir þann fisk sem þeir setja í sölu hjá okkur,“ segir Ragnar. Að hans sögn eru erlendu kaupendurnir aðallega frá Hull og Grimsby, Belgíu og Danmörku en Danirnir nota Norrænu til að flytja fyrir sig fiskinn.

Sjá aldrei framan í kaupendur
Kaup og sala á fiskmarkaðnum fór fram í gegnum fjarskipti þannig að bátasjómenn hringdu í fiskmarkaðinn og gáfu upp tölur yfir það sem þær kæmu með í land. Aflinn var seldur óséður á markaðnum áður en í land var komið. Þannig hefur það verið allar götur síðan nema að nú fara kaupin fram í gegnum tölvu í stað þess að kaupendur komi saman í uppboðssal eins og áður var. Með aukinni tækni sjá starfsmenn FMS því sjaldan eða aldrei framan í kaupendur og segir Ragnar sjónarsviptir af því.
„Áður fyrr komu menn á markaðinn, stöldruðu við, fengu sér kaffisopa og skiptust á fréttum. Það er vissulega leiðinlegt að þessi samkiptaþáttur hafi dottið út en það hins vegar sparar mönnum mikinn tíma að geta gert sín kaup í gegnum tölvuna frá sínum vinnustað. Þetta eru oft á tíðum menn í smáum rekstri, eru kannski sjálfir á kafi í vinnslunni og því er vont að þurfa jafnvel að aka langar leiðir á markaðinn,“ segir Ragnar.

Sóknarfæri í aukinni þjónustu
FMS hefur á undanförnum árið verið að selja á bilinu 20 – 22 þúsund tonn á ári og hefur um 20% markaðshlutdeild. Nú er fyrirséð að talsverður aflasamdráttur er framundan í kjölfar aðgerða ríksisvaldsins.
„Það er erfitt að ráða í framtíðina í þessu og sjálfsagt þurfum við að hugsa ýmislegt upp á nýtt eins og flestallir í þessari grein. Við höfum í raun ekkert öruggt í hendi frá degi til dags frekar en skipstjórinn sem fer til sjós til að veiða.
Það hefur hjálpað okkur hjá FMS undanfarin ár að við höfum samhliða því að selja fisk rekið öfluga þjónustu á bryggjunum á þeim stöðum þar sem við erum með starfsemi. Tekjur okkur hafa verið að aukast í þessum hluta og við vonumst til að geta aukið þær enn frekar í framtíðinni með öflugari þjónustu jafnframt því að auka tekjur þeirra sem vilja selja hjá okkur fisk,“ segir Ragnar.

Miklar breytingar framundan
Aðspurður um hljóðið í sjómönnum í kjölfar kvótaskerðingarnar segir Ragnar það vera missjafnt. Menn séu margir  ekki sáttir við hana því þeir séu sannfærðir um að meiri fiskur sé í sjónum heldur en vísindamennirnar haldi fram.
„Ef horfum á 20 ára sögu fiskmarkaðanna þá hafa þeir leitt af sér ýmir nýmæli í veiðum. Áður fyrr var t.d. ekki verkuð Keila á landinu nema að litlu leyti. Fiskmarkaðarnir ýttu undir verkun og nýtingu á ýmsum öðru fisktegundum en þeim hefðbundnu. Ég er að vonast til þess og sé að margir eru að reyna að sérhæfa sig og taka þann fisk til verkunnar sem hægt er að ná í.
Svona mikil breyting kallar á hagræðingu þannig að það er nokkuð ljóst að einhverjir munu detta út og hætta, aðrir sameinast og svo framvegis. Þetta er eitthvað sem á eftir að koma í ljós næsta ári og þarnæsta.“

Fiskurinn gengur norðar
Í kjölfar aflaskerðingarnar hafa sjómenn reynt að sækja meira í aðrar tegundir, a.m.k. þeir kvótaminni, og hafa þá þorskinn sem meðafla. Þá hafa menn aukið sóknina í ýsu þar sem kvótinn var aukin var aukinn í henni. En það gefur auga leið að það hlýtur að vera erfitt að ætla sér að draga eina tegund en ekki aðra upp úr sjó.
„Menn reyna að komast hjá því að draga þorsk úr sjó. Þar af leiðandi eru menn komnir upp í harða fjöru þar sem ýsan heldur sig og eru þar  af leiðandi að fá smærri þorsk með í aflann. Þá segja snillingarnir inn í Hafró að þorskurinn sé sífellt að verða smærri þannig að þetta passar nú ekki alltaf alveg saman. Þannig að menn eru ekki á eitt sáttir með þessi vísindi. Stundum fer fiskurinn hreinlega eitthvað annað. Við höfum orðið varir við það að með hlýnun sjávar hefur fiskurinn gengið norður fyrir land.
Við tókum þátt í því fyrir tveimur árum að stofna fiskmarkað á Siglufirði. Þar hafa verið seld hátt í 4 þúsund tonn á hverju ári síðustu tvö árin, sem er vegna þess að bátarnir héðan hafa verið að sækja í fiskgengdina norður af landinu,“ segir Ragnar.


Mynd: Ragnar H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri FMS.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024