Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 27. ágúst 1999 kl. 20:45

ÖÐRU MEGIN HAFIÐ KALT OG HINUM MEGIN ELDAR JARÐA

Dr. Guðmundur Emilsson var á dögunum ráðinn menningarfulltrúi Grindavíkur en starfið er þríþætt. Hann er skólastjóri Tónlistarskóla Grindavíkur, tónlistarstjóri (kantór) kirkjunnar og sinnir öðrum menningarstörfum. Guðmundur er hámenntaður á sviði tónvísinda og á að baki langan feril á tónlistarsviðinu, bæði erlendis og hér heima. Guðmundur lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1971, BM-gráðu við Eastman tónlistarskólann í New York 1975, MM-gráðu frá tónvísindadeild sama skóla 1979 og lauk doktorsnámi (DMA) í kór-, óperu- og hljómsveitarstjórn frá Indiana University of Bloomington í Indiana 1994. Starfsferilinn hóf hann sem tónlistarkennari í Kópavogi, Hafnarfirði og á Laugavatni frá 1969-1972. Hann var stjórnandi Íslensku hljómsveitarinnar frá 1981 til 1992 og Sinfoníuhljómsveitar Íslands, af og til, milli 1980 og 1992. Jafnframt var hann stjórnandi Nýju strengjasveitarinnar 1980, Avanti! hljómsveitarinnar í Helsinki 1990, Esbo Stadsorkester í Finnlandi 1991, Sinfóníuhljómsveitar Álaborgar og Ensemble Instrumental de Grenoble í Frakklandi 1992, svo fátt eitt sé nefnt. Guðmundur var stjórnandi Söngsveitarinnar Fílharmóníu 1981-1986, hljómsveitar Tónlistarskólans 1982-1985 og við Þjóðleikhúsið 1987. Þá kenndi Guðmundur kór- og hljómsveitarstjórn, tónlistarsögu og tónheyrn við Tónlistarskólann í Reykjavík milli 1981 og 1989 og tónlistarsögu við H.Í frá 1991. Hann var tónlistarstjóri RÚV í átta ár frá 1989. Auk alls þessa hefur Guðmundur unnið margvísleg ritstörf m.a. greinaflokk í Morgunblaðið um tónlistarmál. Guðmundur hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar og má nefna Thor Thors American/Scandinavian Foundation 1975, námsstyrk frá Eastman School og Music og Indiana University 1973-1975 og 1979-1982, styrk úr Vísindasjóði 1981 og bjartsýnisverðlaun Bröstes 1987. Hvað felst í starfi menningarfulltrúa? „Starf menningarfulltrúa Grindavíkur felst í því að samræma og samhæfa þau öfl í bæjarfélaginu sem vinna að menningarmálum eða tengjast þeim með einum eða öðrum hætti, hvetja þessa aðila til að takast á við ný og ögrandi verkefni og auðga mannlífið.“ Hvers vegna eru Grindvíkingar að ráða til starfa menningarfulltrúa? „Ég tel að bæjarstjórn og bæjarstjóri hafi komist að þeirri niðurstöðu að það væri tímabært að rækta þessa hlið mannlífsins frekar, bæði til þess að styrkja bæjarfélagið inn á við og út á við, laða að fólk til búsetu sem leggur mikið upp úr öflugu menningarlífi. Ég held að Íslendingar geri sér ljóst mikilvægi menningarlífs. Á næstu 10 árum mun hér á svæðinu eiga sér stað gríðarleg uppbygging. Hér verður mann- og heilsuræktarmiðstöð á heimsmælikvarða er mun krefjast fjölda starfsfólks með sértæka menntun. Þá munu þeir fjölmennu gestir sem hingað leggja leið sína einnig gera kröfu um auðugt menningarlíf.“ Hvað olli því að þú sóttist eftir starfi menningarfulltrúa Grindavíkur? „Bláa Lónið hefur verið mér griðastaður til margra ára, vin og vinur í öllum veðrum, á öllum árstíðum. Smátt og smátt hef ég orðið hugfanginn af náttúrufegurð Reykjanesskagans sem ég skynjaði í upphafi sem berangur, oftast í roki og rigningu. Í rauninni skil ég loksins myndir Kjarvals til fulls. Hann var heillaður af hrauninu, nokkuð sem ég drakk í mig á síðustu yfirlitssýningu hans að Kjarvalsstöðum. Svo djúpt rista þessu hughrif, að ég var farinn að gæla við þá hugmynd fyrir mörgum árum að tengjast hrauninu nánar. Húsatóftarsvæðið hefur veitt mér kyrrðarstundir og verkar eins og segull á mig á sumarkvöldum. Þetta er einstakur staður, öðrum megin hafið kalt og hinum megin eldar jarðar. Að auki var ég svo lánssamur að dvelja í Grindavík sem drengur að sumarlagi og kynntist þá Einari Einarssyni, og urðum við trúnaðarvinir, forstjórinn og ég. Þegar Grindvíkingar auglýstu eftir skólastjóra Tónlistarskólans og tónlistarstjóra kirkjunnar var ég aðalstjórnandi Lettnesku Fílharmóníunnar í Riga, en orðinn þreyttur á stöðugum ferðalögunum og vildi aftur festa rætur heima á Íslandi. Í viðræðum mínum við bæjarstjóra kviknaði hugmyndin að starfi menningarfulltrúa sem síðan varð raunin.“ Þess má geta að Guðmundur er áfram listrænn stjórnandi hljómsveitarinnar í Lettlandi. Hvern telur þú að verði afraksturinn af störfum þínum? „Hér er ekki tjaldað til einnar nætur og markmiðin mörg og mislangt undan. Ég vonast til að ná fljótlega til grasrótar menningarlífs Grindavíkur og síðan, markvisst, auka vægi þessa málaflokks. Sjálfur yrði ég sáttur ef íbúar gætu sagt með sanni að menningarlíf bæjarins væri í hæsta mögulega gæðaflokki miðað við stærð samfélagsins.“ Megum við eiga von á að starf menningarfulltrúa verði jafn sjálfsagt í framtíðinni og t.d. starf bæjarverkfræðings? „Já, nútímamenn gera þá kröfu. Fyrir nokkrum árum voru það íþróttahús og fótboltavellir en nú er það menning, enda getur erlend afþreying aldrei fullnægt menningarþörf Íslendinga á Íslandi.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024