Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fiskmarkaðir skipta miklu í hraðri þróun fiskvinnslu
Ragnar Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdarstjóri FMS. VF-myndir: Hilmar Bragi
Mánudagur 22. febrúar 2016 kl. 07:11

Fiskmarkaðir skipta miklu í hraðri þróun fiskvinnslu

- Sérhæfing í fiskvinnslu fiskmörkuðum að þakka

Fiskmarkaður Suðurnesja [FMS] er elsti fiskmarkaður landsins og fagnar 30 ára afmæli á næsta ári. FMS er með starfsstöðvar í Grindavík, Hafnarfirði, Höfn, Ísafirði og Sandgerði en þar eru einnig aðalskrifstofur fyrirtækisins. Á starfsstöðvum fyrirtækisins á Suðurnesjum eru tólf starfsmenn og tveir á aðalskrifstofunni.

Uppruni Fiskmarkaðs Suðurnesja er í atvinnumálanefnd Keflavíkur. Þar komu að máli menn eins og Logi Þormóðsson, Grétar Mar Jónsson, Þorsteinn Erlingsson og fleiri. Síðan komu að þessu nær allir útgerðarmenn á Suðurnesjum þannig að Fiskmarkaður Suðurnesja er stofnaður af mjög miklum fjölda hluthafa og að honum koma margir litlir hluthafar. Farið var af stað með Fiskmarkað Suðurnesja 1987 en hugmyndin hér suður með sjó var að fara allt aðra leið en hafði verið farin í Reykjavík og Hafnarfirði, þ.e. að vera með fjarskiptauppboð, þannig að fiskurinn væri seldur á sjó í gegnum fjarskipti og að kaupendur þyrftu svo bara að mæta á hafnirnar til að taka á móti þeim fiski sem þeim keyptu.
„Þetta var byltingarkennd hugmynd sem ekki hafði verið reynd áður og þekktist ekki einu sinni í Evrópu, þar sem menn voru bara vanir uppboði inni á gólfi,“ segir Ragnar Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdarstjóri FMS, í samtali við Víkurfréttir.



Þessir menn riðu á vaðið og síðan voru ráðnir fyrstu starfsmennirnir til Fiskmarkaðs Suðurnesja. Brynjar Vilmundarson var fyrsti uppboðshaldarinn og starfsemin byrjaði í litlu húsnæði í Njarðvík. Fljótlega var Ólafur Þór Jóhannesson ráðinn sem framkvæmdastjóri en Logi Þormóðsson var stjórnarformaður.
Ragnar segir að aðalatriðið til að láta þetta allt verða að veruleika væri að vera með bankaábyrgðir. Í upphafi gekk illa að fá bankana til að gangast undir þá hugmynd. Það gekk þó að lokum og flestar bankaábyrgðir á Suðurnesjum voru hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Svo breiddist þetta út í alla bankana því allir voru komnir með ábyrgðir á öllum mörkuðum því kaupendur þurftu að hafa ábyrgð til að geta keypt, sem var trygging útgerðarmanna sem seljendur fisksins.

Fiskmarkaður Suðurnesja opnaði tækifæri

Með tilkomu Fiskmarkaðs Suðurnesja opnuðust mikil tækifæri m.a. tengd flugi. Menn sáu tækifæri í því að selja ýsu ferska með flugi og fá hærra verð. Þá opnaði fiskmarkaðurinn einnig markaði fyrir allar aukategundirnar sem komu með þorskinum.

Fyrsta uppboðið hjá Fiskmarkaði Suðurnesja var 15. september 1987 og menn sáu það fljótlega að til að þjónusta allan þennan flota sem var að eiga viðskipti við markaðinn þyrfti að vera með lyftara og húsnæði á hverjum stað. Farið var í þá uppbyggingu, fyrst í Sandgerði, svo í Grindavík. Aðstaða FMS var færð úr Njarðvík yfir í Keflavík um tíma en svo aftur til Njarðvíkur.



Ragnar segir frumkvöðlana hjá Fiskmarkaði Suðurnesja hafa verið hugaða. Þegar ráðist var í gerð tölvukerfis var verkfræðistofa í Reykjavík fengin til að búa til kerfi sem hét Tengill. „Logi og Ólafur voru forsjálir og réðu drenginn frá verkfræðistofunni, Ingvar Guðjónsson, í vinnu sem framkvæmdastjóra Reiknistofu fiskmarkaða og festu hann hér suðurfrá. Ingvar er klár tölvumaður og þróaði Tengil með starfsmönnum Fiskmarkaðs Suðurnesja. Á þessum tíma voru þetta orðnar tvær blokkir, Reiknistofa fiskmarkaða annars vegar og svo Tölvukerfi Íslandsmarkaðar sem sá um sína markaði víða um land. Árið 2000 var þetta orðið dýrt kerfi fyrir kaupendur varðandi ábyrgðir á fleiri en einum stað. Þá var tölvukerfi Íslandsmarkaðar ekki nógu sterkt og úr varð að reiknistofurnar voru sameinaðar undir því sem í dag heitir Reiknistofa fiskmarkaða og heldur utan um öll uppboð fiskmarkaða á Íslandi.

