Brottkast á 74 fiskum stöðvar Áskel ÞH í hálfan mánuð
Eins og undanfarin ár er hrygningarstopp í apríl en það hófst 1. apríl og stóð til 12. apríl og miðast við u.þ.b. 4 mílur út frá landi. Stoppið er á nokkuð stóru svæði, eða frá Dyrhólaey að Reykjanesi, inn í Faxaflóa meðfram Snæfellsnesinu, inn í Breiðafjörð og að Látrabjargi. Þeir bátar sem réru á þessum tíma fyrir páskastopp, fóru því út fyrir þessa línu og gekk nokkuð vel.
Sömuleiðis núna í apríl eru smábátasjómenn að koma sínum bátum á flot og gera þá klára, því 1. maí næstkomandi byrjar strandveiðitímabilið. Strandveiðitímabilið 2022 gekk mjög vel hjá bátunum og þeir voru nokkuð margir á þessu svæði. Svæðið sem Suðurnesin eru á kallast svæði D, og reyndar er það nokkuð langt en það byrjar á Hornafirði og nær að Akranesi, ansi sérstakt að Hornafjörður sé á svæði D, en ekki svæði C. Svæði C er frá Raufarhöfn og að Djúpavogi.
Fyrir páskastoppið voru nokkrir bátar sem réru og ef við lítum á netabátana þá var Erling KE með 56 tonn í þremur róðrum. Grímsnes GK var með 35 tonn í fimm róðrum og Maron GK var með 16 tonn í þremur róðrum.
Hjá dragnótabátunum hafa aðeins tveir bátar róið og eru það Aðalbjörg RE sem er með 19,3 tonn í þremur og Maggý VE með 6,2 tonn í einum róðri en báðir lönduðu í Sandgerði.
Hjá togurunum er Áskell ÞH með 91 tonn í einum túr. Hann var reyndar að missa veiðileyfi vegna brottkasts. Þetta er þriðji stóri báturinn sem landar á Suðurnesjunum sem missir veiðileyfið vegna brottkasts. Áskell ÞH mun þurfa að stoppa 1. maí næstkomandi og vera stopp í fjórtán daga út af brottkasti á 74 fiskum. Sturla GK var svo með 72 tonn í einni löndun, landað í Grindavík.
Hjá línubátunum heldur góða veiðin áfram. Hjá stóru bátunum var Sighvatur GK með 109 tonn, Páll Jónsson GK með 103 tonn, Valdimar GK með 101 tonn og Fjölnir GK 95 tonn. Allir eftir eina löndun í Grindavík.
Af minni bátunum er Kristján HF með 49 tonn í þremur löndunum, Indriði Kristins BA með 46 tonn í fjórum, Tryggvi Eðvarðs SH með 38 tonn í þremur og Margrét GK 16 tonn, allir lönduðu í Sandgerði.
Auður Vésteins SU 27 var með 27 tonn í þremur, Gísli Súrsson GK með 26 tonn í þremur, Dúddi Gísla GK með 25 tonn í tveimur, Hópsnes GK með 15 tonn í þremur, Særif SH með 14 tonn í einum, Geirfugl GK með 10 tonn í þremur og Gulltoppur GK með 10 tonn í tveimur róðrum, allir lönduðu í Grindavík.
Í mars var Addi Afi GK eini báturinn á Suðurnesjunum sem var á grásleppuveiðum en núna hefur Garpur RE líka hafið grásleppuveiðar og rær hann frá Grindavík. Grásleppubátunum mun eitthvað fjölga núna í apríl.