Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Draumurinn er að byggja upp á sérfræðingum úr heimahéraði
Fimmtudagur 16. febrúar 2012 kl. 10:26

Draumurinn er að byggja upp á sérfræðingum úr heimahéraði



Alþjóðlega fyrirtækið Verne Global sem opnaði í sl. viku eitt fullkomnasta gagnaver heims að Ásbrú í Reykjanesbæ, hefur tilkynnt að það hefur valið Opin kerfi sem samstarfs- og þjónustuaðila til stuðnings við starfsemi sína hér á landi. Suðurnesjamaðurinn Gunnar Guðjónsson er forstjóri Opinna kerfa. Víkurfréttir tóku hann tali.

- Hvernig kemur það til að Verne Global velur Opin kerfi sem samstarfs- og þjónustuaðila?

„Það eru nokkrir samverkandi þættir sem komu til við valið en þegar Verne Global hóf leit að samstarfsaðila voru það fyrst og fremst íslenskir samstarfsaðilar alþjóðlegra fyrirtækja sem komu til greina. Opin kerfi er með sterk tengsl við stærstu upplýsingatæknifyrirtæki í heimi; HP, Cisco, Microsoft, VM-Ware og RedHat sem öll eru leiðandi á sínu sviði og með sterka stöðu í gagnaverum um allan heim. Þetta gerði Opin kerfi strax að álitlegum kosti. Þegar samstarfsviðræður hófust tóku Verne Global starfsemi Opinna kerfa út með tilliti til þekkingar og reynslu sérfræðinga, styrkleika á markaði, viðskiptavina, sögu og baklands og komust að þeirri niðurstöðu að Opin kerfi er rétti samstarfsaðillinn fyrir Verne Global“.

- Hvernig verður þessu samstarfi ykkar háttað?

„Samstarfið er tvíþætt. Í fyrsta lagi er Verne Global að velja Opin kerfi sem samstarfsaðila í sölu og þjónustu við sig og viðskiptavini sína.  Þetta þýðir að Opin kerfi munu í ákveðnum tilfellum selja búnað til Verne Global og þeirra viðskiptavina ásamt því að sinna þjónustu við þann búnað sem kemur til með að vera hýstur í gagnaveri Verne.  Í þessu felst mikil viðurkenning fyrir Opin kerfi og alla þá reyndu sérfræðinga sem starfa hjá fyrirtækinu. Í öðru lagi þá flytja Opin kerfi hýsingarlausnir sínar og innri kerfi inn í gagnaver Verne Global sem gerir það að verkum að þær lausnir sem við bjóðum í dag og komum til með að bjóða í framtíðinni verða framvegis hýstar í umhverfi sem á sér enga hliðstæðu á Íslandi“.
   
- Það hefur komið fram að þið flytjið hýsingarstarfsemi ykkar og innra kerfi í gagnaverið. Fylgja þessu einhver störf eða starfsmenn til Reykjanesbæjar? Hversu umfangsmikil er þessi starfsemi?

„Opin kerfi hefur fram að þessu ekki verið umfangsmikill aðili á íslenskum hýsingarmarkaði heldur frekar lagt áherslu á að styðja við starfsemi þeirra aðila sem hafa boðið slíka þjónustu. Það hafa orðið talsverðar breytingar á þessum markaði undanfarin ár og Opin kerfi hefur aðlagast þeim og með þessum samningi má segja að Opin kerfi sé mætt að fullu til leiks og tilbúið að keppa á spennandi markaði. Þetta er í sjálfu sér mjög eðlilegt skref og við höfum fullan stuðning helstu birgja og okkar nýja samstarfsaðila. Opin kerfi hefur um árabil boðið útvistunarlausnir og er í dag með fjölda stöðugilda sem sjá um tölvukerfi viðskiptavina að hluta til eða að fullu. Margir þeirra viðskiptavina eru með starfsemi á Suðurnesjum og hefur þeim á undanförnum árum að mestu verið sinnt af starfsmönnum Opinna kerfa sem einmitt eru búsettir á svæðinu. Opin kerfi hefur líka verið þekkt fyrir að vera félag sem á auðvelt með að vinna með ýmis konar samstarfsaðilum og á Suðurnesjum eru nokkrir frábærir samstarfsaðilar sem hafa átt drjúgan þátt í að félagið hefur mætt væntingum kröfuharðra viðskiptavina á svæðinu.

Gagnaversiðnaðurinn á Íslandi er langhlaup og ég er mjög bjartsýnn að þegar reynsla kemst á þá þjónustu sem í boði er fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini þá muni starfsemin hér á svæðinu fljótt vinda upp á sig.  Í framtíðinni reikna ég ekki með neinu öðru en að Opin kerfi og þeirra samstarfsaðilar verði með fasta viðveru á Ásbrú.  Draumurinn er að byggja slíka starfsemi upp á sérfræðingum úr heimahéraði.  Eigi Opin kerfi þess nokkurn kost að skapa störf á svæðinu þá munum við ekki skorast undan því, nú sem endranær“.

- Þú hefur verið spurður út í hæfni íslensks atvinnulífs til að mæta þörfum gagnaversiðnaðar. Hvernig erum við í stakk búnir að takast á við þessa starfsgrein. Er menntun til staðar til að takast á við þennan gagnaversiðnað?


„Það er engin spurning að við eigum mjög hæfa sérfræðinga í dag og skal engan undra þar sem ekki er langt síðan að við vorum þjóð í miklum uppgangi og þurftum að styðja við mikinn vöxt upplýsingatæknikerfa á mjög stuttum tíma á margvíslegum mörkuðum. Við erum því í dag með mjög víðtæka og djúpa reynslu sérfræðinga í fjölmörgum fyrirtækjum sem hafa tekist á við fjölda verkefna með fjölbreyttu sniði. Ég er því fullviss að við erum vel í stakk búin til þess að takast á við iðnaðinn í dag og gott betur. Við munum þurfa að vaxa með iðnaðinum og þá horfum við til okkar ágætu menntastofnana og allan þann fjölda nemenda sem leggja stund á nám í tæknitengdum greinum. Þar þarf að hlúa betur að tæknitengdum greinum að mínu mati, efla námið, auka fjölbreytileika og gera ungu fólki grein fyrir þeim tækifærum sem eru til staðar.  Einnig er mikilvægt að líta á það sem önnur lönd hafa gert til að rækta sinn garð, við erum ekki að feta ótroðnar slóðir og verðum að vera fús til þess að fá leiðsögn þar sem við rötum ekki.  Sjón er oft sögu ríkari og ég hef ekki í dag hitt einn einasta viðmælanda sem hefur ekki notið þess að koma í heimsókn í gagnaverið og sjá þessa mögnuðu uppbyggingu.  Þetta er einstakt verkefni, á allt öðrum skala og gæðum en við höfum áður séð í þessum iðnaði hérlendis og það er gríðarlega spennandi að fá að vera þátttakandi í þessu“.   

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024