Ásbrú er langstærsta gagnaverasvæði landsins
– Verne Global stækkar og sækist eftir byggingalandi
Í gagnaversiðnaðinum er gríðarlegur uppgangur í heiminum í dag. Gagnaverin eru gott dæmi um tæknitengda uppbyggingu og fjárfestingin í tengslum við þann iðnað er gríðarleg. Fjárfesting í mannvirkjum er mikil og eins eru mikil verðmæti í þeim búnaði sem er verið að koma upp. Það er mismunandi hvernig gagnaverin eru. Sum þeirra soga til sín meiri þjónustu en önnur á uppbyggingartímanum og þegar verið er að setja upp búnað þeirra.
„Ásbrú er langstærsta gagnaverasvæði landsins. Þar eru fjögur af fimm gagnaverum sem rekin eru í landinu og gagnaverin sjá mikið virði í þeirri staðsetningu að vera á Ásbrú við hlið flugvallarins. Með hverju fyrirtæki sem kemur myndast sterkari grundvöllur fyrir næsta fyrirtæki að koma og staðsetja sig. Það er orðin til þekking á svæðinu, þjónustuaðilar, verktakar og fleiri vita hverjar þarfirnar eru og svo myndast grundvöllur sem styrkir heildarverkefnið,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.
„Verne Global er stærsta gagnaversverkefni landsins og það er gríðarlegur vöxtur hjá þeim núna. Verkefni sem nú þegar eru komin inn hjá þeim eru mjög flott. Eitt sem t.a.m. hefur verið fjallað um er að BMW framkvæmir nokkuð stóran hluta af hönnun nýju rafbílanna sinna i3 og i8 í stórtölvum hjá Verne á Ásbrú“.
BMW er að reyna að gera hönnun og framleiðslu rafbílanna sem umhverfisvænasta og það að staðsetja tölvurnar sem þurfa mikið afl í reikniaðgerðir hér á Ásbrú og nýta græna orku skiptir BMW miklu máli.
Verne er með 13 milljarða króna sem verða nýttir í uppbyggingu á næsta áfanga gagnaversins á Ásbrú. Fyrirtækið er að byrja innréttingu á næsta húsi við núverandi gangaver og er jafnframt í viðræðum við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar um stærri lóð undir starfsemi sína og möguleika til að vaxa enn frekar.
„Það er mikill vöxtur framundan hjá Verne og það mun gerast mjög hratt,“ segir Kjartan Þór.
Orkutengingar inn á Ásbrú eru mjög góðar nú þegar en nú er einnig unnið að því að skoða frekari tengingar til að tryggja afhendingaröryggi orku á svæðinu. Gagnaverin eru orkufrek og jafnframt nýta fyrirtæki eins og Algalíf mikla raforku í sínu framleiðsluferli.
(Frétt úr blaðauka um Ásbrú sem fylgdi Víkurfréttum 13. maí 2015)