Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nýr skólastjóri í Gerðaskóla
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 27. ágúst 2023 kl. 09:04

Nýr skólastjóri í Gerðaskóla

Hefur sínar hugmyndir um rekstur grunnskóla | Er með bakgrunn úr tónlist og hefur einnig komið að opinberri stjórnsýslu

„Það eru breyttir tímar, hvort viljum við vinna með breytingunum eða á móti,“ spyr nýráðinn skólastjóri Gerðaskóla í Garði, Daníel Arason. Hann hefur sankað að sér ýmis konar reynslu, allt frá tónlist til opinberrar stjórnsýslu en tenging hans við Suðurnesin hófst árið 2019 þegar hann réði sig í starf hjá Sveitarfélaginu Vogum. Hann hefur ekki áður stýrt grunnskóla en er með sínar hugmyndir um hvernig hann vilji sjá rekstur slíkrar menntastofnunnar. Hann ætlar sér samt ekki að breyta heiminum og vill aðlagast hinu nýja vinnuumhverfi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Daníel er að austan, fljótlega hneigðist hugur hans að tónlist. „Ég er fæddur og uppalinn á Neskaupstað og bjó þar fram yfir menntaskólaaldur, er stúdent frá Verkmenntaskóla Austurlands sem er í Neskaupstað. Á þessum tíma var ég byrjaður í tónlistarnámi, var farinn að spila á píanó og orgel og fann að áhugi minn lá á því sviði, því lá beinast við að fara í tónmenntakennaranám í Tónlistarskóla Reykjavíkur og ég lauk því árið 1995. Eftir það fór ég aftur heim og réði mig sem tónmenntakennara og var líka organisti á Neskaupstað og næstu fjörðum, það er mjög algengt úti á landi að píanókennari sé líka organisti. Ég var í eitt ár á Neskaupstað og flutti mig svo yfir á Djúpavog þar sem ég tók við sem skólastjóri í tónlistarskólanum og var þar í þrjú ár og sinnti kirkjuorgelinu samhliða. Á þessum tíma var ég kominn með fjölskyldu og við fluttum okkur yfir á Eskifjörð og vorum þar í tólf ár. Ég menntaði mig meira á þessum tíma, lauk meistaraprófi í mennta- og menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst en svo urðu breytingar hjá fjölskyldunni, við fluttum til Reykjavíkur og á svipuðum tíma losnaði staða skólastjóra við Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Ég réði mig þangað en fjölskyldan var samt áfram í Reykjavík og þannig höfðum við hlutina næstu fjögur árin. Áfram hélt ég að bæta við mig menntun og kláraði BSc-gráðu í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri en eftir þessi fjögur ár í fjarbúð flutti ég suður og fékk vinnu hjá Sveitarfélaginu Vogum sem menningarfulltrúi.

Ég hafði sinnt orgelleikarastöðunni austur á fjörðum, fór í viku í senn og skaust í jarðarfarir og önnur einstök verkefni en eftir að ég byrjaði í vinnunni í Vogum þurfti ég að minnka orgelleikinn talsvert, ég spila í einni og einni athöfn í dag til að halda mér við. Í þessari vinnu í Vogum gat ég nýtt mér menntunina frá Bifröst, sem var m.a. menningarstjórnun, og þarna var ég farinn að vinna í opinberri stjórnsýslu og hugsaði með mér hvernig ég gæti bætt mig ennþá meira og hóf því enn og aftur nám, fór aftur í Háskólann á Bifröst og kláraði diplómanám í opinberri stjórnsýslu. Starfið í Vogunum þróaðist svo í að ég varð forstöðumaður stjórnsýslu, varð þá í leiðinni skrifstofustjóri og staðgengill bæjarstjóra. Þannig vann ég svo þar til síðasta vor þegar urðu breytingar á mínum högum, ég sá stöðu skólastjóra Gerðaskóla auglýsta, sótti um og þar með upphófst næsti kafli.“

Daníel og Friðgerður Ólöf Jóhannsdóttir á tónleikum með Queen og Adam Lambert.

