Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Eðlilegt útlit brjósta
Snyrtifræðingurinn Birna Lára Þórarinsdóttir, eigandi snyrtistofunnar Carisma á Hafnargötu. VF/SDD
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 12. október 2024 kl. 06:07

Eðlilegt útlit brjósta

Algengt að konur fái sér förðunartattoo, segir Birna Lára Þórarinsdóttir, snyrtifræðingur.

„Tattoo-meðferðir eftir krabbameinsaðgerðir og -meðferðir eru að verða algengari og algengari, sérstaklega eftir að Sjúkratryggingar Íslands hófu að endurgreiða hluta kostnaðar við tattoo á geirvörtu og vörtubaug eftir brjóstakrabbameinsaðgerð,“ segir snyrtifræðingurinn Birna Lára Þórarinsdóttir, eigandi snyrtistofunnar Carisma á Hafnargötu. Birna hefur verið lengi í snyrtibransanum, fagnar tuttugu ára útskriftarafmæli í desember og nýlega bætti hún við kunnáttu sína, fyrst með tattoo-um á augabrúnir, augnlok og varir og þar sem hún stóð sig svo vel í því námi, vildi kennarinn að hún bætti við sig geirvörtu- og vörtubaugahúðflúrum.

Birna byrjaði á að læra að gera svokölluð förðunartattoo en þau eru að sjálfsögðu líka fyrir þá sem ganga í gegnum krabbameinsmeðferð með geisla, því algengt er að sjúklingurinn missi allt hár við slíka meðferð.

„Ég lærði að gera förðunartattoo fyrir tveimur árum en þau henta bæði þeim sem vilja bæta útlit sitt en ekki síður þeim sem hafa lent í hárlosi eftir krabbameinsmeðferð. Það er alltaf að verða algengara að karlmenn fái sér líka tattoo á augabrúnir en hér áður fyrr þótti það eflaust ekki mjög karlmannlegt, menn vildu frekar vera nauðasköllóttir en karlmenn, þá sérstaklega þeir yngri, eru mun meðvitaðri um útlit sitt í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svona tattoo-augabrúnir og á augnlok hafa lengi verið vinsælar á meðal kvenna og það er hið besta mál að mínu mati, tala nú ekki um þegar konan missir allt hárið. Að setja tattoo á augabrúnir og augnlok nær að gera útlitið nánast eðlilegt að nýju. Það er ekki sama hvernig það er gert, t.d. hvaða litur er settur í tattooið, það er hægt að hafa litinn of dökkan og þá verður útlitið gervilegt en þetta er hluti af starfi snyrtifræðingsins, að vega og meta hvaða leið skuli farin.

Geirvörtu- og vörtubauga-tattoo

Ég lærði að gera svona tattoo í september árið 2022, á ensku kallast það permanent make-up (varanleg förðun). Í fyrra hafði svo kennarinn samband við mig og vildi fá sína bestu nemendur til að læra að gera geirvörtu- og vörtubauga-tattoo því á þeim tíma voru Sjúkratryggingar Íslands farnar að niðurgreiða kostnaðinn við slík tattoo. Það kostar 68þús að gera tattoo á eitt brjóst og niðurgreiðslan nemur 30 þúsund krónum, ég á von á því að áður en langt um líður muni svona aðgerð verða niðurgreidd að fullu. Það skiptir þann sem vill hugsa um útlit sitt mjög miklu máli að líta ekki öðruvísi út, t.d. fyrir konu sem fer í sund eftir brjóstnámsaðgerð, með því að fara í svona tattoo-aðgerð á brjósti þá sést enginn munur og viðkomandi hefur ekkert að fela. Eins fyrir transmenn sem er fæddir í kvenmannslíkama og hafa farið í gegnum svokallaða toppaðgerð þar sem kvenbrjóstin eru fjarlægð og geirvartan líka.  Svo eftir tattoo-meðferð er varla hægt að sjá að brjóstið hafi verið konubrjóst.

Það er mjög algengt að konur fái sér förðunartattoo, sérstaklega á augabrúnir en líka á augnlok. Sá sem er ljóshærður eða rauðhærður er kannski með þannig augabrúnir að þær sjást ekki og því er algengt að viðkomandi fái sér tattoo á augabrúnir og þ.a.l. minnkar förðunarvinnan talsvert þann morguninn.“

Slæm áhrif samfélagsmiðla

Birna hefur unnið í snyrtifræðibransanum í næstum tuttugu ár. Á stofunni eru gerðar allar helstu snyrtimeðferðir, t.d. litun og plokkun, andlitsmeðferð, fótsnyrtingar og vax. Á ferlinum hefur Birna orðið vitni að ýmsu, m.a. þurfti hún að banna móður að setja gervineglur á átta ára gamla dóttur sína. Hún framkvæmir ekki förðunaraðgerðir á yngri konum en átján ára og hefur áhyggjur af áhrifum samfélagsmiðla á ungt fólk.

„Það kemur mjög oft fyrir að ég neita ungum konum um förðunaraðgerðir en ung kona á að mínu mati ekki að spá í slíkt fyrr en átján ára sjálfræðisaldri er náð. Stelpur og ungar konur eru að taka út þroska og á meðan það ferli er í gangi er glapræði að mínu mati að eiga varanlega við útlit sitt. Maður sér hve slæm áhrif samfélagsmiðlar hafa í dag en þar eru sýnd myndbönd af ungum konum sem einhverjum finnst líta fullkomlega út en þegar betur er að gáð, er ekki allt sem sýnist. Að fara í fegurðaraðgerð þegar t.d. sprautað er fyllingu í varir, er mjög slæm þróun að mínu mati en þó eru sumar slíkar aðgerðir af hinu góða því viðkomandi er þannig fædd að varir hennar sjást varla. Það er mikill munur á því að vera ekki með varir og vilja fara í aðgerð til að líta eðlilega út, eða bæta þannig í varir sínar að manneskjan lítur út eins og önd. Eins og með brjóstastækkanir, ég sem kona get mjög vel skilið konu sem er flatbrjósta, að vilja fara í brjóstastækkun en kona sem er með eðlileg brjóst sem vill hafa stærri brjóst, er ekki sniðugt að mínu mati.

Ég er hins vegar ekki í slíku, það þarf að leita til lýtalæknis ef viðkomandi vill fara í slíka aðgerð en ég býð öllum upp á að geta bætt útlit sitt og síðast en ekki síst, gert útlit sitt eðlilegt eftir krabbameinsaðgerð eða -meðferð. Október er bleikur mánuður, mánuðurinn er árlegur í árvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagsins, tileinkaður baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Ég vil vekja athygli kvenna og auðvitað karla líka, á hvað hægt er að gera að lokinni krabbameinsaðgerð og - meðferð, ég hef náð að hjálpa mjög mörgum og það veitir mér svo mikla ánægju og vellíðan. Ég hvet alla til að kíkja á mig og fræðast betur um hvað málið snýst, hægt er að hafa samband við okkur á facebook síðu stofunnar, Carisma snyrtistofa Reykjanesbær,“ sagði Birna Lára að lokum.