Breyttir tímar og meiri þörf á sérfræðikunnáttu
Klemenz Sæmundsson er nýr skólameistari Fisktækniskóla Íslands í Grindavík
„Það eru mikil sóknarfæri í bláa hagkerfinu, m.a. í fisktækni, gæðastjórn, vinnslutækni og fiskeldi. Það er talað um að það muni vanta um 800 starfsmenn bara í fiskeldi á komandi árum,” segir nýr skólameistari Fisktækniskóla Íslands, Klemenz Sæmundsson.
Fisktækniskóli Íslands fagnaði tíu ára starfsafmæli í fyrra en grunnur að stofnun skólans var þó fyrst lagður árið 2007. Það var Ólafur Jón Arnbjörnsson sem þá var skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem var einn hvatamanna að stofnun skólans og hefur verið skólameistari frá upphafi.
Klemenz hefur kennt við skólann um árabil en er nú tekinn við stjórninni. „Það var Ólafur Jón Arnbjörnsson sem byggði þennan skóla upp og ég tel mig vera taka við mjög góðu búi. Það má segja að skólinn sé búinn að slíta barnsskónum, Ólafur ruddi brautina og nú er það mitt að þróa skólann og festa enn frekar í sessi. Kannski er þetta mjög góður tímapunktur því framundan eru flutningar, skólinn er búinn að sprengja núverandi húsnæði utan af sér og því verður gott að flytja á næsta ári í nýtt húsnæði á Hafnargötunni í Grindavík. Þetta er húsnæði sem stórútgerðin Þorbjörn á en fyrir þá sem ekki þekkja til, var fyrirtækið Hælsvík þar áður með fiskvinnslu. Það er verið að taka húsnæðið algjörlega í gegn og við fengum að taka þátt í hönnun skólans sem er auðvitað frábært. Við munum verða í umtalsvert stærra húsnæði og munum því geta fjölgað nemendum sem er eitt af markmiðunum.“
Fisktækniskólinn náði ákveðnum áfanga í fyrra þegar allt námið var samþykkt af menntamálaráðuneytinu og þar með niðurgreitt og það er eitt af mikilvægustu verkefnunum framundan, að tryggja þann fjárstuðning ríkisins áfram.
„Í fyrra voru allar námsbrautir skólans samþykktar af menntamálaráðuneytinu, það skipti okkur og ekki síst nemendur mjög miklu máli. Fram að því hafði bara grunnnámið í fisktækni verið samþykkt sem þýddi að ef nemandi vildi halda áfram í framhaldsnámi, þurfti viðkomandi að borga um 400 þúsund í skólagjöld fyrir eina önn, í stað u.þ.b. tuttugu þúsund króna. Þó svo að þetta hafi verið samþykkt í fyrra og þetta gildi núna, er ekki tryggt að stuðningurinn haldi áfram eftir áramótin og því verður þetta eitt af mínum helstu verkefnum, að tryggja þennan stuðning ríkisins áfram.
Þessi skóli hefur algjörlega sannað sitt gildi, það eru mjög breyttir tímar í fiskvinnslu í dag og meiri þörf á sérfræðikunnáttu. Við vitum að fólk fer seinna á vinnumarkað í dag. Ég var sjálfur t.d. byrjaður að vinna í fiski þegar ég var átta ára gamall og hafði auðvitað bara gott af því en sjálfsagt var það ekkert sniðugt svona eftir á að hyggja. Slys voru mun tíðari á þeim árum, ekki síst á ungmennum og sjálfur lenti ég t.d. illa í því þegar ég var fimmtán ára, var heppinn að missa ekki af mér fótinn. Aðbúnaður hefur auðvitað snarlagast síðan þá og slysatíðni lækkað, meðal annars vegna aukinnar tækni og menntunar starfsfólks. Atvinnugreinin í dag og þá er ég að tala um í sjávarútvegi og fiskeldi, er mjög alþjóðleg og við kennum orðið jöfnum höndum á íslensku, ensku og pólsku. Við notumst við kennslukerfi sem heitir LearnCove, það aðlagar kennsluefnið að tungumáli nemanda. Þó svo að bækistöðvar skólans séu í Grindavík kennum við víða um land, nemendur eru þá bæði í fjarnámi auk þess sem kennari mætir á viðkomandi stað í einn til tvo daga í kennslulotu.
Varðandi framtíð skólans þá viljum við auðvitað stækka. Það eru mikil sóknarfæri í hinu bláa hagkerfi og okkar markmið eru að menntun starfsfólks haldist í hendur við þá tækniþróun sem er að eiga sér stað. Ég á ekki von á öðru en þessi frábæri skóli eigi eftir að festa sig vel í sessi innan íslensks framhaldsskólakerfis, ég hlakka mikið til að leiða skólann næstu ár,“ sagði Klemenz að lokum.
Skólasetning Fisktækniskóla Íslands fór fram föstudaginn 18. ágúst kl. 10:00 í húsnæði Fisktækniskólans, Víkurbraut 56.
Ennþá er hægt að innrita sig á brautir skólans. Frekari upplýsingar á heimasíðu skólans, www.fiskt.is