Lokaorð: Fundur fundarins vegna
Nýverið kynnti Reykjanesbær tillögur að breyttu deiliskipulagi á Hafnargötu, Klapparstíg og Tjarnargötu og frestur þeirra „sem telja sig eiga hagsmuni að gæta“ til að gera athugasemdir var til 17. febrúar. Svona stór breyting í hjarta bæjarins þarfnast auðvitað meiri umræðu og það var því ánægjulegt þegar tilkynnt var að umsagnarfrestur hefði verið framlengdur til mánaðarmóta og boðað til íbúafundar sem streymt yrði á netinu. Fínustu vinnubrögð þar.
Fundurinn var haldinn síðastliðinn mánudag og auglýst að hann ætti að standa í eina og hálfa klukkustund. Á vefsíðu viðburðarins voru íbúar hvattir til að koma með spurningar og að reynt yrði að svara þeim öllum eftir bestu getu. Fundurinn byrjaði ágætlega og talsmaður arkitektastofu bæjarins fór yfir tillögurnar í um það bil fimmtán mínútna erindi og sýndi fallegar myndir af fyrirhuguðum breytingum. Þær eru metnaðarfullar og margt áhugavert sem lagt er til. Það eru hins vegar fjölmörg atriði sem betur þarf að ræða, útskýra og skiptast á skoðunum um þegar um er að ræða svo miklar breytingar og þess vegna mjög jákvætt að skv. fundarboði hafi þegar þarna var komið við sögu, verið eftir um klukkustund til umræðna og spurninga.
Það er vægt til orða tekið þegar ég segi að fundurinn hafi ekki staðið undir væntingum. Skipulagsstjóri Reykjanesbæjar var fundarstjóri og væntanlega var honum líka ætlað það hlutverk að svara spurningum fyrir hönd bæjarins þar sem enginn annar fulltrúi bæjarins var þar til svara. Fjölmargar spurningar bárust, bæði úr salnum og á netinu sem skipulagsstjórinn skautaði yfir og svaraði mörgum þeirra annað hvort engu eða með yfirlætislegum hálfkæringi. Þegar fundurinn var um það bil hálfnaður miðað við auglýstan fundartíma, og fjölmörgum spurningum enn ósvarað, sleit skipulagsstjórinn fundi og þakkaði viðstöddum fyrir góðan fund!
Þetta var sum sé fundur fundarins vegna. Þetta var fundur til þess að geta sagt að komið hafi verið til móts við íbúa með því að halda íbúafund. Þessum fundi var aldrei ætlað að svara spurningum eða veita tækifæri til þess að ræða þessa ágætu tillögu – en þá liggur það bara fyrir og er fundarboðendum til mikillar minnkunar.
Miðbærinn okkar er hjarta bæjarins. Þar má margt betur fara og ef saga Hafnargötunnar er skoðuð er hún vörðuð misalvarlegum skipulagsslysum þar sem stórum, yfirleitt ljótum húsum er troðið samhengislaust innan um eldri hús. Mörg þessara húsa standa ókláruð árum og áratugum saman og er engin prýði af. Engin heildarsýn hefur verið lögð fram – hvernig er restin af Hafnargötunni hugsuð, hvernig er t.d. götumyndin hinum megin götunnar á þessum tiltekna reit hugsuð, hvernig mun hún kallast á við þetta? Skipulagsfulltrúinn nánast hló slíkar spurningar út af borðinu og sagði þetta allt vera í vinnslu. Þetta þarf hins vegar að liggja fyrir og kynna fyrir íbúum, og auðvitað skoðast í samhengi til að koma í veg fyrir fleiri skipulagsslys.
Ég hef ennþá fjölmargar spurningar. Mig langar að vita hvert ætlað er að flytja húsin sem stendur til að færa og hvernig samtal Minjastofnunar og bæjarins gengur? Ég spurði hvar húsakönnunina frá 2020 sem vísað er til í tillögunni sé að finna? Þar má finna sögu þeirra húsa sem ætlað er að færa og rífa, hana þarf að segja og skiptir máli að mikilvægi hennar sé metin áður en húsin eru rifin. Hvar eru þessi hús í aldursröðinni – eru þetta kannski elstu húsin við Hafnargötuna austan Aðalgötu? Ég ætlaði að spyrja hver kostnaðurinn við flutning og niðurrif húsanna á reitnum væri og hver bæri kostnaðinn af því – en fundarstjóranum lá á að slíta fundi löngu áður en honum átti að ljúka þannig að ég náði henni ekki inn. Gamli bærinn, sem endurbættur hefur verið mjög smekklega á umliðnum árum og áratugum liggur þarna að – mig langaði að vita hvort það hefði einhvern tímann komið til greina að í stað þess að byggja allt nýtt sem viðhéldi „minnum“ um gömul hús að einfaldlega leyfa gömlu „minnunum“, húsunum sjálfum að njóta sín í skipulaginu innan um það nýja?
Ég ítreka að ég er ánægð með að fram séu komnar tillögur sem lýsa metnaði og stórhug einstaklinga sem þykja vænt um bæinn sinn. Það er virðingarvert. En sýnum líka sögunni okkar virðingu og þeim sem á undan eru gengnir. Og umfram allt – lærum af sögunni og endurtökum ekki sömu skipulagsmistökin enn og aftur.
Ég hvet íbúa til að kynna sér þessar tillögur og hafa á þeim skoðun – hægt er að skila athugasemdum til Reykjanesbæjar fyrir mánaðarmót.