Skapandi skólastarf í Heiðarskóla í tuttugu ár
Heiðarskóli í Reykjanesbæ fagnar tuttugu ára afmæli á hausti komanda. Einmitt þess vegna ákváðu skólayfirvöld að hafa árlega leiksýningu skólans aðeins flottari en vanalega. Kardemommubærinn var settur á svið og notast var við handrit frá Þjóðleikhúsinu sem veitti skólanum góðfúslega leyfi fyrir því.
Guðný Kristjánsdóttir var leikstjóri sýningarinnar og Daníella Holm Gísladóttir, aðstoðarleikstjóri. Guðmundur Hermannsson var tónlistarstjóri en eins og flestir vita þá er heilmikið sungið í Kardemommubænum.
Guðný Kristjánsdóttir, leikstjóri, ásamt Daníellu Holm Gísladóttur, aðstoðarleikstjóra, en þær kenna báðar við Heiðarskóla.
Nemendur létu ljós sitt skína
Víkurfréttir litu inn rétt fyrir lokaæfingu, generalprufu og var andrúmsloftið rafmagnað af spenningi. Nemendur skólans voru í óða önn að farða andlit hvers annars og sögumenn voru að æfa í síðasta sinn. Mikið fjör og mikil stemning. Allir spenntir að fara á svið. Við ræddum við Bryndísi Jónu, aðstoðarskólastjóra, um framkvæmd skólans á þessu fræga leikverki.
„Á þessu 20. afmælisári skólans var útfærsla árshátíðanna með svolítið breyttu sniði. Leikrit Thorbjörns Egner um fólk og ræningja í Kardemommubæ var rauði þráðurinn í gegnum árshátíðina. Hugmyndin varð til hjá þeim Guðnýju Kristjáns, leiklistarkennara, og Mumma Hermanns, tónmenntakennara, en þau unnu saman að því að skipta lögum og atriðum niður á árganga, í annars vegar 1.–3. bekk og hins vegar 4.–7. bekk og settu saman handrit sem gerði atriði hvors aldursstigs að heildarverki. Umsjónarkennarar og Sigrún Gróa, forskólakennari, settu einnig mark sitt á atriði árganga með nemendum. Mikil vinna fór fram í undirbúningi þessa dags. Atriðin voru æfð í leiklistartímum hjá Guðnýju og söngvarnir sungnir í tónmenntatímum hjá Mumma og umsjónarkennurum. Leikmyndin var unnin í leikmyndavali hjá Gróu smíðakennara, búningahönnun í vali hjá Ástu Kristínu auk þess sem Kristín Sesselja og Lilja, myndmenntakennarar, undirbjuggu og leiddu nemendur í því verkefni að mála leikmynd á bogavegginn í salnum. Allir bekkir útbjuggu skreytingar. Magga E. og Auður Gunnars, stuðningsfulltrúar, stýrðu skreytingamálum af myndugleik. Sem sagt heilmikil vinna sem liggur að baki einni svona árshátíð.“
Hefð fyrir leiksýningum á árshátíð
„Við erum alltaf með leiksýningu á árshátíð og löng hefð komin á að unglingarnir okkar setji upp leikrit. Það eru þá nemendur sem eru í leiklistarvali skólans ásamt fleirum sem vilja taka þátt í uppsetningu á árshátíð. Eitt af aðalsmerkjum Heiðarskóla er einmitt leiklist sem Guðný Kristjánsdóttir á heiðurinn af en hún hefur leitt leiklistarvalið hjá okkur í nítján ár. Allir nemendur skólans í 1.–7. bekk fá eina kennslustund í leiklist á viku allt skólaárið. Svo er leiklistarval hjá 8.–10. bekk sem er alltaf vel sótt. Að taka þátt í unglingaleiksýningu er markmið hjá mörgum nemendum, á öllum aldri sem sagt en þeir fara margir hverjir ungir að stefna á að taka þátt í leikritinu þegar þeir verða unglingar í Heiðarskóla. Við leggjum áherslu á skapandi starf í skólanum því við sjáum hversu góð áhrif þetta hefur á nemendur okkar. Nemendurnir á yngsta stigi fara í dans- eða jógatíma einu sinni í viku í minni hópum og þar fyrir utan sækja nemendur á öllum aldri tónmennt, myndlist og leiklist. Við erum mjög hreykin af þessu starfi skólans sem við vitum að hefur mjög góð áhrif á nemendur á öllum aldri,“ segir Bryndís Jóna með bros á vör.
Heiðarskóli verður sem fyrr segir tuttugu ára gamall á árinu en hann var fyrsti skólinn sem byggður var sem heildstæður í Reykjanesbæ fyrir 1.–10. bekk. Skólinn var einnig sá fyrsti á landinu sem hannaður var með innangengt íþróttahús og sundlaug.