Brattir og bjartsýnir píparar
Hann er bjartsýnn á framtíð Suðurnesja.Lagnaþjónusta Suðurnesja fagnar bráðum tvítugsafmæli og hefur verið eitt stærsta og leiðandi pípulagningafyrirtæki á Suðurnesjum. „Framtíðin er björt á Suðurnesjum og við þurfum að vera tilbúin eftir Covid-19,“ segir Rúnar Helgason.
„Við erum bara ansi brattir og bjartsýnir. Það er búið að vera brjálað að gera og verður áfram, alla vega langt fram á næsta ár,“ segir Rúnar Helgason, pípulagningameistari og eigandi Lagnaþjónustu Suðurnesja en fyrirtækinu vantar tvö ár í tvítugsaldurinn og hefur verið leiðandi á sínu sviði á Suðurnesjum.
Hjá Lagnaþjónustunni starfa um þessar mundir um sextán manns í fullu starfi og hafa mest farið í 24 þegar ferðaþjónustan var á flugi. Hljóðið í Rúnari er gott þrátt fyrir ýmsar áskoranir á veirutímum. „Við höfum verið með marga menn í vinnu í flugstöðinni og höfum reyndar haldið góðu tempói þar á veirutímum þrátt fyrir allt en líka á fleiri stöðum sem eru tengdir ferðaþjónustunni, eins og Bláa lóninu. Verkefnastaðan hefur verið góð í mörg ár og haldist furðu vel á þessu Covid-ári og við erum mjög þakklátir fyrir það. Við höfum unnið í gegnum tíðina fyrir marga aðila á Suðurnesjum og staðið okkur vel, þó ég segi sjálfur frá. Ég var kannski ekki alveg viss um stöðuna á næstunni fyrir nokkrum mánuðum síðan en nýlega fengum við til viðbótar tvö stór verkefni við Gerðaskóla í Garði og Hópsskóla í Grindavík sem tryggir okkur vinnu í góðan tíma,“ segir Rúnar en Lagnaþjónustan hefur núna í nokkur ár verið svokallað Framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi en til að ná því þarf reksturinn að vera traustur og góður og Rúnar segir að svo hafi verið í allmörg ár.
„Við höfum verið mjög heppin hvað það varðar. Við höfum þjónustað mörg góð fyrirtæki og ótrúlegt en satt þá höfum við ekki tapað nema örfáum kröfum í öll þessi ár og þær voru litlar.“
Ætluðum að vera litlir
Þegar hann er spurður út í stofnun fyrirtækisins sem var árið 2002 þá hlær okkar maður og segir að þetta hafi nú bara átt að vera lítið fyrirtæki fyrir hann og félaga hans, Gunnlaug Úlfar Gunnlaugsson, en hann lést í fyrra. Hafi bara átt að tryggja þeim vinnu. „Við ætluðum bara að vera litlir en vorum fljótt heppnir þegar við fengum viðhaldssamninga við vaxandi fyrirtæki eins og Bláa lónið og sjávarútvegsfyrirtækið Vísi í Grindavík. Við vorum þess vegna með fyrirtækið skráð í Grindavík fyrstu árin en nú er það skráð í Reykjanesbæ. Vinnan jókst mjög fljótt og það var því ekki um annað að ræða fyrir okkur að ef við ætluðum að þjónusta vaxandi fyrirtæki eins og til dæmis þessi tvö, að vaxa með þeim og það var það sem gerðist. Við vorum fljótlega líka með litla aðstöðu í Keflavík en árið 2018 opnuðum við í góðu húsnæði við Selvík og erum þar á frábærum stað.“ Eftir lát Gunnlaugs (Úlla) hélt Þorfinnur sonur hans uppi merkjum hans innan fyrirtækisins og hann á núna fimmtungs hlut í Lagnaþjónustunni á móti Rúnari Helgasyni sem á 80%. „Það er gott að hafa unga manninn hér og hann stýrir rekstrinum okkar í Grindavík,“ segir Rúnar.
Mætti laga ímynd píparans
Það liggur beint við að spyrja Rúnar út í píparastarfið og hvernig gangi að fá unga menn í það en það er afar sjaldgæft að konur vinni við pípulagnir.
