Bjóða ókeypis viðtal hjá lögfræðingi
LS Legal eða Lögfræðistofa Suðurnesja rekur sögu sína aftur til ársins 1960. Eigendur stofunnar eru þeir Ásbjörn Jónsson og Unnar Steinn Bjarndal, lögmenn. Þá er Garðar K. Vilhjálmsson sjálfstætt starfandi á stofunni. Alls starfa sjö lögmenn á stofunni og á stofunni eru átta háskólamenntaðir starfsmenn. Allir starfsmenn stofunnar eru búsettir á Suðurnesjum. Eigendur stofunnar hafa lagt mikla áherslu á það í gegnum tíðina að ráða heimamenn til starfa og hafa þeir t.a.m. verið duglegir að ráða laganema af svæðinu í hlutastörf með námi.
Allt frá stofnun stofunnar hefur starfsemi hennar náð yfir öll svið lögfræðinnar. Unnar Steinn Bjarndal lögmaður segði í samtali við Víkurfréttir að flestir viðskiptavinir stofunnar eru stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki á Suðurnesjum og sérhæfa ráðgjafar hennar sig þannig í þjónustu við viðskiptalífið. Frá árinu 2010 hefur viðskiptavinum stofunnar verið veitt ráðgjöf og þjónusta á þremur fagsviðum; lögfræðisviði, fjármálasviði og bókhaldssviði. Tveir af lögmönnum stofunnar eru einnig viðskiptafræðingar og sérhæfa sig í fyrirtækjalögfræði í víðu samhengi. Því fer þó fjarri að öll starfsemi stofunnar sé á sviði fyrirtækjalögfræði. Lögmenn stofunnar veita alla almenna lögfræðiráðgjöf.
LS Legal þjónustar fyrirtæki og einstaklinga um allt land, en megináhersla er að sjálfsögðu lögð á að þjónusta Suðurnesjamenn. Langflestir viðskiptavinir stofunnar eru frá Suðurnesjum.
Ókeypis viðtalstími hjá lögfræðingi
Lögmenn stofunnar sinna einnig öðrum verkefnum, til viðbótar við lögmennskuna. Sitja í stjórnum og nefndum og líta á það sem samfélagslega skyldu sína að leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið. Tveir lögmenn á stofunni hafa þannig gengt formennsku í barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar, svo dæmi sé tekið.
Það vakti athygli í síðustu viku að stofan auglýsti í Víkurfréttum ókeypis viðtalstíma fyrir viðskiptavini stofunnar. Hvað kemur til?
„Starfsmenn stofunnar líta svo á að þetta sé mikilvægt framlag til íbúa Suðurnesja. Margir líta eðlilega á það sem mikla hindrun að þurfa að greiða fyrir viðtalstíma hjá lögmanni og sleppa því þá jafnvel að láta kanna rétt sinn,“ segir Unnar Steinn og bætir við: „Við viljum fyrir alla muni fá fólk til okkar þannig að við getum kannað það hvort við getum hjálpað fólki. Þá kemur það líka oft í ljós, eftir að við förum að aðstoða fólk, að það er með málskostnaðartryggingar og fleira af því tagi, þannig að það þarf ekki að hafa sérstakar áhyggjur af lögfræðikostnaði í málum sínum“.
Verkefni í dag og verkefni fyrir bankahrun
Hvernig eru verkefni lögfræðistofunnar í dag og hvernig hafa þau breyst á undanförnum árum?
„Verkefnin hafa breyst talsvert á undanförnum árum. Eðli lögmennskunnar er þannig að það eru alltaf ákveðin verkefni sem breytast aldrei, hvort sem það er uppgangur í viðskiptalífinu eða kreppa. Þetta er t.d. alls kyns búskipti, skjalagerð, ráðgjöf í sifjamálum og aðkoma að fasteignamálum. Svo dæmi séu tekin.
Verkefni eftir bankahrun einkennast mikið til af því að fólki finnst það hafa verið hlunnfarið af fjármálafyrirtækjunum. Við höfum aðstoðað fjölda fólks að leita réttar síns gagnvart bönkunum, t.d. vegna ólögmætra gengistryggðra lána, vegna ólögmætra skjala sem varða ábyrgðarmenn og vegna annarra mála. Oft á tíðum höfum við náð góðum árangri og það er einstaklega ánægjulegt þegar það gerist“.
Óánægja hjá gömlum viðskiptavinum SpKef
Það má þá ætla að fall Sparisjóðsins í Keflavík hafi komið inn á borð til ykkar?
„Það verður að viðurkennast að einmitt nú um þessar mundir erum við með óvenjulega mörg mál sem beinast að Landsbankanum vegna Sparisjóðsins í Keflavík. Það er okkar mat að vinna Landsbankans í málefnum fyrrverandi viðskiptavina SpKef hefði getað verið markvissari. Fyrrverandi viðskiptavinir SpKef hafa sumir kvartað yfir því að þeir hafi ekki fengið jafn skýr svör og fyrrverandi viðskiptavinir gamla Landsbankans“.
Framundan eru spennandi tímar
Saga stofunnar nær aftur til ársins 1960 eða í rúma hálfa öld. Hvaða augum sjáið þið framtíðina hér á Suðurnesjum?
„Við lítum framtíðina björtum augum. Suðurnesjamenn hafa staðið með okkur og leitað til okkar og framundan eru mörg krefjandi og áhugaverð verkefni fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga á svæðinu. Það er mikilvægt að íbúar á Suðurnesjum standi saman og sú áhersla mun áfram einkenna öll okkar störf.
Við teljum að framundan gætu verið spennandi tímar. Sveitarstjórnarmenn á svæðinu hafa verið duglegir að tala um öll þessi spennandi verkefni sem hafa verið í undirbúningi og við getum tekið undir með þeim. Ef rétt er haldið á málunum eru hér verkefni sem munu geta gjörbreytt atvinnuástandinu.
Það er reyndar tvennt sem má ekki gleymast, í þessu samhengi. Annars vegar hefur margt áunnist, varðandi atvinnuuppbyggingu á undanförnum árum. Það fer e.t.v. ekki mikið fyrir því í umræðunni en það hefur tekist að byggja hér upp nýja sprota hér og þar. Hins vegar að liður í því að tryggja öflugt atvinnulíf er að hlúa að þeim fyrirtækjum sem þegar eru starfandi. Það eru fullt af þekkingar- og nýsköpunarfyrirtækjum á Suðurnesjum sem við þurfum að standa með. T.d. á sviði matvælaiðnaðar, upplýsingatækni og vefþjónustu. Við þurfum öll að standa saman,“ segir Unnar Steinn Bjarndal, lögmaður hjá LS Legal í samtali við Víkurfréttir.
Fyrrverandi Sýslumaður í Keflavík, Jón Eysteinsson, starfar hjá LS Legal.