Þegar Fiskmarkaður Suðurnesja varð til þá var mikill netabátafloti á Suðurnesjum og einnig mikið um minni línubáta. Menn voru helst að eltast við þorsk fyrir saltfiskverkanir. Menn voru farnir að sýna ýsunni meiri áhuga vegna þess að henni var flogið ferskri á markaði erlendis. Allar aukategundirnar voru hins vegar að flækjast fyrir mönnum en með markaðnum gafst mönnum tækifæri á aukinni sérhæfingu í ákveðnum tegundum, eins og ufsa eða keilu.

Ragnar segir að á fyrstu árum fiskmarkaðanna hafi orðið til fleiri möguleikar fyrir fiskverkanir. Margar verkanir bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum hafi verið í viðskiptum við fiskmarkaðinn frá upphafi og aldrei staðið í útgerð. Þróun í fiskvinnslu hafi verið hröð á Íslandi og fiskmarkaðir hjálpað mikið til á þeim vettvangi.



Fiskverkanir spruttu upp

„Fiskmarkaðarnir hafa aukið verulega verðmæti fyrir útgerðirnar í aukategundum og gert það að verkum að allar þær verkanir sem spruttu upp sem ekki áttu báta og kvóta, gátu sérhæft sig. Með tilkomu fiskmarkaða varð til fjöldi fiskverkana sem sérhæfðu sig í ákveðnum tegundum. Þá opnaði þetta nýjan heim fyrir þá sem reka fiskbúðir sem gátu keypt hráefni á mörkuðum í stað þess að mæta fyrir allar aldir á bryggjurnar. Með fiskmörkuðum höfðu fleiri aðgang að hráefni og verð hækkaði til útgerðarmanna.“ segir Ragnar.

Á fyrstu árum fiskmarkaða mættu menn á ákveðna sölustaði með númeruð spjöld. Starfsmenn fiskmarkaðanna þuldu þá upp miklar tölur og oft í langan tíma. Talið var upp þar til einn maður var eftir og þá fékk hann þann fisk sem boðinn var hverju sinni. Svona var þetta til ársins 2004. Þá fóru menn að kynna sér nýjustu tækni og uppboðsklukku sem yrði aðgengileg á netinu, þannig að menn gætu setið við tölvuna í stað þess að mæta á markaðinn sjálfan. Kerfið sem notað er kemur frá Belgíu. Kaupendur tengjast því á netinu og það virkar fullkomlega, því símkerfið á Íslandi er sagt vera einstakt. Kerfið var tekið í notkun á  kvennafrídaginn 2004 og hefur að sögn Ragnars varla klikkað síðan.

Með nýja kerfinu þurftu kaupendur ekki lengur að koma á markaðinn, heldur gátu þeir setið á sinni skrifstofu og keypt þann fisk sem þeir þurftu. Ragnar segir að það sé mjög gott en það sé hins vegar eftirsjá í því að hitta ekki kaupendur lengur og hafa bara samskipti við þá um síma eða tölvupóst. Kosturinn fyrir kaupendur er hins vegar sá að það skiptir ekki máli hvar þeir eru staddir í heiminum, ef þeir eru nettengdir þá geta þeir keypt á markaði ef þeir eru með bankaábyrgð fyrir viðskiptum sínum.



Minna framboð af þorski

Fiskmarkaðirnir á Íslandi eru að selja frá 92.000 til 108.000 tonn af fiski sem er um 25% af bolfiski sem er í boði hverju sinni. Síðustu þrjú fiskveiðiár hefur úthlutun á þorski verið að aukast en framboðið á þorski hefur hins vegar minnkað um 1% á ári á fiskmörkuðum. Ragnar segir skýringuna á því bæði vera ákveðna samþöppun í kerfinu en það sem hafi mest áhrif séu stjórnvaldsaðgerðir í svokölluðum byggðakvótum sem ekki mega fara í gegnum fiskmarkað. Þegar 100 tonna byggðakvóta er úthlutað þá verða menn að veiða hann og selja á föstu verði inn í verkun og leggja jafnframt 100 tonn á móti. „Við segjum að þá fari 200 tonn út af fiskmarkaðnum,“ segir Ragnar.

Viðskiptavinir fiskmarkaða eru allt frá minnstu bátum og upp í stærstu togara. Stóru útgerðirnar eru að setja allan þann fisk sem þær ekki nýta sjálfar til vinnslu inn á fiskmarkað. Litlu útgerðirnar selja mjög mikið á Fiskmarkaði Suðurnesja og strandveiðiflotinn meira og minna allur.

Ragnar segist vilja sjá stjórnvaldið horfa til þess hvað þeir sjá fiskmarkaði í framtíðinni. Hvar á fiskmarkaðurinn að vera eftir 15 ár en ekki horfa bara á þetta frá degi til dags. Í dag eru þrettán fiskmarkaðir á 28 stöðum á landinu. Þessir markaðir skapa hundruði starfa og afleiðslustörf m.a. í flutningum og þjónustu. „Fiskmarkaðirnir skipta ekki bara máli fyrir stóru staðina hér á Suðurnesjum, heldur líka litlu staðina úti á landsbyggðinni“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024