„Það var metaðsókn í námið í vetur og það er jákvætt. Þetta hefur einhvern veginn ekki verið nógu heillandi fyrir unga menn en það er vonandi að breytast. Stéttin mætti þó vera duglegri að laga ímynd píparans. Djobbið er í grunninn svipað og það hefur verið í gegnum tíðina en er þó ekki eins skítugt ef hægt er að orða svo. Það hefur loðað við greinina að við séum drullugir upp fyrir haus á kafi að losa misskemmtilegar stíflur og svoleiðis. Við hér hjá okkur leggjum til dæmis mikla áherslu á alla snyrtimennsku. Þannig að ef einhver okkar lendir í því að verða skítugur upp fyrir haus þá fer hann og skiptir um föt. Í viðhaldsvinnunni erum við oft á stöðum þar sem við þurfum að huga að svona málum, ég nefni sem dæmi þegar menn frá okkur fara í Saga -Lounge stofuna eða sambærilegt. Við þurfum því að huga að svona málum. Við höfum líka verið með það sem metnaðarmál að hafa bílana okkar snyrtilega og hreina. Þeir hafa verið góð auglýsing fyrir fyrirtækið.“
– Hvað með píparanámið eða iðnnám almennt, er þetta heillandi fyrir unga menn eða unga fólkið okkar?
„Já, ég held að það hafi nú sýnt sig að iðnnám skilar þér yfirleitt í góð og ágætlega launuð störf. Svo er líka gott að vera með slíkan grunn ef duglegt, ungt fólk vill bæta við sig og fara störf sem krefjast meira náms, vilja verða meiri fræðingar, tæknifræðingar eða fleira slíkt. Þá er þetta góður grunnur. Ég vil meina að iðnnám sé góður stökkpallur út í lífið. Þá er iðnnám líka góður kostur og tryggir þér yfirleitt vinnu út lífið, sama hvað á gengur. Það vantar einhvern veginn alltaf iðnaðarmenn – en þetta er svolítið hjá foreldrunum sem vilja margir hverjir sjá sín börn fara í háskólanám. Við getum ekki öll farið þá leið. Svo er einn af mörgum kostum við iðnnámið að geta unnið við það á meðan maður er í námi. Maður þarf þá ekki taka námslán.“
Aðspurður um þróunina í starfinu hvað varðar tækni og fleira segir Rúnar að hún hafi verið allnokkur. Í stað þess að pípari snytti rör og lóði sé komin skemmtilegri efni úr plasti sem séu pressuð saman með töng. Þá sé ýmis tækni sem hafi komið með árunum sem geri starfið þægilegra og skemmtilegra.
„Við höfum tengt fleiri heita potta á þessu ári en síðustu tíu ár og allt lagnaefni fyrir heitu pottana hefur selst upp – en eigum við ekki að segja að það sé jákvætt ...“
Met í heitum pottum
– En hvað með einstaklingana, hafið þið verið að vinna eitthvað fyrir þá? Nú hafa margir verið að endurbæta hjá sér húsnæði og fleira á veirutímum.
Rúnar brosir og ekki liggur á svarinu. „Við höfum tengt fleiri heita potta á þessu ári en síðustu tíu ár og allt lagnaefni fyrir heitu pottana hefur selst upp – en eigum við ekki að segja að það sé jákvætt. Ekki hefur fólk verið að fara til útlanda. Þá notar það peningana til að gera eitthvað heima hjá sér eða í bústaðnum. Það er bara jákvætt.“
– Við spyrjum Rúnar að lokum um að rýna í kristalskúluna. Hvernig leggst næsta framtíðin í hann, tíminn eftir Covid-19?
„Ég hef trú á því að það fari allt á fleygiferð. Þegar kviknar á flugvellinum aftur fer allt á fullt. Við höfum unnið mikið fyrir mörg fyrirtæki sem eru í starfsemi sem tengist ferðaþjónustunni. Við þurfum að vera tilbúin að taka við næsta bolta þegar hann kemur og ég er bara bjartsýnn á framtíðina hér á Suðurnesjum. Það eru fá svæði hér á landi sem hafa jafn mörg tækifæri til að halda áfram að vaxa,“ segir Rúnar Helgason.
Rúnar og Þorfinnur ásamt pípurunum sínum fyrir framan höfuðstöðvar Lagnaþjónustunnar við Selvík í Reykjanesbæ.
Flottur og tandurhreinn bílafloti Lagnaþjónustu Suðurnesja.