Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Vetrardekk unnin úr kísil
    Aníta Hauksdóttir kannaði möguleika á nýtingu kísils
  • Vetrardekk unnin úr kísil
    Aníta heillaðist af Auðlindagarðinum á Reykjanesi og vann verkefnið í samvinnu við hann. Mynd: Oddgeir Karlsson
Laugardagur 21. janúar 2017 kl. 06:30

Vetrardekk unnin úr kísil

-Aníta Hauksdóttir rannsakaði nýtingarmöguleika á kísil sem felldur er úr jarðhitavökva á Reykjanesi

„Já, ég tel þetta vera vannýtta náttúruafurð. Rannsóknin mín var á hráum, óunnum kísil en svo eru enn meiri möguleikar þegar búið er að vinna hann,“ segir Aníta Hauksdóttir, orkuverkfræðingur, aðspurð hvort hún telji kísil úr jarðhitavökva vera vannýtta náttúruafurð. Meistaraverkefni Anítu í orkuverkfræði við Háskólann í Reykjavík fjallaði um nýtingamöguleika hans, það er kísils sem felldur hefur verið úr jarðhitavökvanum á Reykjanesi. Niðurstöðurnar voru á þann veg að Aníta fann þrjár tegundir iðnaðar sem gætu mögulega nýtt þessa tegund kísils og var einn þeirra framleiðsla á vetrardekkjum. Þó þyrfti að gera frumprófanir og tilraunir með kísilinn og skoða frammistöðu hans í þessum tilteknu tegundum af iðnaði.

Niðurstöður sýndu að yfirborðsflatarmál kísilsins sem Aníta rannsakaði er mjög lágt, en það sem gerir kísil verðmætan er hátt yfirborðsflatarmál. „Það er þó hægt að breyta því með því að breyta ýmist sýrustiginu, hitastiginu eða einhverju álíka í útfellingakerfinu. Ég ráðlagði HS orku að kanna hverjar stýribreyturnar eru svo hægt sé að hækka yfirborðsflatarmálið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heillaðist af auðlindagarðinum
Í grennd við jarðvarmaver HS Orku á Suðurnesjum er starfræktur svokallaður Auðlindagarður þar sem lögð er áhersla á að nýta auðlindastrauma frá jarðvarmaverunum. Fyrirtæki Auðlindagarðsins nýta með beinum hætti tvo eða fleiri auðlindastrauma frá jarðvarmaverum HS Orku og verða því að vera staðsett á Suðurnesjum í grennd við jarðvarmaverin. Þannig er affall eins fyrirtækis hráefni fyrir annað og verður þannig til þverfaglegt samstarf. Aníta heillaðist af fyrirkomulaginu og hafði í huga að gera meistaraverkefni sitt um eitthvað tengt þessu. „Ég falaðist eftir því hvort það væru einhver verkefni þessu tengd, og þá helst jarðvarmanum. Kristín Vala Matthíasdóttir, aðstoðarleiðbeinandinn minn, sem er framkvæmdastjóri Auðlindagarðsins, kom þá með þessa hugmynd að rannsaka nýtingamöguleika kísilsis sem felldur er úr jarðhitavökvanum, þar sem markmið garðsins er að nýta allar auðlindir“

Tók heilbrigðisverkfræði fyrst
Aníta er nú komin í starf hjá fyrirtækinu Gerosion þar sem hún vinnur að svipuðum rannsóknum og hún gerði við meistaraverkefni sitt. „Þar erum við að rannsaka útfellingarmöguleika á öllum jarðvarmaverum landsins.“ Aðspurð hvaðan áhuginn á orkuverkfræði kviknaði segist Aníta hafa byrjað á að taka BSc í heilbrigðisverkfræði en fundið að þar lægi áhugi hennar ekki. „Ég fór að skoða hvað væri í boði á Íslandi, ég er ein með dóttur mína og var því ekki að skoða nám erlendis. Valið hjá mér stóð á milli vélaverkfræði og orkuverkfræði en mér fannst mjög spennandi áfangar í boði í hvoru tveggja. Ég er mjög ánægð að hafa valið þetta nám, mér finnst þetta mjög áhugavert og skemmtilegt.“ Spurð um draumastarfið segir hún það vissulega draumastöðu að fá starf sem er í raun beint framhald af verkefninu hennar. Annars er það að komast að hjá HS orku. „Þar eru nýsköpun og alls kyns rannsóknarverkefni í gangi og ég er mjög áhugasöm um það,“ segir Aníta.

 

[email protected]