„Við erum öll eins í grunninn“
- Mikilvægt að finna kærleikann
Anna Sigríður Sigurjónsdóttir er bæjarlistamaður Grindavíkur en hún tók við þeirri viðurkenningu við setningu Menningarviku fyrr í þessum mánuði. Anna segir að hún hafi byrjað í myndlist um leið og hún byrjaði að tala, hún var dugleg að sækja námskeið sem voru í boði á hennar yngri árum og hún útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskólanum árið 1985 en þaðan hélt hún til Hollands og útskrifaðist frá Akademie Voor Beeldende Kunst árið 1989. Anna hefur haldið fjöldann allan af einkasýningum hér á landi og einnig í Danmörku og Hollandi. Listaverk eftir hana má finna víðs vegar um heiminn en í dag vinnur hún við skúlptúragerð í vinnuskúrnum sínum í Þórkötlustaðarhverfi í Grindavík ásamt því að vera með verkefni í bígerð.
Fjölskyldan studdi hana í listsköpun „Ég var svo heppin að alast upp hjá foreldrum og fjölskyldu sem studdu mig eindregið í minni listsköpun,“ segir Anna Sigríður. „Það má eiginlega segja að ég hafi byrjað í myndlist um leið og ég byrjaði að tala, ég fór ung að teikna og búa til ýmislegt úr leir þegar ég var barn. Þegar ég byrjaði í skóla, þá var boðið upp á námskeið í myndlistarskólanum í Kópavogi, þar sem ég ólst upp.“ Anna segist hafa sótt öll þau námskeið sem í boði voru fyrir börn- og unglinga á sínum tíma. „Þegar ég sótti námskeið hjá Myndlistar- og handíðaskólanum, stefndi ég beint þangað og lauk mínu námi þaðan. Eftir að ég útskrifast þaðan held ég síðan til Hollands og útskrifast þaðan árið 1989 og hef verið alveg á fullu í minni listsköpun síðan þá.“
Verk eftir Önnu Sigríði.
Anna Sigríður býr aðallega til skúlptúra og hefur einnig verið að gera gjörninga eða „performensa“ og innsetningar síðan 2012. „Mér finnst mjög skemmtilegt að blanda þessu saman, innsetningarnar eru aðeins léttari en skúlptúrinn og þannig dreifist álagið aðeins meira. Ég hef einnig verið að vinna mikið með hljóð í „performansinum“ sem er mjög skemmtilegt.“
Tilnefningin bæjarlistamaður Grindavíkur kom Önnu Sigríði á óvart. „Ég var bara ótrúlega hissa og ótrúlega glöð þegar ég heyrði af tilnefningunni, mjög þakklát líka en mér þykir mjög vænt um þetta og þetta er mikill heiður. Ég hef haldið tvær sýningar í Grindavík og mér fannst svo gott að geta gert það á heimaslóðum, það var mjög ánægjulegt.“
Að logsjóða í vinnustofunni.
Er með verk til sýnis víðsvegar um heiminn Verk eftir Önnu Sigríði má meðal annars finna í Hong Kong, á Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Kanada og einnig á Norðurlöndunum. „Ég fer stundum erlendis og flyt þá verk með mér en ég hef líka farið á vinnustofur og gert verk þar. Síðan hef ég líka farið á svokallað „Artist Residency“ hingað og þangað sem er alveg frábært.“ Anna segir að það sé frábært að fara á aðra staði og vinna þar í ákveðinn tíma, annað hvort í hugmyndavinnu eða að vinna í innsetningum. „Það er reyndar ekki hægt að vinna skúlptúrana mína alls staðar þar sem að maður þarf svolítið stórt vinnupláss til þess að hafa allar græjur til þess að sjóða og slípa en ég er einmitt með góða aðstöðu heima hjá mér í skúr fyrir utan húsið mitt í Þórkötlustaðarhverfi. Það er yndislegt fyrir listamann að búa við sjávarsíðuna og þar hef ég líka nóg pláss en það er kannski ekki vinsælt að vera í þéttri byggð með fullt af efni sem ég er að vinna með eins og járn og annað slíkt. Mér finnst líka æðislegt að vinna úti þegar veðrið er gott og ég geri það oft.“
Anna Sigríður vann sýninguna „Hjartsláttur, fólkið sem byggir jörðina“ með leikskólabörnum í Grindavík en henni fannst það nafn henta vel eða passa vel við sýninguna. Nemendur leikskólanna í Grindavík, Króks og Lautar notuðu hristur til að finna takt eða slátt, sem tengist hjartanu og fannst börnunum gaman að fá að skapa takt og fá að syngja.
Fley, verk eftir Önnu SIgríði.
Áhersla lögð á samvinnu „Það var haft samband við mig í fyrir þessa sýningu eða fjölmenningarverkefni í haust í samvinnu með leikskólunum tveimur hér í Grindavík. Ég vann með elstu og næst elstu nemendum leikskólanna og það lá beinast við að gefa þeim svolítið frelsi.“ Fyrir sýninguna var lögð áhersla á samvinnu og að læra að deila með öðrum. Einnig var áhersla á að finna hvað við eigum öll sameiginlegt, ásamt hjartanu og kærleikanum. „Það er svo mikilvægt að staldra við og hugsa um þetta allt. Við gerðum líka myndband þar sem er viðtal við börnin og þar er verið að spyrja þau um hjartað, hvað býr í því, hvar er það og annað slíkt. Svörin þeirra voru mörg hver mjög falleg. Þarna eru listamenn á ýmsum sviðum og þess vegna er svo mikilvægt að hlúa að þessu starfi með börnin. Það er mikilvægt að hlúa að þessari listrænu leið og skapandi hugsun og leyfa börnunum að blómstra.“
Í vinnunni fyrir sýninguna smíðuðu krakkarnir meðal annars kassatrommur en hver og einn fékk sína hlið á trommunni og þar lærðu þau að deila. „Hver og einn átti sína hlið og þannig lærðu þau samvinnu. Þessir nemendur eru ótrúlegir listamenn og gera hvert listaverkið á fætur öðru. Við unnum mikið með efnivið sem var til á leikskólunum, enda eru þeir báðir Grænfánaskólar, þar sem lögð er mikil áhersla á endurvinnslu. Mér finnst mjög mikilvægt að passa jörðina, náttúruna og annað slíkt.“
Hér vinnur Anna Sigríður með við.
Allir hafa listamann í sér Um þessar mundir er Anna Sigríður að vinna með þýskri konu sem er danshöfundur og dansari en þær hafa verið að koma fram saman, bæði hér á Íslandi, á Spáni og í Þýskalandi. Þær eru að þróa verkefnið sitt betur og ætla að sjá hvort þær finni ekki einhverja skemmtilega leið saman. „Ég er alltaf að vinna heima í skúlptúr, það er engin sýning þannig séð í bígerð á næstu mánuðum en það getur verið fljótt að breytast.“ Anna segist alltaf finna fyrir sköpunargleði og vil deila henni með öðrum. „Við höfum öll drifkraft í okkur og aðgang að risastórum potti þar sem að hugmyndirnar okkar eru en svo er það okkar að fara þangað og veiða þær. Í mínum verkum hef ég einmitt verið að vekja athygli á því að við erum öll eins í grunninn. Í dag snýst mín list svolítið um það að við vöknum til lífsins og finnum kærleikann og að við skiljum það að við erum öll mjög svipuð, alveg sama hvar við búum, hvernig við erum á litinn og hvar við búum á jörðinni.“
Myndir: Anna Sigríður Sigurjónsdóttir.