Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ormar borða afgangs nesti nemenda í Njarðvík
Grænkerið sem notað verður við moltugerðina kynnt fyrir nemendum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 17. október 2021 kl. 07:08

Ormar borða afgangs nesti nemenda í Njarðvík

Nemendur í 2. bekk Njarðvíkurskóla taka fyrsta Grænkerið í notkun

„Þetta er rosalega spennandi verkefni en við höfum verið að bíða eftir því að geta búið til moltu og við hlökkum rosalega mikið til,“ sagði Katrín K. Baldvinsdóttir, kennari í Njarðvíkurskóla, en hún á sæti í umhverfisteymi Njarðvíkurskóla. Nemendur í 2. bekk Njarðvíkurskóla eru byrjaðir að vinna moltu úr lífrænum úrgangi en verkefninu var ýtt úr vör síðasta föstudag þegar fyrsta svokallaða Grænkerið var tekið í notkun hjá krökkunum. Notaður verður lífrænn úrgangur sem fellur til í skólastofum hjá 2. bekk í vetur. Hann er settur í Grænkerið. Í kerinu eru haugánar eða maðkar sem hafa það starf að brjóta niður lífræna úrganginn og búa til moltu.

Hvernig varð þetta verkefni til?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við vorum að fara af stað með vinnuna hjá okkur í haust og m.a. að endurnýja umsókn skólans um Grænfánann sem Njarðvíkurskóli hefur haft frá árinu 2007. Við vildum bæta við umhverfismálin hjá okkur og sáum þá þetta Grænker og skólastjórinn sagði þetta nýja hugmynd inn í púkkið. Við kynntum okkur kerið og heyrðum í þeim sem selja þetta og urðum mjög spennt. Við vorum eiginlega spenntari en krakkarnir og iðuðum í skinninu að sjá hvernig þetta virkar,“ segir Steindór Gunnarsson, deildarstjóri í Njarðvíkurskóla, sem einnig á sæti í umhverfisteyminu.

Allur lífrænn úrgangur er flokkaður í sérstakt box í skólastofum og svo fer ál og pappír í annað box. Lífræni úrgangurinn fer svo í Grænkerið til haugánanna sem brjóta úrganginn niður og búa til moltu annars vegar og svo hálfhert te sem er mjög góður áburður fyrir plöntur.

Hvernig eru krakkarnir að taka þessu Katrín?

„Þau eru rosalega spennt. Við erum reyndar bara nýbyrjuð að sýna þetta og eigum eftir að fara með þetta út um allan skólann og það fá allir að fylgjast með þessu. Við ætlum að byrja smátt og sjá hvernig það gengur og svo verður framtíðin að bera það í skauti sér hvað gerist.“

Það er óhætt að segja að þið byrjið umhverfisverndina snemma með svona ungum krökkum, að fá þau í lið með sér?

„Það er alltaf best að byrja á þessum litlu. Þau læra þetta í leikskóla og svo verðum við að halda áfram. Þau fara með þetta heim og segja foreldrum sínum og þannig virkar þetta,“ segir Katrín og Steindór bætir við: „Ungt fólk er hugsandi yfir málum framtíðarinnar. Þegar við byrjum að kenna þeim þetta svona ungum þá skilja þau þetta miklu betur og það þarf að gera gangskör í öllum þessum málum.“

Flokkun í Njarðvíkurskóla er orðin hluti af skólamenningu. Bekkirnir í skólanum skipta niður á sig vikum í að taka upp rusl af skólalóðinni og þá er einnig allt rusl sem fellur til í skólastofum flokkað og sama á við um matsalinn. „Það fer allt þangað sem það á að fara og við erum að gera okkar besta,“ segir Katrín.

Haugánarnir mættir í vinnuna. Þeir ætla að sjá um að breyta lífrænum úrgangi sem fellur til í nestistímum nemenda í 2. bekk Njarðvíkurskóla í moltu og sérstakt te sem notað verður sem áburður á plöntur.

Fyrsti lífræni úrgangurinn kominn í grænkerið hjá 2. bekk í Njarðvíkurskóla. Banani, appelsína, vínber og sitthvað fleira sem haugánarnir ætla að gæða sér á næstu daga. 

Haukánarnir í Njarðvíkurskóla eiga uppruna sinn á Sólheimum í Grímsnesi og því með íslenskt blóð í æðum.