Skólastjóri Gerðaskóla

Suðurnesjabær sér um fræðsluþjónustu fyrir Voga og þar sem Daníel hafði verið með puttana í þeim málum á meðan hann vann fyrir Voga þekkti hann til skólastarfsins í Suðurnesjabæ. Hann sótti um og eftir að tveir voru boðaðir í atvinnuviðtal hreppti hann hnossið. „Ég vissi um miðjan maí að ég fengi starfið og var ráðinn frá 1. júlí en fyrrum skólastjóri og aðstoðarskólastjóri, Eva Björk Sveinsdóttir og Guðjón Árni Antoníusson, voru svo góð að setja mig inn í starfið á meðan þau kláruðu svo ég var farinn að láta sjá mig hér í byrjun júní. Ég fékk að taka þátt í ferlinu með að ráða aðstoðarskólastjóra, Jón Ragnar Ástþórsson, sem er héðan úr Garði og var kennari og þekkir því vel til innan veggja skólans, sem er ekki verra. Eva lauk störfum 1. ágúst, það var gott að hafa hana með mér á meðan ég setti mig inn í hlutina og ég myndi segja að þetta fari vel af stað. Það hefur reyndar gengið erfiðlega að manna kennarastöður en þessi frábæri starfsmannahópur stendur þétt saman um að láta skólastarfið ganga með eðlilegum hætti og við tökum alltaf vel á móti góðum kennurum sem vilja slást í hópinn,“ segir Daníel.

Vill umræðu um farsímanotkun í skóla

Daníel er með sínar hugmyndir um hvernig hann vill sjá grunnskóla rekinn en ætlar sér ekki að breyta heiminum. Hann vill frekar aðlaga sig þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi og koma sínum pælingum hægt og bítandi að ef hann telur þörf á. Frá árum sínum fyrir austan, kannast hann við umræðuna um að fleiri en einn skólastjóri sé innan sveitarfélags. „Þessi umræða um að það sé einn skólastjóri yfir skólum innan sama sveitarfélags eða hvað þá bæjarfélags heyrist oft, sérstaklega í minni byggðum. Umræðan er háværari þegar kemur að tónlistarskólum enda færri nemendur sem eru í þeim skólum og fyrir austan t.d., þar sem ég vann sem skólastjóri viðkomandi tónlistarskóla, heyrðust þessar raddir oft. Mig grunar að aðalástæða umræðunnar sé að það sé talið ódýrara að hafa einn skólastjóra en ég er ekkert viss um að mikill sparnaður myndi hljótast af því, það væru þá fleiri deildarstjórar í staðinn, aukinn keyrsla skólastjórans, annarra stjórnenda og eftir atvikum annarra starfsmanna því þeir þyrftu að vera með viðveru á báðum stöðum svo kannski kæmi þetta út á það sama. Ég hef ekki reynsluna úr grunnskóla því þetta er mitt fyrsta starf sem grunnskólastjóri. Hér í Suðurnesjabæ eru t.d. tveir grunnskólar, einn í Garði og annar í Sandgerði. Ég mun að sjálfsögðu eiga samstarf við kollega minn í Sandgerði og við þurfum báðir að starfa undir stjórn fræðslunefndar sveitarfélagsins, hins vegar höfum við líka nokkuð frjálsar hendur varðandi hvernig við viljum sjá hlutina gerða. Í dag er t.d. nokkuð hávær umræða um farsímanotkun í skólum, hvort að eigi alfarið að banna þá eða hvað. Ef fræðsluráðið ákveður að það eigi alfarið að banna farsíma ber okkur auðvitað að fara eftir því en það er umræða sem ég tel að þurfi að taka á mun breiðari grunni. Þetta er ekki eins einfalt og sumir halda, þessi tæki eru að sumu leyti orðin hluti af kennslu barna. Það eru breyttir tímar, gamli skólinn þarf kannski að sætta sig við það og í stað þess að berja hausnum við steininn og finna þessu allt til foráttu er kannski frekar spurning um að finna leiðir til að vinna með tækninni. Auðvitað gerir engu barni gott að vera á samfélagsmiðlum í kennslustund. Í sumum fyrirtækjum er þráðlausa nettengingin þannig að starfsmenn geta ekki farið inn á samfélagsmiðla, það sama hlýtur að geta gengið upp í skólum. Þetta er flókið mál og ég tel mikilvægt að umræðan sé tekin á öllum stigum, allt frá nemendum, foreldrum og upp til skólastjórnenda, jafnvel pólitíkusa.“

Teymis- og fjarkennsla

Daníel er hrifinn af svokallaðri teymiskennslu, vill jafnvel sjá það hugtak þróast lengra og hann sér ákveðin tækifæri sem spruttu út frá COVID. „Ég er hrifinn af því sem hefur verið við lýði hér í Gerðaskóla, svokölluð teymiskennsla. Þá eru alltaf tveir kennarar í hverjum bekk og börnin látin vinna í hópum. Þegar ég var í skóla var árganginum skipt upp í tvo bekki og einn kennari var yfir hvorum bekk. Í Gerðaskóla er árgangurinn allur saman en með tvo kennara. Kennararnir skipta svo hópnum upp eftir því sem hentar, þessi börn saman í íslensku en hópaskiptingin síðan öðruvísi í ensku o.s.frv. Ég tel þetta mjög hentugt og af hverju ekki að skipta kennslunni svona upp líka á milli árganga? Í sumum skólum er notast við svokallaðan Bræðing, þ.e. teymiskennslu fyrir sjöunda til tíunda bekk þar sem nemendur vinna verkefni þvert á árganga og í hópum undir stjórn nokkurra kennara. Í fyrirtækjum er að verða algengara að starfsfólk flæði á milli starfstöðva, af hverju ættu börn ekki að geta verið í slíku flæði líka?

