„Nú er mál að linni“ - Grindvíkingar óánægðir með stöðuna
Fyrirtæki hafa hag af stöðu í Grindavík
„Það munaði minnstu að ég hafi farið af fundinum með æluna upp í kok, svo mikið blöskraði mér. Að bjóða okkur Grindvíkingum upp á skýringu að taka þurfi mið af hvaða vindátt er þegar eldgos kemur upp, að bíllinn okkar geti bilað þegar við erum að rýma bæinn, það vantaði bara að segja að loftsteinn gæti lent á Grindavík,“ segir Magnús Gunnarsson, íbúi í Grindavík eftir fund sem Grindavíkurnefndin stóð fyrir í október en hann er mjög ósáttur við stöðu mála.
Á fundinum sem Grindavíkurnefndin stóð fyrir, var farið yfir áhættumatið, aðferðarfræðina og hvaða forsendur liggja að baki. Böðvar Tómasson, verkfræðingur hjá Örugg verkfræðistofa, fór yfir hvernig staðið er að gerð áhættumats fyrir þéttbýli Grindavíkur en stofan vinnur áhættumat fyrir Grindavík að beiðni framkvæmdanefndar vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ (Grindavíkurnefnd) í samvinnu við ríkislögreglustjóra.
Örugg verkfræðistofa ehf. hefur fengið greiddar rúmar 65 milljónir króna frá Ríkislögreglustjóra frá því Grindavíkurnefndin tók til starfa en tekið skal fram að ekki er vitað hvort sú upphæð er eingöngu vegna gerð umrædds áhættumats
Víkurfréttir fjölluðu nýlega um Sigmenn ehf. sem hafa haft miklar tekjur vegna starfsemi í Grindavík frá rýmingu í nóvember 2023. Sigmenn ehf. birtu nýlega ársreikning félagsins og kom þar í ljós að hagnaður fyrirtækisins jókst um 732% milli áranna 2023 og 2024. Segja má að fyrirtækið hafi hagnast vel á hamförunum í Grindavík.
Magnús Gunnarsson, íbúi í Grindavík, mætti á fundinn í október og var ekki par sáttur við stöðu mála.
„Það munaði minnstu að ég hafi farið af fundinum með æluna komna upp í kok, svo mikið blöskraði mér. Að bjóða okkur Grindvíkingum upp á skýringu með að taka þurfi mið af hvaða vindátt er þegar eldgos kemur upp, að bíllinn okkar geti bilað þegar við erum að rýma bæinn, það vantaði bara að segja að loftsteinn gæti lent á Grindavík, ég veit hreinlega ekki hvað ég á segja. Alveg eins og með Öryggismiðstöðina og hvað þá Sigmenn, þá er ekki erfitt að láta sér detta í hug að fyrirtækið sem gerir þetta áhættumat, hafi hag af því að ástandið sé talað upp í Grindavík. Á meðan ástandið er svona, er hægt að réttlæta að gera áhættumat sem byggist á þeirri hættu. Hvað ætlar fólk að láta bjóða sér þetta lengi? Nei, það er kominn tími til að við Grindvíkingar fáum lyklavöldin á nýjan leik og þessum skrípaleik og peningamokstrii í óþarfa ljúki.
Á sama tíma hefði verið hægt að klára allar sprunguviðgerðir og gera bæinn endanlega öruggan en hann hefur verið það að mínu mati síðan í ágúst í fyrra þegar þáverandi Grindavíkurnefnd var búin að fá fjármagn til að gera bæinn íbúðarhæfan, þ.e. að laga sumar sprungur en girða aðrar kirfilega af. Það er alls staðar hægt að koma sér í hættu. Nú er mál að linni,“ sagði Magnús.






