Einkasjúkrahúsið: Gríðarlegur ábati fyrir ríkið
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) hefur í samstarfi við Iceland Healthcare ákveðið að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á sjúkrahúsinu að Ásbrú, í Reykjanesbæ. Á sjúkrahúsinu verða þrjár skurðstofur og 35 legurými, þar sem boðið verður upp á sérhæfðar meðferðir fyrir útlendinga. Allt að 300 störf munu skapast í tengslum við starfsemina. Aðkoma Kadeco sem ríkisfyrirtækis að verkefninu og kostnaður við það hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu og á meðal ráðamanna. Þar hefur verið kastað fram spurningum sem Víkurfréttir ákváðu að leita svara við. Fyrir svörum varð Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.
- Þessar hugmyndir um uppbyggingu spítalans, eru þær nýtilkomnar?
„Allt frá lokum árs 2006 hefur verið unnið að stefnumótun er varðar uppbyggingu á fyrrum varnarsvæðinu sem nú ber heitið Ásbrú. Sú stefnumótun byggir í fyrstu á uppbyggingu tveggja atvinnuklasa auk tækifæra tengdum samgöngum vegna miðlægrar staðsetningar á heimskortinu. Þessir atvinnuklasar taka mið af styrkleikum og samkeppnishæfni Íslands og Reykjaness þá sérstaklega. Þessir tveir klasar eru heilsuklasi, svonefnt heilsuþorp, og orkuklasi á Ásbrú“.
100 milljónir frá Kadeco
- Er rétt að Þróunarfélagið sé sjálft að setja um 1 milljarð í þetta verkefni?
„Nei, það er alrangt og virðist einhvern veginn hafa smitast inn í umræðuna og enginn skilur hvaðan það kom. Þróunarfélagið er aðeins að setja 100 milljónir í peningum í þetta verkefni auk fasteignar sem er lítils virði í dag og reyndar miklu frekar neikvætt virði. Það má geta þess að óumflýjanleg útgjöld ríkisins vegna spítalans væru 60 milljónir á þessu ári. Þau útgjöld eru í tengslum við almennan rekstur húsnæðisins og rafmagnsbreytingar sem lagaleg skylda er að framkvæma fyrir októberlok. Því fjármagni má að mati félagsins betur verja með þeim hætti að Kadeco leggi 100 milljónir sem hlutafé í nýtt félag, Seltún, sem mun eiga og endurbæta spítalann og leigja hann út. Því má miklu frekar segja að peningalegt framlag Kadeco sé 40 milljónir nettó. Þá eru þessar 100 milljónir ekki útgjöld heldur fjárfesting sem mun skila sér til baka. Til viðbótar þeirri fjárfestingu er áætlað að aðrir sterkir fagfjárfestar, s.s. Eignarhaldsfélag Suðurnesja, komi sameiginlega með um 100 milljónir. Það er hins vegar þannig að Seltún mun standa fyrir framkvæmdum og er heildarendurbótakostnaður áætlaður um 900 milljónir sem deilist niður á 3 ár. Fyrsti áfangi þeirrar framkvæmdar er áætlaður um 600 milljónir og unninn á fyrsta ári. Hluti af þeirri framkvæmd verður fjármagnaður með lánum sem Seltún tekur og er heildarlántökuþörf þess félags því áætluð um 700 milljónir sem deilist niður á þessi 3 ár“.
- Hvers vegna eru rekstraraðilarnir ekki sjálfir að sjá um þessa framkvæmd?
„Kaup á fasteigninni var vissulega kostur sem við buðum þeim í upphafi en áhugi á slíku var ekki til staðar. Ástæðan var sú að líkt og þróunin hefur verið bæði hér á landi og erlendis á undanförnum árum hefur það færst í aukana að rekstrarfélög einbeiti sér að sínum kjarnarekstri og láti aðra um þá þætti sem þeir eru sérhæfðir í þ.m.t. fasteignarekstur. Fyrir þessa aðila stóð valið um að byggja upp á Suðurnesjum eða láta innrétta fyrir sig skurðstofur á höfuðborgarsvæðinu eða jafnvel í Noregi. Sem betur fer náðum við að sannfæra þá um að Suðurnesin væru besti kosturinn og hér væru tækifærin meiri til að byggja upp innan heilsuþorpsins á Ásbrú í nálægð við flugvöllinn og fleiri þætti. Þannig að það kom í raun aldrei til greina að þeir færu sjálfir beint í fasteignarekstur. Sú staðreynd að leigjandinn hefur tryggt sér fulla fjármögnun rekstrarins er að okkar dómi merki um það að virði þess að leigja honum eignina, með hagstæðum og góðum leigusamningi fyrir Kadeco, er mun meira heldur en að selja hana á þessum tímapunkti. Enda var fjármögnun verkefnisins af þeirra hálfu forsenda þess að við færum í framkvæmdir.
Í sumum tilfellum er um það að ræða að aðilar hafi keypt eignir beint af Kadeco og annast endurbætur en í öðrum tilfellum hefur Kadeco séð um endurbætur og leigt út eignir. Kadeco hefur endurbætt og leigt út eignir í auknum mæli að undanförnu í ljósi þess að fasteignamarkaður hefur verið nær algerlega frosinn frá fjármálahruninu 2008. Hann var þó farinn að kólna mikið fyrir stærri eignir í ársbyrjun 2008 þar sem fjármagnsmarkaðir voru frá þeim tímapunkti orðnir nær lokaðir fyrir stærri fjárfestingar. Til að þróun á svæðinu myndi ekki stöðvast var farin sú leið í auknum mæli að Kadeco þróaði og endurbætti eignir lengra en áður hafði verið gert. Með því er verið að auka verðmæti eigna m.t.t. endurbóta og þeirrar fjárfestingar sem lögð er í eignina auk þess sem verðgildi annarra eigna á svæðinu er að aukast mikið með aukinni starfsemi. Þá mun áframhaldandi þróun leiða til sölu á öðrum eignum í tengslum við sjúkrahúsið s.s. blokkir til meðferða o.fl. Sem dæmi má nefna að ein blokk er að verðmæti um 200 milljónir þannig að þessi 100 milljón króna fjárfestingin kemur margfalt og fljótt til baka“.
Margfaldar verðgildi sitt
- Hvað er ríkið að fá út úr þessu?
„Íslenska ríkið er að fá gríðarlegan ábata út úr þessu verkefni. Auk leigugreiðslna þá er í fyrsta lagi verkefnið að margfalda verðgildi annarra eigna ríkissjóðs á svæðinu sem tengjast uppbyggingu heilsuklasa á Ásbrú. Þær eignir komast þá í leigu og sölu og skila þar af leiðandi tekjum til ríkissjóðs sem annars hefðu ekki komið til. Í öðru lagi munu 300 störf skila beinum skatttekjum til hins opinbera af launum þessara 300 starfsmanna sem nema um 300 milljónum í sjálfbærar tekjur á hverju ári. Því verða sjálfbærar árlegar tekur hins opinbera hærri en bein fjárfesting Þróunarfélagsins í þessu verkefni. Þær tekjur má síðan nýta t.d. í rekstur heilbrigðiskerfisins. Þar að auki muni alls kyns óbeinar tekjur skila sér til ríkisins út frá afleiddum þáttum. Í þriðja lagi þá mun sú aðgerð að fækka atvinnulausum um 300 manns spara um 500 milljónir króna á ári í atvinnuleysisbætur. Atvinnuleysi er nú þegar hlutafallslega mest á Suðurnesjum,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar í samtali við Víkurfréttir.