1. maí 2024
1. maí 2024

Viðskipti

Bakað í tómum bæ
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 20. desember 2023 kl. 06:06

Bakað í tómum bæ

Hérastubbur bakari er fjölskyldubakarí í Grindavík

Sigurður Enoksson í Hérastubbi bakara í Grindavík hefur rekið bakarí sitt til fjölda ára en sér fram á áskoranir í rekstrinum á næstunni vegna ástandsins í Grindavík. Hrafnhildur dóttir hans kom af fullum krafti inn í reksturinn með pabba sínum fyrir fimm árum, eftir að hún hafði klárað bæði konditor- og súkkulaðimeistaranám.

Hrafnhildur var ekki gömul þegar hún byrjaði að vinna hjá pabba sínum. „Upp úr fermingu fór ég að vinna hjá pabba, í afgreiðslu til að byrja með og fljótlega var ég farin að skrifa á kökur, er með mun betri handskrift en pabbi svo það lá beint við. Svo bættist almennur bakstur við um helgar og eftir tíunda bekkinn skráði ég mig í Menntaskólann í Kópavogi, hann var eini skólinn sem bauð upp á bakaradeild. Samhliða náminu reyndi ég að komast á samning hjá bakarameisturum í Reykjavík en var alls staðar hafnað því ég var stelpa, það fannst mér skrýtið. Ég og pabbi ákváðum að ég hefði gott af því að læra hjá öðrum en honum en fyrst aðrir bakarar vildu ekki taka mig á samning, gerðist pabbi minn meistari og ég kláraði sveinsprófið. Ég fór síðan fljótlega til Danmerkur í konditornám, var í eitt og hálft ár í Kaupmannahöfn og kláraði það nám. Kom þá heim og byrjaði að vinna hjá Sautján sortum sem er kökubúð en fann fljótlega að mig langaði líka að bæta á mig súkkulaðimeistara svo ég fór aftur til Danmerkur, nú til Óðinsvéa. Ég útskrifaðist úr því fyrir fimm árum og hef verið hjá pabba í Hérastubbi síðan. Ég kom auðvitað með ýmsar nýjungar svo bakaríið hefur vaxið og dafnað. Við erum með góða verkaskiptingu myndi ég segja, virku dagana er ég mest í því sem ég er sérhæfð í en svo skiptum við helgunum á milli okkar og þá er ég með almennan bakstur líka á minni könnu, já eða í mínum ofni.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Blaðamaður bað Hrafnhildi að hnoða í eitt stykki jólatertu og þegar komið var daginn eftir til að sækja, blasti við listaverk. „Ég fékk nú ekki mikinn fyrirvara hjá þér og nýtti það sem ég átti til. Þetta er súkkulaðikaka með vanillukremi og karamellu, jólatrésskrautið er úr smjörkremi. Ég hef gaman af því að búa til eitthvað svona nýtt og vona að þú og samstarfsfólk þitt á Víkurfréttum munið njóta kökunnar,“ sagði Hrafnhildur.

Tómur bær

Siggi hefur rekið Hérastubb til fjölda ára og var nýlega búinn að opna aftur eftir að veröld Grindvíkinga breyttist á augabragði í nóvember. „Frystirinn hjá mér bilaði í jarðhræringunum um daginn og talsvert af deigum skemmdist. Ég er nýlega búinn að opna aftur og þetta er skrýtið, venjulega eru tugir viðskiptavina á hverjum morgni en bærinn er þannig séð tómur. Fyrirtækin eru samt að hefja starfsemi á ný og þá munu viðskiptin aukast en svo er ég mikið að gera alls kyns laufabrauðsdeig og senda til Reykjavíkur og víðar. Það hentar bakara ekki vel að geta ekki hafið starfsemi fyrr en klukkan sjö á morgnana en ég vona að við munum fá undanþágu frá því. Annars verðum við bara að spila þetta eftir hendinni, reksturinn verður líklega ekki mjög arðbær á meðan ástandið er svona en við erum alla vega að reyna að gera eitthvað.“

Dugleg í nýjungum

Siggi var í stjórn Landsambands bakarameistara þegar dóttir hans var að reyna komast á sveinssamning. „Ég kom með þetta á fund og sagði mönnum til syndanna, að þeir ættu að skammast sín! Það kom fát á suma en ég vildi frekar láta Hrafnhildi standa á eigin fótum í stað þess að vera með mig, pabba sinn yfir sér. Ég tók hana því á samning hjá mér og samstarfið hefur gengið vel myndi ég segja. Hrafnhildur hefur staðið sig vel, var fyrsta konan til að fara á heimsmeistaramót ungra konditora. Hún getur gert fullt af hlutum sem ég kann ekki en við lítum á okkur sem teymi, ég sé um suma hluti og hún aðra. Við erum mjög dugleg í að prófa eitthvað nýtt, sérstaklega í vegan-bakstri sem hefur komið sterkur inn að undanförnu og þar erum við öflug, myndum eflaust gera miklu meira af því ef við værum á höfuðborgarsvæðinu. Við skulum sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Siggi Hérastubbur að lokum.

Sigurður ásamt börnum sínum, frá vinstri: Enok Steinar, Hrafnhildur og Steinþór Guðmundur.