Annað sem ég vil líka skoða betur er það sem var, þannig séð, þröngvað upp á okkur í COVID, þ.e. fjarkennslan. Sumum börnum líður ekki vel í skóla, líður ekki vel innan um margmenni. Því ættu þau börn ekki að geta lært undir öðrum kringumstæðum? Ég er ekki að segja að það eigi að leyfa börnum að vera heima hjá sér en þau eiga að geta farið í annað umhverfi, séð kennslustundina t.d. á tölvuskjá og lært þannig. Ég hef verið í háskólanámi meira og minna síðan 2007 en hef varla stigið inn fyrir dyr viðkomandi skóla, ég lærði þetta allt í fjarnámi. Þetta er eitthvað sem mun aukast í framtíðinni tel ég og aftur, til hvers að berjast á móti þessu í stað þess að vinna með?“ segir Daníel.

Feðgarnir Rafal Stefán og Daníel eru gallharðir stuðningsmenn Man Utd.

Íslenska skólakerfið mjög gott

Nemendur af gamla skólanum vilja margir hverjir meina að uppeldi barna sé ábótavant í dag og skólarnir séu teknir við uppeldinu án þess að hafa nauðsynleg tæki þar að lútandi. Daníel er með sína skoðun á þessu. „Ég heyri alveg þessar raddir en ég get ekki alveg tekið undir þær allar. Þegar ég var í skóla og einhver gat ekki lesið var viðkomandi stimplaður sem tossi og vitleysingur. Ástæður að baki námserfiðleikum barna voru minna þekktar, ástæður eins og lesblinda, ofvirkni, einhverfa o.fl. Aldrei var spáð í hvort óþekka barnið var ofvirkt eða með athyglisbrest. Í dag getum við gripið inn í miklu fyrr og það er af hinu góða, það er í raun búið að færa kennaranum vopnin í hendurnar því hann getur strax séð ef eitthvað bjátar á. Auðvitað er breyttur tíðarandi, hér áður fyrr var algengara að móðir eða amma barns biði heima þegar barnið kom heim úr skóla. Í dag eru oftast báðir foreldrar útivinnandi og því má kannski segja að uppeldið sé að einhverju leyti búið að færast inn í skólana. Mér finnst mjög mikilvægt að við sem samfélag viðurkennum skyldur foreldra til að taka virkan þátt í uppeldinu og fræðslunni með skólakerfinu.

Ég tel skólakerfi okkar Íslendinga vera mjög gott. Í dag er farið að einstaklingsmiða námið meira í stað þess að setja alla undir sama hatt. Við getum að sjálfsögðu bætt okkur, t.d. höfum við ekki verið að koma vel út úr Pisa-könnuninni, sérstaklega varðandi lestrarkunnáttu drengja. Við getum bætt okkur þar og munum gera það. Stundum er áherslan á hraðlestur gagnrýnd, ég held að hún sé ekki meiri í dag en hún var en skilgreiningin á góðri lestrarfærni er í raun að geta lesið hratt og rétt. Það eru einhver merki um versnandi lestrarkunnáttu barna og við þurfum að taka það alvarlega og vera sífellt að leita leiða til að bæta hana hjá öllum nemendum.

Ég hlakka til að takast á við þetta starf og ætla að láta gott af mér leiða. Ég þekkti vel til skólans áður en ég sótti um vegna vinnu minnar hjá Vogum og ég hef kynnt mér hann ennþá betur eftir að ég hóf störf. Mér líst mjög vel á stefnuna, það eru skýrar áætlanir fyrir hendi og ég er greinilega að taka við góðu búi. Ég er ekki hættur námi og stefni ótrauður á að geta skellt fimm puttum fram eins og Georg Bjarnfreðarson og sagt; „ég er með fimm háskólagráður!“ Það er auðvitað sagt í gríni en ég tel mjög gott að þróa sig stöðugt áfram, halda heilasellunum vel vakandi,“ sagði Daníel að lokum.