Sorgin fer ekki neitt – en það er hægt að lifa með henni
Píeta samtökin hafa verið starfandi frá árinu 2018 en samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Píeta samtökin eru með stuðningsfund einu sinni í mánuði í Keflavíkurkirkju, þriðja mánudag hvers mánaðar klukkan 17:30. Víkurfréttir hittu Benedikt Guðmundsson, einn stofnanda Píeta samtakanna, og sr. Fritz Má Jörgenson, sóknarprest í Keflavíkurkirkju, til að fræðast um starfið sem fer fram í kirkjunni.
„Píeta samtökin eru að írskri fyrirmynd en fyrir nokkrum árum hitti ég írska konu sem kynnti mig fyrir hugmyndafræði Pieta House á Írlandi,“ segir Benedikt. „Ég ásamt góðum hóp fólks byrjuðum um 2014 að undirbúa stofnun samtakanna sem voru svo formlega stofnuð 2016 og starfsemin hófst 2018.“
Á heimasíðu Píeta samtakanna kemur fram að boðið er upp á viðtöl og stuðningshópa fyrir átján ára og eldri. Píetasíminn 552-2218 er opinn allan sólarhringinn og þá er einnig bent á Hjálparsíma Rauða Krossins 1717. Í neyðartilvikum skal ávallt hringja í 112.
Benedikt leiðir stuðningshópinn sem hittist í Kapellu vonarinnar í Keflavíkurkirkju, hann þekkir sjálfur vel til sorgarinnar og að takast á við missinn eftir sjálfsvíg en sonur hans tók eigið líf árið 2006, þá einungis 22 ára gamall.
„Við byrjuðum með þennan stuðningshóp hér í kirkjunni í fyrra og hittumst einu sinni í mánuði. Við erum svo heppin að vera með Benedikt Guðmundsson, sem er einn af stofnendum Píeta samtakann, og hann leiðir þessar stundir hjá okkur. Í rauninni gengur þetta út á að fólk kemur hér og hitti jafningja sína sem hafa reynslu af því að fást við þá sorg og þær tilfinningar sem fylgja því að hafa misst ástvin í sjálfsvígi,“ segir sr. Fritz og bætir við að það hafi líka komið fólk sem á aðstandendur sem eru í sjálfsvígshættu en ekki tekið eigið líf. „Því fylgir líka mikil tilfinngaleg óvissa og endurtekin sorg, því þú ert alltaf á milli vonar og ótta.“
„Starf okkar felst m.a. í því að styðja styðja fólk með sjálfsvígshugsanir, sjálfsskaða og aðstandendur þeirra,“ segir Benedikt. „Einnig aðstandendur þeirra sem hafa fallið fyrir eigin hendi. Hingað eru allir velkomnir sem þurfa á stuðningi okkar að halda og engum er vísað frá.“
Píeta samtökin vinna einnig í forvörnum og að fræða almenning um málefnið. Samtökin eru rekin á styrkjum, aðallega frá fyrirtækjum, félögum og einstaklingum en ríkið leggur málefninu einnig lið. Hlutur ríkisins mætti vera meiri en á Íslandi eru sjálfsvíg t.a.m. hæsta dánarorsök karla á aldrinum átján til 29 ára. Sr. Fritz bendir á að á árunum 2011 til 2020 voru að meðaltali 31 sjálfsvíg hjá körlum og níu hjá konum. „Hér falla nærri fjörutíu manns að jafnaði á ári hverju fyrir eigin hendi. Ef við sæjum þær dánartölur í umferðarslysum er ég hræddur um að við sæjum stjórnvöld leggja út í alls kyns úrbætur á vegakerfinu.
Píeta samtökin eru að veita alls kyns úrræði fyrir aðstandendur, og það er eitthvað sem fólk fær upplýsingar um hér, en það er fyrst og fremst samtalið. Það er ótrúlega dýrmætt að geta deilt reynslu, styrk og vonum í þessu og átta sig á að það sé líf eftir svona mikla sorg. Flestir eiga það sameiginlegt að upplifa það að sorgin fer ekki neitt – en það er hægt að lifa með henni,“ sagði sr. Fritz að lokum.